Hæfasti umsækjandinn er kona

Categories
Blogg

Rakel Sigurgeirsdóttir bloggar:

Það eru til ýmis konar klisjur utan í það að „konur séu konum verstar“ en allar gefa þær þá mynd af konum að þær reynist kynsystrum sínum almennt verr en karlar öðrum körlum. Það gefur væntanlega auga leið að klisjan byggir á tilbúinni goðsögn sem á ekki við nein rök að styðjast fyrir utan það að bæði karlar og konur eiga það til að standa í vegi fyrir fyrir því að að þeir sem þau öfunda komist áfram.

Að sjálfsögðu er slíkt afar sorglegt en mér er til efs að það að Vigdís Finnbogadóttir varð forseti á sínum tíma og að Jóhanna Sigurðardóttir varð forsætisráðherra hafi stafað af því að konur kusu þær síður en karlar eða að þær hafi verið lausar við það að einhver hafi öfundað þær. Vigdís varð fyrsta konan á jarðarkringlunni sem varð forseti í lýðræðislegum kosningum (sjá hér). Þetta var árið 1980 en hún gegndi embættinu í 16 ár eða fram til ársins 1996.

Árið áður en Vigdís lét af embætti sem forseti Íslands varð Margrét Frímannsdóttir fyrsta íslenska konan til að gegna flokksforystu í stjórnmálaflokki sem var settur saman af báðum kynjum. Hún var formaður Alþýðubandalagsins í þrjú ár (1995-1998) og síðar Samfylkingarinnar í eitt (1999-2000).

Í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 leiddu svo flokksbundnir samfylkingarmenn Jóhönnu Sigurðardóttur til öndvegis í flokknum. Í kjölfarið sýndi stór hluti kjósenda það að hann treysti forystu hennar best í alþingiskosningunum vorið 2009. Með því varð hún fyrsta íslenska konan sem varð forsætisráðherra.

Það væri sjálfsagt vert að telja hér upp fleiri tímamót í kvennasögu Íslands en hér verða aðeins taldar upp þrjár konur sem hafa brotið sagnfræðilega múra og rutt sögulega vegi á síðustu árum. Þetta eru þær: Rannveig Rist sem var fyrsta konan til að verða forstjóri yfir iðnfyrirtæki af sömu stærðargráðu og Íslenska álfélagið hf. Guðfinna Bjarnadóttir sem varð fyrst kvenna til að gegna stöðu rektors á Íslandi og Agnes Sigurðardóttir sem er fyrsta konan til að verða biskup yfir Íslandi.

Í samhengi við framangreinda upptalningu er kannski ekki óeðlilegt að spyrja sig hvort það er ekki kominn tími á að skipa konu yfir Seðlabanka Íslands?

Eins og væntanlega langflestum er kunnugt þá rennur skipunartími núverandi seðlabankastjóra út 20. ágúst n.k. og var staðan auglýst laus til umsóknar nú í vor. Umsóknarfresturinn rann út 27. júní sl. og voru nöfn umsækjanda opinberuð í síðustu viku. Tíu sóttu um stöðuna en miðað við kynningu fjölmiðla og aðra opinbera umræðu þykja einkum fjórir til fimm þeirra líklegir til að hljóta stöðuna. Meðal þeirra er aðeins ein kona.

Í auglýsingu um starfið voru konur jafnt sem karlar hvött til að sækja um embætti seðlabankastjóra og tók Kvenréttindafélag Íslands undir þá hvatningu en það eru eingöngu karlar sem hafa stýrt Seðlabankanum frá stofnun hans (sjá hér). Þrjár konur sóttu um stöðuna og er Lilja Mósesdóttir ein þeirra. Hún er líka ein þeirra fjögurra sem flestir fjölmiðlar vöktu sérstaka athygli á að hefði sótt um embættið og sennilega sú sem flestir hafa lýst einlægum stuðningi við að hljóti það.

