AGS mælir með eignaupptöku

Categories
Greinar og viðtöl

Í kjölfar sjónvarpsfrétta á RUV sl. föstudagskvöld skrifar Kristinn Snævar Jónsson færslu á bloggsvæði sínu sem hann nefnir: „AGS mælir fyrir eignaupptöku á Íslandi fyrir braskara“. Tilefnið er þessi frétt þar sem sagt er frá hugmyndum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um afnám gjaldeyrishaftanna. Kristinn segir:

Þessar hugmyndir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um útgáfu skuldabréfa í erlendri mynt og rakalausri hækkun stýrivaxta, eins og kom fram í viðtölum fulltrúa sjóðsins í sjónvarpsfréttum í gær, bera allar að sama brunni:

Að koma sem mestu af upphæð svonefndrar „snjóhengju“ yfir í erlendan gjaldeyri til að tilgreindir eigendur innstæðnanna sem hér um ræðir (vel yfir 1000 milljarðar kr) geti flutt þær úr landi í erlendri mynt. Eftir sæti íslenskt efnahagslíf á heljarþröm og íslenskur almenningur í skulda- og skattaklöfum til frambúðar. Þarna er ekki verið að hugsa um velferð íslensku þjóðarinnar heldur hagsmuni viðkomandi innstæðueigenda sem eru samkvæmt þessu ómótmælanlega undir styrkum verndarvæng AGS eðli málsins samkvæmt.

Lilja Mósesdóttir, sem leiðir SAMSTÖÐU flokk lýðræðis og velferðar, hefur ítrekað bent á úrræði sem duga til lausnar á þessum yfirvofandi snjóhengjuvanda. [sjá m.a. fyrirlestur um þetta efni hér] Sú lausn felst í því að „verðfella“ þessar inneignir á sanngjarnan hátt með því að taka upp nýja íslenska mynt, Nýkrónu, þar sem þessar innistæður fengjust ekki yfirfærðar í hina nýju mynt (og í framhaldi af því e.t.v. í gjaldeyri) nema á ca. 90% lægra gengi en aðrar innstæður og fjármunir.

Upptaka á Nýkrónu yrði nauðsynleg ef ekki reynist löglegt að setja tilsvarandi háan „útgönguskatt“ á snjóhengjuinnstæðurnar þannig að aðeins lítill og bærilegur hluti hennar færi úr landi í erlendri mynt. Tilgangurinn er að verja hagsmuni almennings á Íslandi og komast hjá hörmungum.

Þessi bráðnauðsynlega niðurskrift á snjóhengjuinnistæðunum ber að skoða í ljósi þess að þeir aðilar sem eiga hana munu hafa fengið þessa fjármuni fyrir „slikk“ eða um 4% af nafnverði í kjölfarið á hruni bankanna! Þeir ætla sér hins vegar að græða margfalt (25-falt) á braski sínu á kostnað almennings á Íslandi og hafa hingað til notið dyggilegrar aðstoðar AGS og talsmanna sjóðsins erlendis og hérlendis við það. Þetta má þeim aldrei takast.

Þeir íslensku stjórnmálamenn sem vísvitandi eða af óvitahætti ætla sér að styðja þessa stefnu AGS og framfylgja henni í reynd eru ekki sannir fulltrúar íslensku þjóðarinnar. Þeir myndu þá opinbera sig sem hagsmunagæslumenn annarra nú í aðdraganda næstu kosninga.

Alþingismenn hafa ráð landsins í hendi sér. Þeir skulu hugleiða það vandlega og aldrei gleyma að þjóðin kýs þá hverju sinni til að gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar í heild.

Þessi pistill hefur áður birst á bloggsíðu Kristins Snævars Jónssonar

Höfundur er félagi í SAMSTÖÐU flokki lýðræðis og velferðar