Lilja hættir á þingi

Categories
Greinar og viðtöl

Rakel Sigurgeirsdóttir skrifar:

Í tilefni þess að síðastliðna nótt lauk þingveru Lilju Mósesdóttur, í bili a.m.k., er við hæfi að birta viðtal sem mbl/SJÓNVARPIÐ tók við hana í tilefni lúkningar Icesvemálsins þ. 28. janúar sl. Í ræðu sem hún flutti á Alþingi (sjá hér) af því tilefni sagði hún m.a.

„Andstöðu minni við Icesave I og annarra sem uppnefndir hafa verið villikettir var mætt af mikilli hörku af hálfu stjórnarliða og stjórnarslitum stöðugt hótað ef við, villikettirnir, samþykktum ekki samninginn. Hæstvirtur ráðherra VG, Ögmundur Jónasson, neyddist meira að segja til þess að segja af sér vegna andstöðu við samninginn til að bjarga ríkisstjórninni frá falli.

Icesave-málið klauf VG og var upphafið að brotthvarfi mínu úr flokknum.“

Í viðtali við blaðamann mbl.is gerði hún nánari grein fyrir því sem hún vék að í ræðu sinni:

Tímabilið 2008-2011

Það má draga það fram hér að Lilja Mósesdóttir tók sæti á lista VG í kjölfar mikils persónufylgis sem má rekja til lausnarmiðaðra hugmynda sem hún setti fram í ræðum á Opnum borgarafundum í Iðnó og á vettvangi Radda fólksins á Austurvelli haustið 2008. (sjá hér) Úrslit alþingiskosninganna vorið 2009 skilaði VG 14 þingmönnum. Strax sumarið 2009 varð ljóst að þekking Lilju Mósesdóttur og hugmyndir að lausnum á efnahagsvanda þjóðarinnar áttu ekki upp á pallborðið meðal forystukjarna flokksins né innan ríkisstjórnarinnar.

Þrátt fyrir að það væru sex þingmenn VG sem settu sig upp á móti Svavarssamningnum þá var ekki hlustað á þeirra sjónarmið og samningurinn keyrður í gegnum þingið. Hópnum var hins vegar gefið viðurnefnið villkettirnir. Fimm af þessum sex þingmanna hópi sögðu skilið við þingflokk Vinstri grænna á kjörtímabilinu.

  • Ásmundur Einar Daðason gekk til liðs við Framsókn.
  • Lilja Mósesdóttir stofnaði SAMSTÖÐU en tók síðan ákvörðun með öðrum félagsmönnum flokksins um að tefla honum ekki fram til kosninga í ljósi þverrandi stuðnings við flokkinn.
  • Guðfríður Lilja Grétarsdóttir kallaði inn varamann og hvarf af þingi um áramót 2012/2013.
  • Jón Bjarnason hóf samstarf við Bjarna Harðarson um að bjóða upp á nýjan valkost í komandi alþingiskosningum; Regnbogann.
  • Atli Gíslason hefur lagt þeim kollegum lið við uppbyggingu flokksins en ætlar sér ekki inn á þing aftur.

Tími SAMSTÖÐU

Lilja Mósesdóttir sagði sig úr ríkisstjórninni ásamt Atla Gíslasyni vorið 2011 m.a. fyrir margítrekaðar áskoranir frá kjósendum. Vegna áskorana úr sömu átt lét hún líka verða af því að stofna stjórnmálaflokk í þeim tilgangi að tefla honum fram til alþingiskosninga sem fara fram þ. 27. apríl n.k. Flokkurinn var stofnaður þ. 15. janúar 2012.

Stofnun flokksins vakti töluverða athygli en þó var ljóst að það voru ekki allir jafnhrifnir. Strax síðastliðið vor mátti þeim sem voru best inni í málum SAMSTÖÐU vera ljóst að andstaðan við tilveru flokksins var það öflug að það þurfti sterkt viðnám kjósenda til að vinna gegn niðurrifinu sem andstöðuöflin lögðu til hans. Síðastliðið haust var þó ákveðið að freista þess að halda áfram að byggja flokkinn upp til þess að tefla honum fram í komandi alþingiskosningum.

Allt kom fyrir ekki. Andstaðan við tilveru flokksins varð yfirsterkari. Fyrir jól tilkynnti Lilja Mósesdóttir að hún myndi ekki gefa kost á sér á lista við næstu alþingiskosningar og á félagsfundi sem haldinn var á ársafmæli SAMSTÖÐU var ákveðið að vísa því til landsfundar hvort flokkurinn byði fram. Ákvörðunin byggðist ekki síst á þeim raunveruleika að í ljósi þess óverulega stuðnings sem flokkurinn naut treysti enginn sér til að taka á sig skuldbindingar upp á 3-5 milljónir til að kosta kosningabaráttu upp á von og óvon.

