Guðrún Bryndís Karlsdóttir, sjúkraliði og verkfræðingur, hélt afar fróðlegan fyrirlestur um stöðuna í heilbrigðismálum hér á landi á fundi sem var haldinn á vegum stjórnar SAMSÖÐU-Reykjavík í gærkvöldi. Fundurinn fór fram að Ofanleiti 2. Þó hann væri frekar fámennur, ekki nema um tuttugu manns, þá spunnust afar fróðlegar umræður í kjölfar erindis hennar.

Í stuttu máli má draga kjarna þess sem kom fram í vönduðum fyrirlestri Guðrúnar Bryndísar saman með því að benda á að heilbrigðisþjónustan í landinu líður fyrir stefnu stjórnvalda varðandi það hvernig heilbrigðiskerfið skal uppbyggt. Þar má m.a. benda á þá sérkennilegu þróun að öll þjónusta sem lögð er niður er beint á Landspítalann eins Guðrún Bryndís benti á í erindi sínu:
Með fjárlögum virðist þjónustu á öllum stigum stýrt til LSH:
- Sameining St. Jó við LSH
- Sameining Sogns við LSH
- Næturþjónusta heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins lögð af
- Bráðamóttaka LSH tekur við
- Styttri opnunartími Barnalæknavaktarinnar
- Bráðamóttaka barna á LSH tekur við
- Minni framlög til heilbrigðisstofnana
- LSH tekur við
Um leið og SAMSTAÐA þakkar Guðrúnu Bryndísi fyrir afar fróðlegt og vekjandi erindi skal bent á að síðasti fundurinn á vegum stjórnar SAMSTÖÐ-Reykjavík fer fram fimmtudagskvölið, 6. desember. Aðalframsögmaður á þeim fundi verður Harpa Njálsdóttir, félagsfræðingur. Fundurinn verður auglýstur nánar síðar í vikunni.