Velheppnuð grillveisla SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar

Categories
Fréttir

Seinnipart þriðjudagsins 19. júní stóðu aðildarfélög SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar í Reykjavík og Kraganum ásamt ungliðahreyfingu flokksins fyrir SAMSTÖÐUgrilli. Tilefnið var að skapa vettvang fyrir félagsmenn til þess að hittast, eiga góða samverustund og fagna fyrstu starfslotunni í starfi hins unga en ferska stjórnmálaflokks sem stofnaður var formlega þann 15. janúar 2012.

Félagsmenn áttu saman mjög ánægjulega stund þar sem spjallað var saman í fallegu umhverfi Hljómskálagarðsins, gætt sér á grilluðu góðgætinu, horft á börnin leika í leiktækjunum og dillað sér undir skemmtilegu tónlistaratriði Kórs heimavarnarliðsins og tunnanna. Kórinn tók meðal annars lag Helga J. Óskarssonar Stöndum saman við góðar undirtektir viðstaddra. Að lokinni vel heppnaðri grillveislu héldu allir glaðbeittir út í sumarið.

Á þessum fyrstu fimm mánuðum flokksins hefur gríðarlegt starf verið unnið að því að byggja upp flokkinn og kynna hann fyrir almenningi. Við höfum meðal annars farið á kynningarfundi vítt og breitt um landið þar sem við höfum hitt ógrynni fólks sem hefur sýnt áhuga á því að ganga til liðs við og styðja SAMSTÖÐU flokk lýðræðis og velferðar. Flokkurinn og aðildarfélög hans hafa einnig staðið fyrir þó nokkrum fundum þar sem sum þeirra mikilvægu málefna sem við stöndum frammi fyrir sem þjóð hafa verið rædd ítarlega af félagsmönnum ásamt sumum af okkar færustu sérfræðingum á hverju sviði. Sem dæmi um slíka fundi má nefna fundarröðina “Fjármálastefnan og framtíðin” en upptökur af þeim fundum verða aðgengilegar á internetinu.

Framundan er áframhaldandi málefnastarf og uppbygging stjórnmálaaflsins og hvetjum við alla þá sem vilja láta til sín taka við uppbyggingu betra samfélags og telja hugmyndir sínar falla innan grundvallarstefnuskrá SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar að slást í hópinn með okkur.

Stjórnir SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar ásamt stjórnum aðildarfélaganna og ungliðahreyfingarinnar þakka öllum þau góðu störf sem unnin hafa verið fyrir SASMTÖÐU flokk lýðræðis og velferðar ásamt því sem við óskum öllum ánægjulegs sumars 🙂