Það má draga lærdóm af peningastjórnun undangengina ára

Categories
Fréttir

Eitt af markmiðum SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar með stofnun aðildarfélaga er að þau stuðli að styrkingu og framgöngu flokksins. Það var tilefni þess að stjórn SAMSTÖÐU-Reykjavík stóð að framhaldsfundaröðinni: Fjármálastefnan og framtíðin. Markmiðið með fundunum var að kynna aðrar leiðir sem hafa notið minni athygli en stefna stjórnvalda í efnahagsmálum sem miðar að því að taka upp evru. Framsögumennirnir sem fluttu erindi á fundunum eru allt vel menntaðir og metnir sérfræðingar á sviði peningamála. Þeir eiga það líka allir sameiginlegt að mæla með að fleiri en ein leið verði skoðuð. Þessi eru: Frosti Sigurjónsson, Jón Helgi Egilsson, Sigurður Hannesson og Lilja Mósesdóttir sem öll eru einkar vel heima í efnahagsstöðu landsins.

Fyrirlestur Jóns Helga Egilssonar

Mánudagskvöldið 11. júní var síðasti fundur áður nefndrar framhaldsfundarðar haldinn þar sem kalrmennirnir í hópnum fluttu útdrætti úr erindum sínum frá fyrri fundum en Lilja Mósesdóttir rak lestina sem aðalframsögumaður kvöldsins. Inntak erinda þeirra allra var það hvernig hægt er að tryggja að hér verði ekki önnur fjármálakreppa og koma í veg fyrir að börnin okkar verði gerð að skuldaþrælum. Fundurinn var einkar vel heppnaður fyrir utan það hve fáir gáfu sér tækifæri til að njóta hans. Frétt af fundinum er að finna hér en erindin voru öll tekin upp og eru þrjú þeirra komin í dreifingu á Netinu. Þeir sem misstu af fundinum af einhverjum ástæðum geta þess vegna kynnt sér efni hans af þessum upptökum.

Það er ætlunin að vekja athygli á þessum erindum hér á síðunni og hefur erindi Frosta Sigurjónssonar nú þegar fengið slíka kynningu. Hér er það svo erindi Jóns Helga Egilssonar, hagfræðings:

Jón Helgi Egilsson flutti einkar fróðlegan fyrirlestur þar sem hann dró saman reynsluna af peningastjórnuninni á Íslandi og hvað hægt er að læra af henni. Hann benti á að í grundvallaratriðum hefði sú stefna sem hefur verið stuðst við hér á landi stjórnast af draumnum um stöðugt gengi sem hann rakti aftur til myntbandalags Norðurlandanna frá aldamótum 19. og 20. aldar. Draumurinn um stöðugt gengi verður hins vegar að styðjast við undirliggjandi efnahag annars getur farið illa eins og Jón Helgi dró fram.

Verðbólgumarkmið og vaxtamunaviðskipti

Gjaldeyrishöft voru fyrst sett á hér árið 1920 og svo aftur 1931 en draumurinn um stöðugt gengi var ástæða þeirra. Svokölluð verðbólgumarkmið varð tíska í seðlabankaheiminum í kringum síðustu aldamót en þau miðast við það að reyna að stýra genginu. Þessi tískubóla var ekki langlíf þar sem henni var gefið dánarvottorð eftir tæplega eins áratugs líftíma. Sú stýring sem fólst í þessari aðferð gekk út á það að reyna að koma í veg fyrir verðbólgu þótt gengið félli. Það var gert með því búa til svokallaðan vaxtamun.

Ein afleiðing þessa vaxtamunar var sú að það varð áhugavert fyrir aðila á fjármálamarkaði að taka lán í lágvaxtamyntum og færa innistæðurnar til Íslands til að fá háa vexti en fara síðan út aftur. Þetta var gert í aðdraganda hrunsins sem varð hér 2001. Svarið við því hruni var ekki gjaldeyrishöft heldur erlendar innistæður sem fjármögnuðu viðskiptahallann. Þetta sama gerðist svo aftur í aðdraganda efnahagshrunsins haustið 2008 sem þýðir að í báðum tilvikum var viðskiptahallinn fjármagnaður með svokölluðum vaxtamunaviðskiptum.

Jón Helgi sýnir hvernig vaxtamunaviðskiptin fjármögnuðu viðskiptahallann í aðdraganda 2001

Frá árinu 2005 styrktu kaupendur jöklabréfanna gengi íslensku krónunnar. Þeir uppfylltu þannig drauminn um stöðugt gengi en um leið og þeir tóku að fara út undir haustið 2007 byrjaði gengið að fara niður. Á endanum varð ljóst að það réði enginn neitt við neitt. Svarið voru núverandi gjaldeyrishöft. Jón Helgi minnir á að þeir sem nýttu sér þessi vaxtamunaviðskipti gáfu Seðlabanka Íslands bikar fyrir vel unnin störf.

Verðbólguvæntingar

Næst vék hann að þeim þáttum sem stýra verðbólgu en það eru ýmsir vélrænir þættir eins og verðbólguvæntingar. Eitt hlutverk Seðlabankans er að mæla verðbólguvæntingar og tryggja að þær séu hóflegar og hafa þannig áhrif á hvernig verðbólga þróast. Í þessu samhengi er athyglisvert að yfirlýsingar frá Seðlabankanum um það hvernig á að halda verðbólgunni niðri hafa haft verðbólguhvetjandi áhrif og er erfitt að skýra þessa staðreynd nema með þverrandi trúverðugleika peningastjórnunar bankans.

Trúverðugleikinn er farinn sem kostar verðbólgu vegna verðbólguvæntinganna sem byggja á draumnum um stöðugt gengi. Draumurinn endurspeglar ekki undirliggjandi hagkerfi sem leiðir til þess að því er almennt ekki trúað að þær aðgerðir, sem kemur fram að Seðlabankinn muni grípa til í þeim tilgangi að halda verðbólgunni niðri, muni virka.

Því næst vék Jón Helgi nokkrum orðum að þróuninni á Evrusvæðinu þar sem hann vakti sérstaka á því sem þar hefur verið að koma fram. Þegar hlutirnir eru skoðaðir þar kemur í ljós að eignir Þýskalands, Hollands og Lúxemborgar eru að aukast á sama tíma og það er að verða til nánast sambærileg skuld í efnahagsreikningum Írlands, Ítalíu, Grikklands og Spánar.

Lærdómurinn

Þá dró Jón Helgi saman fjórar stiklur sem vert er að byggja á til að læra af reynslu undangenginnar peningastjórnunar:

  1. Gengi ætti að vera birtingarmynd efnahagslífsins og þess vegna hættulegt, fyrir það hve afdrifaríkt það getur verið, að fikta í því.
  2. Óraunhæfir draumar um stöðugt gengi óháð efnahag er ástæða hafta 1920, 1931 og 2008.
  3. Vaxtamunaviðskipti voru lán sem fjármögnuðu falskan kaupmátt í aðdraganda hrunsins.
  4. Lánin komu á gjalddaga og úr varð hrun krónunnar og gjaldeyrishöft.

Að lokum benti Jón Helgi á að draumurinn um stöðugt gengi væri ekki séríslenskt vandamál þar sem draumurinn um stöðuga evru er fjármagnaður með lánum og um leið kaupmátturinn. Í beinu framhaldi minnti hann á það að lán komast á gjalddaga. Skortur á trúverðugleika býr til verðbólgu. Það er þess vegna ekki nóg að aflétta gjaldeyrishöftunum. Það sem tekur við verður að vera trúverðugt því öðru vísi verður niðurstaðan aðeins framhald þess sem á undan er gengið.