Það má forða frekari gjaldþrotum

Categories
Þingfréttir

Álit framkvæmdarstjórnar ESB um ólögmæti verðtryggðra lána fór fram á Alþingi fimmtudaginn 14. febrúar sl. Gunnar Bragi Sveinsson, formaður þingflokks Framsóknarflokksins, var málshefjandi en Katrín Júlíusdóttir, fjármálaráðherra, veitti andsvör. Þar sagði ráðherrann „að hún væri tilbúin til að skoða hvort til greina kæmi að setja þak á verðtryggingu nýrra húsnæðislán.“ (sjá frétt á mbl.is)

Sjö til viðbótar tóku til máls undir þessari umræðu þar sem allir sögðust vilja afnema verðtrygginguna en töluvert skorti á samhljóminn um leiðina að því markmiði. Fulltrúar Samfylkingarinnar og þeir þingmenn sem styðja stefnu ríkisstjórnarinnar eru reyndar voru reyndar sammála um að það verði ekki gert nema að taka upp annan gjaldmiðil. Málshefjandinn, Gunnar Bragi Sveinsson, gagnrýnd orð þeirra sem töluðu fyrir upptöku evru þar sem hann sagði „evrusnuðið sem Samfylkingin vildi stinga upp í heimilin væri orðið tætt og illa lyktandi.““ (sjá frétt á mbl.is)

Lilja Mósesdóttir var ein þeirra sem tók til máls. Hún sagði enga þjóð hafa „farið í gegnum fjármálakreppu án þess að leyfa verðbólguskotinu, sem alltaf fylgir í kjölfar banka- og gengishruns, að éta upp verðmæti lána.“ Hún minnti á að „margir hafa misst heimili sín vegna gengistryggðra lána sem reyndust síðan ólögleg. Aðrir skrifuðu undir löglega lánasamninga og sitja uppi með verðtryggð lán sem ekki verða endurreiknuð.“

Undir lokin undirstrikaði Lilja mikilvægi þess að  óvissunni og óréttlætinu sem er að sundra samfélaginu verði eytt til að  tryggja samstöðu í samfélaginu. Ræðunni lauk á áskorun: „Afnemum verðtrygginguna fyrir kosningar og leiðréttum forsendubrest lána með peningamillifærsluleiðinni.“

Ræða Lilju Mósesdóttur um áliti framkvæmdastjórnar ESB um ólögmæti vertryggðra lána frá 12. febrúar 2013:

Virðulegi forseti. Engin þjóð hefur farið í gegnum fjármálakreppu án þess að leyfa verðbólguskotinu, sem alltaf fylgir í kjölfar banka- og gengishruns, að éta upp verðmæti lána. Krafan um almenna leiðréttingu gengur styttra þar sem hún felur í sér að lánveitandinn og lántakandinn deili með sér kostnaðinum af verðbólguskotinu.

Við þeirri kröfu skuldsettra heimila gat hin svokallaða norræna vinstri stjórn ekki orðið þrátt fyrir kosningaloforð um að jafna byrðar fjármálakreppunnar. Verðtryggingunni var leyft að hækka höfuðstól lána og skuldsett heimili hvött til að leita réttar síns fyrir dómstólum. Ég varaði strax við dómstólaleiðinni og benti á að hún væri of tímafrek og tryggði ekki réttlæti meðal skuldsettra heimila.

Margir hafa misst heimili sín vegna gengistryggðra lána sem reyndust síðan ólögleg. Aðrir skrifuðu undir löglega lánasamninga og sitja uppi með verðtryggð lán sem ekki verða endurreiknuð.

Virðulegi forseti. Nú er niðurstöðu dómstóla beðið varðandi lögmæti verðtryggingarinnar. Dómstólar meta hvort verðtryggingin samræmist lögum um neytendalán og lögum um verðbréfaviðskipti sem banna afleiðulán til almennings. Á meðan beðið er niðurstöðu er verið að hirða eignir af fólki með verðtryggð lán í óskilum.

Virðulegi forseti. Við verðum að eyða óvissunni og óréttlætinu sem er að sundra samfélaginu. Tryggjum samstöðu í samfélaginu. Afnemum verðtrygginguna fyrir kosningar og leiðréttum forsendubrest lána með peningamillifærsluleiðinni.

rakel@xc.is