Villikettirnir gáfu þjóðinni svigrúm

Categories
Þingfréttir

Síðastliðinn mánudag var niðurstaða EFTA-dómstólins í Icesave-málinu opinberuð. Af þessu tilefni hafði verið settur niður sérstakur dagskráliður á Alþingi sem hófst á skýrslu utanríkisráðherra. Alls tóku ellefu þingmenn þátt í umræðunni um dóm EFTA-dómstólsins um Icesave auk utanríkisráðherrans. Lilja Mósesdóttir var ein þeirra en í ræðu sinni þakkaði hún þeim grasrótarsamtökum „sem tóku þátt í baráttunni gegn Icesave-samningum“ sérstaklega fyrir þeirra aðkomu.

Hún vék líka að afleiðingum andstöðu sinnar og annarra innan Vinstri grænna við Svarssamninginn sumarið 2009: „Andstöðu minni við Icesave I og annarra sem uppnefndir hafa verið villikettir var mætt af mikilli hörku af hálfu stjórnarliða og stjórnarslitum stöðugt hótað ef við, villikettirnir, samþykktum ekki samninginn.“ Því má svo við þetta bæta að í dag hafa þeir sem tilheyrðu þessum hópi allir yfirgefið VG nema einn.

Í máli sínu kom hún líka að mikilvægi þess að þjóðin viðhéldi stjórnarskrártryggðum rétti sínum „til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum og varðandi skattaleg málefni.

Íslendingar hafa nú eftir EFTA-dóminn sýnt fram á mikilvægi þess að þjóð hafi stjórnarskrártryggðan rétt til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum og varðandi skattaleg málefni.

Við megum því ekki samþykkja stjórnarskrártillögur sem ekki tryggja rétt kjósenda til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um mál af sama toga og Icesave-málið.

Ræða Lilju Mósesdóttur um dóm EFTA-dómstólsins um Icesave frá 28. janúar 2013:

Virðulegi forseti. Ég óska þjóðinni til hamingju með fullnaðarsigur í Icesave-málinu. Tíminn vann með okkur í málinu en hann leiddi líka til ósættis. Ekki síst meðal pólitískra samherja. Sigurinn eigum við að nota til að sameina þjóðina og læra af öllum þeim fjölmörgu mistökum sem gerð voru í þessu sorglega máli, allt frá miðju ári 2008.

Í dag er ég þakklát öllum þeim sem tóku þátt í baráttunni gegn Icesave-samningnum. Vil ég sérstaklega nefna grasrótarsamtök eins og Indefence, Advice og Samstöðu þjóðar gegn Icesave en þau samtök voru óþreytandi í því að koma á framfæri rökum fyrir málstað okkar í Icesave-málinu og söfnuðu jafnframt undirskriftalistum sem þau færðu forseta Íslands.

Ég er stolt af öllu því fólki sem mætti til forsetans í janúar 2010 til að hvetja hann til að senda Icesave-samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu og greiddu tvisvar atkvæði gegn ríkisábyrgðinni. Icesave er mál sem margar aðrar þjóðir treystu ekki kjósendum til að segja álit sitt á í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Íslendingar hafa nú eftir EFTA-dóminn sýnt fram á mikilvægi þess að þjóð hafi stjórnarskrártryggðan rétt til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum og varðandi skattaleg málefni.

Við megum því ekki samþykkja stjórnarskrártillögur sem ekki tryggja rétt kjósenda til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um mál af sama toga og Icesave-málið. Icesave er mál sem legið hefur þungt á þjóðinni í rúm fjögur ár.

Andstöðu minni við Icesave I og annarra sem uppnefndir hafa verið villikettir var mætt af mikilli hörku af hálfu stjórnarliða og stjórnarslitum stöðugt hótað ef við, villikettirnir, samþykktum ekki samninginn. Hæstvirtur ráðherra VG, Ögmundur Jónasson, neyddist meira að segja til þess að segja af sér vegna andstöðu við samninginn til að bjarga ríkisstjórninni frá falli.

Icesave-málið klauf VG og var upphafið að brotthvarfi mínu úr flokknum.

Virðulegi forseti. Niðurstaða EFTA-dómsins er því mikið fagnaðarefni fyrir okkur sem beittum okkur gegn samþykkt Icesave frá því í júní 2009. Sú barátta gaf þjóðinni svigrúm til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu.

rakel@xc.is