Landsfundur, sem var haldinn þ. 9. febrúar, ákvað að ekki yrði af framboði flokksins að þessu sinni. Þess í stað var skorðað á stjórn flokksins að skapa félagsmönnum og öðrum áhugasömum vettvang til að standa að „upplýsandi og málefnalegri umræðu um þau mál sem brenna á þjóðinni.“ í komandi kosningabaráttu. (sjá hér) Á opnum félagsfundi sem var haldinn þ. 25. febrúar var stofnaður vinnhópur í þessum tilgangi og honum skipuð sérstök stjórn. (sjá hér)

Tímamót

Þó Lilja Mósesdóttir gefi ekki kost á sér til áframhaldandi þingsetu og SAMSTAÐA hafi dregið fyrirhugað framboð til baka á grundvelli lítils fylgis, takmarkaðra fjárráða og skorts á stuðningi þá er ljóst að niðurrifsöflin sem hafa unnið gegn SAMSTÖÐU frá stofnun hafa hvergi nærri látið af andstöðu sinni við tilveru flokksins. Þetta kom gleggst í ljós síðastliðna helgi þegar stjórn SAMSTÖÐU sendi frá sér svohljóðandi yfirlýsingu:

Að gefnu tilefni vill stjórn SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar taka fram að flokkurinn mun hvorki bjóða fram í komandi kosningum né lýsa yfir stuðningi við önnur framboð.  Stjórn SAMSTÖÐU harmar hvernig frambjóðendur annarra flokka beita blekkingum til að ná til sín stuðningsfólki, stefnu og lausnum flokka eins og SAMSTÖÐU. 

Lilja Mósesdóttir
Rakel Sigurgeirsdóttir
Jón Kr. Arnarson

Jónas P. Hreinsson
Eiríkur Ingi Garðarsson
Hallgeir Jónsson

Helga Garðarsdóttir

Ótrúlega margir lesendur misstu af kjarna seinni málsgreinar yfirlýsingarinnar: „Stjórn SAMSTÖÐU harmar hvernig frambjóðendur annarra flokka beita blekkingum til að ná til sín stuðningsfólki, stefnu og lausnum flokka eins og SAMSTÖÐU.“ og lásu það út úr yfirlýsingunni að stjórnin væri að fetta fingur út í það að aðrir flokkar nýttu stefnu og lausnir flokksins og einhverjir lásu það út úr tilkynningunni að stjórnin setti sig upp á móti því að stuðningsfólk SAMSTÖÐU styddu og kysu önnur framboð.

Í reynd var ekki annað að sjá en niðurrifsöfl SAMSTÖÐU opinberuðu sig í rangtúlkunum og hártogunum á því sem má e.t.v. viðurkennast að veki upp spurningar. Viðbrögðin eru því miður góður vitnisburður um það sem SAMSTAÐA og þó einkum Lilja Mósesdóttir hefur þurft að glíma við. SAMSTAÐA allt síðastliðið ár. Lilja Mósesdóttir allt kjörtímabilið. Þess má geta að Lilja Mósesdóttir var í Bítinu á Bylgjunni í upphafi vikunnar þar sem hún svaraði spurningum Heimis og Kollu varðandi tilefni ofangreindrar yfirlýsingar. (hlusta hér)

Nýir tímar

Það þarf sterk bein til að sitja undir og standast þann hatursáróður sem Lilja Mósesdóttir hefur mætt frá upphafi þingferils síns. Í því umhverfi hafa hvatingarorð og áskoranir kjósenda verið mikilvæg. Þegar þetta var ekki lengur fyrir hendi eftir stofnun SAMSTÖÐU, þá er lítið annað eftir en hverfa á annan vettvang og nýta hæfileika sýna og þekkingu þar.

Sú sem þetta skrifar þakkar Lilju Mósesdóttur einstaka árvekni og trúnað við það hlutverk sem hún var kosin til að gegna inni á þingi. Ég þakka henni líka þolinmæðina og traustið sem hún hefur sýnt kjósendum sínum þó þeir hafi ekki haft kjark til að fylgja henni eftir til þess frumkvæðis sem Ísland hafði tækifæri til að standa að með sérfræðiþekkingu hennar í broddi fylkingar.

Ég er sannfærð um að það munaði samt sem áður stórkostlega um Lilju á kjörtímabilinu og óska henni velfarnaðar í þeim verkefnum sem bíða hennar nú á erlendri grund. Ég ætla að leyfa mér að bæta því við að ég óska þess ekki síst að sú sérfræðiþekking sem hana dreymdi um að íslensk þjóð fengi notið verði metin að verðleikum á nýjum starfsvettvangi!

rakel@xc.is