SAMSTÖÐUgrill í Hjómskálagarðinum á morgun

Categories
Tilkynningar

Á morgun, sem er 19. júní, munu aðildarfélög SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar standa fyrir SAMSTÖÐUgrilli í Hljómskálagarðinum. Félagsmönnum og velunnurum flokksins er boðið að taka þátt í viðburðinum sem hefst klukkan 17:00 og stendur til klukkan 19:00.

Tilefnið eru lok fyrstu starfslotu flokksstarfsins og er markmiðið að ljúka því með samveru í góðum félagsskap. Það eru aðildarfélögin í Reykjavík og Kraganum ásamt ungliðahreyfingunni sem standa að viðburðinum en einhverjir úr stjórn flokksins verða líka á staðnum.

Boðið verður upp á pulsur og gos á kostnaðarverði en gestum er líka velkomið að taka með sér eitthvað matarmeira á grillið. Gestum gefst einnig kostur á að kaupa sumarlega boli með merki flokksins en þeir verða seldir á 2.000 kr. stykkið.

Þar sem Hljómskálagarðurinn eru nokkrir fermetrar er rétt að benda á að viðburðurinn mun eiga sér stað í skjólinu við leiktækin sem eru Hringbrautarmegin í garðinum.

Kór Heimavarnarliðsins og Tunnanna ætlar að koma í heimsókn um kl. 17:30 og taka nokkur lög við undirleik hljómborðsleikarans Hjartar Howser. Lögin á efnisskránni eru ýmis þekkt lög við texta sem hafa verið færðir til samtímaveruleika eða lög sem hafa verið samin sérstaklega um veruleika samfélagsins eftir hrun.

Veðurguðirnir hafa verið svolítið tvístígangi gagnvart því hvaða veður skuli boðið upp á fyrir morgundaginn en nú er útlit fyrir að það verði þurrt en sennilega skýjað. Skipuleggjendur búast því við góðum hópi félagsmanna og annarra velunnara flokksins til að njóta samverunnar með í afslappaðri stemmingu Hljómskálagarðsins.

Á það skal bent að viðburður hefur verið stofnaður inni á Facebook þar sem sagt er frá þessari samkomu. (Sjá hér)