Það er komið að kjósendum

Categories
Þingfréttir

Síðustu eldhúsdagsumræður kjörtímabilsins fóru fram á Alþingi í gærkvöldi. Venju samkvæmt nýttu margir þingmenn þennan vettvang til að höfða til kjósenda með næsta kjörtímabil í hug. Í ljósi þess að Lilja Mósesdóttir gefur ekki kost á sér við næstu alþingiskosningar tók hún þá ákvörðun að gefa sinn ræðutíma eftir.

Þeir sem eru að hætta nýta þennan vettvang líka gjarnan til að líta yfir farinn veg og kveðja. Lilja hafði þegar flutt slíka ræðu síðastliðinn mánudag undir vantrausttillögu þingmanns Hreyfingarinnar.

Þar rifjaði hún upp þegar hún og Atli Gíslason sögðu skilið við þingflokk Vinstri grænna vorið 2011, minnti á ástæður þeirrar ákvörðunar og bætti við:

Það var von mín og margra annarra sem tóku þátt í búsáhaldabyltingunni að hrunið myndi tryggja völd flokka sem notuðu fjárlögin markvisst til að draga úr efnahagsáfallinu, draga úr misskiptingu og til að forgangsraða í þágu velferðar. Það varð ekki niðurstaðan því að hin svokallaða norræna velferðarstjórn hafði ekki hugrekki til að snúa af braut nýfrjálshyggjulausna til hagsbóta fyrir fjármagnseigendur.

Fjármálakreppan varð því ekki til þess að skerpa hinar pólitísku línur heldur afhjúpaði þvert á móti að í reynd er enginn pólitískur munur á hinum svokölluðu vinstri og hægri flokkum í landinu. Norræna velferðarkerfinu og réttlátri skiptingu byrða kreppunnar var fórnað fyrir valdastóla og velþóknun AGS og vogunarsjóða.

Fylgishrun blasir við stjórnarflokkunum og vandséð að kjósendur muni nokkurn tíma treysta aftur svokölluðum vinstri flokkum til að stjórna landinu. Afleiðingarnar eru örvænting, ráðaleysi og upplausn í samfélaginu […]

Í lokaorðum sínum benti Lilja Mósesdóttir á að hún hefði ekki treyst ríkisstjórninni tvö síðastliðin ár:  „Ástæðan er hagsmunagæsla ríkisstjórnarinnar í þágu fjármagnseigenda sem leitt hefur til aukinnar misskiptingar, sundrungar og örvæntingar hjá öllum þeim sem ná ekki lengur endum saman.“

Ræða Lilju Mósesdóttur um vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar frá 11.mars 2013:

Virðulegi forseti. Allt frá því að við hæstvirtur þingmaður, Atli Gíslason, yfirgáfum þingflokk Vinstri grænna hef ég ekki getað treyst mér til að styðja þessa ríkisstjórn Samfylkingar og VG. Ástæðan er hagsmunagæsla ríkisstjórnarinnar í þágu fjármagnseigenda og AGS. Hagsmunagæslan er þvert á loforð stjórnarflokkanna um skjaldborg heimilanna, norrænt velferðarsamfélag og að byrðum fjármálakreppunnar yrði dreift með sanngirni, jöfnuð og réttlæti að leiðarljósi.

Hin svokallaða norræna vinstri stjórn lagði metnað sinn í að skera hratt niður velferðina fyrir vexti og AGS mærði hana fyrir dugnaðinn við niðurskurðinn. Ríkisstjórnin samþykkti Icesave-samning sem átti að kosta skattgreiðendur um hálf fjárlög til þess eins að endurreisa orðspor Íslands á alþjóðlegum vettvangi eins og það hét. Aldrei var neinn vilji til að standa við loforðið um skjaldborg heimilanna og varnarlausum heimilum var vísað á dómstóla til að ná fram rétti sínum.

Afleiðingarnar birtast nú í neyðarkalli frá skuldsettum heimilum sem hafa mátt þola gífurlega eignatilfærslu vegna verðtryggingarinnar og greiðsluerfiðleika eftir að hafa kastað séreignarlífeyrissparnaðinum á skuldabálið. Heilbrigðiskerfið og vegakerfið okkar getur ekki lengur tryggt öryggi sjúklinga og vegfarenda vegna of mikils niðurskurðar eftir hrun. Bankakerfið var endurreist og bönkunum gefið veiðileyfi á almenning til að tryggja hrægammasjóðum arðgreiðslur og góðar endurheimtur á kröfum sínum.

Virðulegi forseti. Það var von mín og margra annarra sem tóku þátt í búsáhaldabyltingunni að hrunið mundi tryggja völd flokka sem notuðu fjárlögin markvisst til að draga úr efnahagsáfallinu, draga úr misskiptingu og til að forgangsraða í þágu velferðar. Það varð ekki niðurstaðan því að hin svokallaða norræna velferðarstjórn hafði ekki hugrekki til að snúa af braut nýfrjálshyggjulausna til hagsbóta fyrir fjármagnseigendur.

Fjármálakreppan varð því ekki til þess að skerpa hinar pólitísku línur heldur afhjúpaði þvert á móti að í reynd er enginn pólitískur munur á hinum svokölluðu vinstri og hægri flokkum í landinu. Norræna velferðarkerfinu og réttlátri skiptingu byrða kreppunnar var fórnað fyrir valdastóla og velþóknun AGS og vogunarsjóða.

Fylgishrun blasir við stjórnarflokkunum og vandséð að kjósendur muni nokkurn tíma treysta aftur svokölluðum vinstri flokkum til að stjórna landinu. Afleiðingarnar eru örvænting, ráðaleysi og upplausn í samfélaginu; ekki síst meðal þeirra sem treystu best hinum svokölluðu vinstri flokkum í síðustu kosningum til að leiðrétta forsendubrest, tryggja réttlæti og auka jöfnuð.

Virðulegi forseti. Ég studdi vantrauststillögu á ríkisstjórnina vorið 2011 þar sem mér var þá orðið ljóst að hún mundi aldrei storka fjármagnseigendum með almennri skuldaleiðréttingu. Stjórnin hélt velli en hefur þurft á að halda stuðningi Hreyfingarinnar frá áramótum 2011/2012. Stuðningurinn var keyptur með loforði um samþykkt nýrrar stjórnarskrár. Nú hefur utankjörfundaratkvæðagreiðsla hafist og við erum að greiða atkvæði um vantrauststillögu hæstvirts þingmanns Hreyfingarinnar. Ástæðan er svik ríkisstjórnarinnar við Hreyfinguna í stjórnarskrármálinu.

Frú forseti. Ég hef ekki stutt þessa ríkisstjórn síðustu tvö árin af annarri ástæðu. Ástæðan er hagsmunagæsla ríkisstjórnarinnar í þágu fjármagnseigenda sem leitt hefur til aukinnar misskiptingar, sundrungar og örvæntingar hjá öllum þeim sem ná ekki lengur endum saman.

rakel@xc.is