Barátta sem skilaði árangri

Categories
Fréttir

Það var stór dagur síðasta mánudag í sögu þeirrar réttlætisbaráttu sem hófst hér á landi í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008. Fagnaðarbylgjan sem fór um samfélagið þegar úrskurður EFTA-dómstólsins í Icesave-málinu lá fyrir var nánast áþreifanleg. Kannski ekki skrýtið þegar það er haft í huga að þetta mál hefur hangið yfir þjóðinni allt þetta kjörtímabil eins og eggslegin mara í fjórum langdregnum þáttum. Það væri vissulega þess virði að rifja upp aðalatriði hvers þáttar en það er ekki markmiðið að þessu sinni heldur að draga saman viðbrögð forystu SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar.

Eftirfarandi er týnt saman af fésbókarveggjum þeirra sem eru í forystu framkvæmdaráðs SAMSTÖÐU og tveggja stjórnarmeðlima flokksins:

Lilja Mósesdóttir, þingmaður og formaður framkvæmdaráðs SAMSTÖÐU: „Ég er rosalega stolt af öllum þeim sem tóku þátt í baráttunni gegn Icesave samningunum í dag. Grasrótarsamtökunum eins og: Indefence, Advice og Samstöðu þjóðar gegn Icesave sem voru óþreyttandi í að koma á framfæri rökum með málstað okkar í Icesave og söfnuðu undirskriftarlistum. Öllum þeim sem mættu á Bessastaði og hvöttu forsetann til að senda Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu og greiddu síðan tvisvar atkvæði gegn Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu. Takk fyrir mig!!“

Í tilefni dagsins var dómur EFTA-dómstólsins settur á dagskrá þingsins. Lilja var ein þeirra sem tók til máls. Þar minntist Lilja þáttar grasrótarinnar í lyktum mánudagsins. Hún vék líka að afleiðingum þess að hún og fleiri innan VG sem hafa verið kenndir við villiketti settu sig upp á móti Icesave (ræðuna má lesa hér). Ræða hennar vakti þó nokkra athygli og var hún m.a. í viðtali við blaðamann mbl.is vegna hennar þar sem hún fer aðeins ýtarlegar ofan í það hvernig andstaðan við Icesave sumarið 2009 varð upphafið af því að hún ásamt fleirum hafa sagt sig úr VG á kjörtímabilinu (sjá hér).

Lilja birti svo þessa mynd Halldórs frá 4. nóvember 2009 í gærmorgun en myndin sýnir hana að vekja upp Icesave-drauginn. Myndin birtist í Morgunblaðinu.

Lilja Mósesdóttir með augum Halldórs að vekja upp Icesave-drauginn

Rakel Sigurgeirsdóttir, varaformaður framkvæmdaráðs SAMSTÖÐU og jafnframt kynningar og tengslafulltrúi flokksins, setti þetta inn á fésbókarvegg sinn í kjölfar frétta af niðurstöðu dómsins:

HÚRRA fyrir okkur! Húrra fyrir dómurunum! Húrra fyrir heiðarlegri baráttu fyrir réttlæti! Húrra fyrir öllum þeim sem lögðu sitt af mörkum til að koma í veg fyrir að Icesave-klúðri Landsbankans yrði velt yfir á íslenskan almenning 🙂

Baráttan var löng. Hún byrjaði inni á þingi upp úr miðju sumri 2009 en út úr því dæmi urðu villikettirnir til. Þá var það Indifence-hópurinn svo kjosum.is, sem stóð að undirskriftarsöfnuninni í upphafi árs 2011, og loks Advice-hópurinn og Samstaða þjóðar gegn Icesave.

Já, baráttan var löng og ströng en samstaða þjóðar hafði betur gegn fjármálavaldinu. Niðurstaðan varð sú að þrátt fyrir allt þá eru til lög sem vernda þjóðríki gegn ætlan slíkra afla!

HÚRRA!!! og til hamingju öll!!! Koss og kram yndislega, dásamlega fólk!! Knús í botn til ógleymanlegra baráttufélaga!! […]

Jón Þórisson, stjórnarfulltrúi SAMSTÖÐU, var greinilega hugsað til Evu Joly sem hafði hringt og óskað honum til hamingju með niðurstöðu dómsins. Hann póstaði m.a. grein sem birtist í The Guardian  daginn fyrir seinni þjóðaratkvæðadaginn sem var 9. apríl 2011 (sjá tengil á greinina hér). Eins og við var að búast er margt sem sækir á hugann þegar niðurstaðan í dómsmálinu vegna Icesave er loksins komin fram. Það er því líklegt að þeir hafi verið fleiri en Jón sem var hugsað til Svavars: „Niðurstaðan er glæsileg en hefur einhver heyrt í Svavari Gestssyni í dag?“

Jón Kr. Arnarson, annar stjórnarfulltrúi SAMSTÖÐU, var líka greinilega þungt hugsi þó þankar hans leituðu greinilega frekar til þess sem hefur verið efst á baugi ríkisstjórnarinnar að undanförnu. Jón Kr. setti þetta á vegginn sinn á mánudaginn:

Það er margt ágætt í drögunum að nýrri stjórnarskrá og flest til bóta. Þó er þar einn stór galli. Samkvæmt tillögum Stjórnlagaráðs geta mál eins og IceSave-málið ekki farið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í ljósi tíðinda dagsins á þingið tvo kosti:

1. Breyta ákvæðum um þjóðaratkvæðagreiðslu í tillögum Stjórnlagaráðs á þann hátt að mál samsvarandi IceSave-málinu verði hægt að vísa til þjóðarinnar.

2. Að öðrum kosti að setja stjórnarskrármálið á ís fram yfir kosningar og fara betur yfir málið í haust.

Samantekt: rakel@xc.is