Eitruð efnahagsaðstoð AGS

Categories
Fréttir

Hér er vakin athygli á grein sem Lilja Mósesdóttir skrifaði á ensku og var birt á vefsvæði Social-Europe Journal í síðustu viku (sjá hér). Greinin fjallar um efnahagsaðstoð AGS við Ísland og Grikkland. Hún er byggð á lokaskýrslum sjóðsins um árangur hennar í löndunum tveimur og heimsókn Lilju til Grikklands síðastliðið vor (sjá hér).

Social-Europe er tímarit fyrir gagnrýna og framsækna umræðu um málefni sem brenna á Evrópubúum. Í tímaritið skrifa fræðimenn, stjórnmálafólk og áhrifafólk innan verkalýðshreyfinganna í Evrópu um alþjóðamál, pólitíska hagfræði, atvinnustefnu og málefni aðila vinnumarkaðarins.

Niðurstaða greinar Lilju Mósesdóttur er að nauðsynlegt sé fyrir kreppulönd og alþjóðastofnanir að draga lærdóma af umdeildri efnahagsaðstoð AGS við Ísland og Grikkland. Of bjartsýnar áætlanir sjóðsins um hagvöxt kreppuþjóða draga úr þörfinni fyrir að afskrifa skuldir og þjóna því fyrst og fremst hagsmunum banka og kröfuhafa.

Áhersla efnahagsaðstoðar AGS þarf að færast frá kreppuaukandi niðurskurði lífskjara til lækkunar á ósjálfbærri skuldsetningu til að tryggja hagvöxt eða að þjóðir geti vaxið út úr kreppunni. Efnahagsaðstoð sem aðeins tryggir hagsmuni þeirra ríku og helstu hluthafa í AGS grefur undan trúverðugleika sjóðsins og félagslegri samheldni í löndum sem neyðast til að leita aðstoðar hans.

mbl.is vekur athygli á niðurstöðum Lilju

Einnig er vakin athygli á frétt á mbl.is þar sem fjallað er um birtingu tímaritsins á þessari grein fyrrverandi þingmanns og niðurstöðu greinarinnar. Í fréttinni er minnt á að Lilja var alltaf gagnrýnin á samstarfið við AGS  en sá málflutningur hennar hlaut litlar undirtektir innan VG eftir að kom til ríkisstjórnarsamstarfs milli flokksins og Samfylkingarinnar. Eftir því sem segir í frétt mbl.is átti þetta þátt í brotthvarfi Lilju Mósesdóttur úr VG vorið 2011 (sjá hér).

Túlkun Halldórs á ástæðunum að baki brotthvarfi Lilju og Atla úr þingflokki VG vorið 2011 sem leiddi síðar til afsagnar beggja úr flokknum

Túlkunin sem kemur fram í fréttarinni á mbl.is, sem snýr að þeim þætti sem á við um samstarfið við AGS, er þessi:

Lilja sagði sig úr þingflokki VG á sama tíma og Atli Gíslason, eða í mars 2011, og voru þau síðan óháðir þingmenn.

Hafði Lilja þá gagnrýnt samstarfið við AGS ítrekað en flestir ef ekki allir þingmenn Vinstri grænna voru andvígir því í árslok 2008, þar með talið Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi formaður VG. Vék Steingrímur m.a. að „landstjóranum nýja eða stiftamtmanninum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum“ í harðri gagnrýni á fyrirmæli frá sjóðnum um niðurskurð þegar fjárlög komu til lokaumræðu fyrir jól 2008.

Steingrímur skipti síðan um skoðun gagnvart samstarfinu við sjóðinn eftir að minnihlutastjórnin tók við í febrúar 2009 og svo áfram eftir að Samfylkingin og VG unnu mikinn kosningasigur í apríl sama ár. (sjá hér)

Grein Lilju Mósesdóttur á Europe-Social Journal má nálgast hér.

rakel@xc.is