Sérstök stuðningssíða við ráðningu hennar í starfið hefur nú verið opnuð á Fésbókinni. Samkvæmt upplýsingum sem koma fram neðst á síðunni var hún stofnuð sl. mánudag. Inn á síðunni er líka að finna ýmiss konar efni til kynningar á efnahagshugmyndum Lilju og verkum hennar frá því að hún kom fyrst fram opinberlega haustið 2008. Auk þess er þar að finna hvatningu og stuðningsyfirlýsingar frá þeim sem vilja sjá hana sem næsta seðlabankastjóra. Í kynningu á síðunni segir þetta um tilefni hennar:

Þeir sem læka þessa síðu eru á þeirri skoðun að Lilja Mósesdóttir sé hæfasti umsækjandinn um stöðu seðlabankastjóra sem verður skipað í 20. ágúst n.k. Við sem lækum viljum því skora á hæfnisnefndina að mæla með Lilju og á stjórnvöld til að ráða hana í embættið.

https://www.facebook.com/liljumosibankann

Eins og áður sagði þá er ljóst að þeir eru þó nokkrir sem styðja ráðningu Lilju Mósesdóttur til embættis seðlabankastjóra. Það kemur líka fram í ýmsum innleggjum og skilaboðum sem nú þegar hafa verið sett inn á umrædda stuðningssíðu. Það sem vekur þó athygli í því sambandi er það hversu margar konur lýsa yfir eindregnum stuðningi við það að Lilja verði fyrir valinu sem næsti seðlabankastjóri. Myndin hér að neðan er dæmi um þetta en hún er tekin úr þræði við þetta innlegg á síðunni sem heitir einfaldlega: Lilju Mósesdóttur sem næsta seðlabankastjóra.

Í síðustu færslu á þessum bloggvettvangi var farið yfir fréttaflutning helstu miðla daginn, sem nöfn umsækjenda um embætti seðlabankastjóra voru kynnt, auk þess sem vakin var athygli á nokkrum kommentum þeirra sem nýttu sér opin athugasemdakerfi við fréttirnar til að lýsa yfir stuðningi við ráðningu Lilju. Í framhaldinu var sett fram örkynning á þeim umsækjendum sem þóttu líklegastir miðað við það að nöfn þeirra voru dregin sérstaklega fram í inngangi umræddra frétta.

Þessir eru: Friðrik Már Baldursson, Már Guðmundsson, Ragnar Árnason, Yngvi Örn Kristinsson og Lilja Mósesdóttir. Nú hefur Egill Helgason bætt nokkru við það sem upp á vantaði í sambandi við kynningu Friðriks Más. Þar minnir hann á skýrslu, sem Friðrik Már skrifaði ásamt Richard Portes um íslenska fjármálamarkaðinn í lok ársins 2007, þar sem þeir settu fram þá niðurstöðu að „íslensku bankarnir væru vanmetnir á alþjóðamörkuðum“ og að þeir væru „almennt sterkir og vel í stakk búnir til að standa af sér áföll.“ (sjá hér)

Í þessu samhengi má vekja athygli á því að samvinnu þessara tveggja er alls ekki lokið en fyrr á þessu ári kynntu þeir aðra ritgerð á málstofu sem Seðlabankinn stóð fyrir. Ritgerðin fjallaði um það sama og sú fyrri en þó með þeirri viðbót sem hrun íslenska fjármálakerfisins hafði leitt í ljós (sjá hér). Niðurstaða síðustu færslu stendur því óbreytt. Það sem hefur bæst við síðan gerir það reyndar illgerlegra að líta framhjá því að Lilja Mósesdóttir er langhæfasti umsækjandinn.

Þar af leiðandi er það eðlilegast að hún verði sá umsækjandi sem verður skipaður til embættisins 20. ágúst n.k. Það er þó ekki úr vegi að ítreka það að með skipun Lilju í stöðu seðlabankastjóra gefst núverandi ríkisstjórn ekki aðeins stórkostlegt „tækifæri til að leggja áherslu á það að þeim sé full alvara í því að leysa helstu efnahagsvandamál samfélagsins heldur nytu þeir sómans af því að skipa hæfasta einstaklinginn til embættisins ásamt því að fylgja þeirri jafnréttisásýnd landsins eftir„ (sjá hér) sem var minnt á í upphafi þessarar færslu.

Í þessu sambandi má undirstrika að konur jafnt sem karlar voru hvött til að sækja um starfið, Kvenréttindafélag Íslands hefur minnt á það að eingöngu karlar hafa gegnt stöðu bankastjóra Seðlabankans frá stofnun hans og hæfasti umsækjandinn nú er kona. Þess vegna er þetta rétta tækifærið til að brjóta enn einn múrinn og ryðja nýjan veg í því að embætti og stöður samfélagins séu ekki einokuð af öðru hvoru kyninu. Það er kominn tími á að kona gegni embætti seðlabankastjóra og ætti ekki að vera spurning um að bæta úr þegar hún er einmitt hæfasti umsækjandinn.

Slóð á bloggið