Næsti seðlabankastjóri

Categories
Greinar og viðtöl

Rakel Sigurgeirsdóttir skrifar:

Það er ljóst að það eru bæði karlar og konur sem styðja það að Lilja Mósesdóttir verði næsti seðlabankastjóri. Þetta kom fram strax í athugasemdakerfum við fréttir af því hverjir væru á meðal umsækjenda um stöðuna. Síðar hefur þetta einkum komið fram á áskorendasíðu um að Lilja verði skipuð til embættisins, og víðar á Fésbókinni.

Eins og bent var á í frétt gærdagsins þá hafa margar þessara stuðningsyfirlýsinga og svo hvatningarorða verðið sett yfir á mynd sem eru aðgengilegar í myndaalbúmi síðunnar: Lilju sem næsta seðlabanakstjóra. Myndaalbúmið heitir einfaldlega: Við styðjum Lilju og hefur að geyma orðsendingar sem lýsa bæði velfarnaðaróskum og vonum um að hæfur og heiðarlegur einstaklingur verði skipaður í seðlabankastjórastöðuna sem hefur hagsmuni allrar þjóðarinnar að leiðarljósi.

Þar sem þetta eru góðar fréttir fyrir Samstöðu, sem var stofnuð í þeim tilgangi að tryggja hugmyndum Lilju og stefnu í velferðar- og efnahagsmálum viðgang, þá er það tilhlýðilegt að vekja athygli á þessu hér.  Í þeim tilgangi hefur nokkrum þessara orðsendinga verið safnað saman á tvær myndir. Á annarri eru nokkrar orðsendingar frá körlum sem hafa opinberað það á hinum ýmsu samfélagsmiðlum að þeir vilji sjá Lilju í stól seðlabankastjóra.

Konur hafa heldur ekki látið sitt eftir liggja við að koma því á framfæri að þær vilji Lilju Mósesdóttur í stól seðlabankastjóra en skipunin verður gerð opinber 20. ágúst n.k.

Hér hafa verið valdar saman orðsendingar sem eru í styttri kantinum en þó koma öll helstu atriðin fram sem er greinilegast að ræður stuðningnum við skipun Lilju. Það er ljóst að hún hefur menntunina og þekkinguna sem til þarf auk þess sem hún hefur, frá því að hún kom fyrst fram, bent á leiðir og lagt fram tillögur að lausnum á efnahagsvandanum sem þjóna öllum almenningi en ekki fjármagnseigendum fyrst og fremst.

Sumir hafa líka bent á að frá stofnun Seðlabanka Íslands hafa eingöngu karlar verið þar við völd. Kvenréttindafélag Íslands hvatti m.a. konur sérstaklega til að sækja um bankastjórastöðuna með ábendingu um þetta atriði (sjá hér). Í þessu sambandi má minna á að á undanförnum árum og áratugum hafa verið stigin stór skref, þar sem Ísland hefur jafnvel verið í forystu, í því að skipa og/eða velja konur til embætta sem áður höfðu eingöngu verið skipuð körlum.

Það er auðvitað alveg ljóst að þó einhverjum kunni að þykja Lilja Mósesdóttir langhæfasti umsækjandinn þá er líklegt að Már Guðmundsson, núverandi seðlabankastjóri, og Friðrik Már Baldursson, hagfræðiprófessor við Háskóla Reykjavíkur, teljist ekki síður álitlegir kostir sökum menntunar og starfsreynslu. Þeir sem styðja Lilju til embættisins hafa þó bent á að hún hafi það umfram þá að hún eigi sér hvorki forsögu úr stjórn né pólitíkst skipuðum nefndum sem fara með málefni bankans á þessu kjörtímabili.

Með skipun hennar yrði það því viðurkennt að embætti seðlabankastjóra er ekki háð flokkspólitískum vilja stjórnar- eða stjórnarandstöðuflokkanna heldur ráðist hún ekki síður af hæfileikum og óflekkuðu orðspori, hvað efnahagsafskipti varðar, en menntun og starfsreynslu. Það væri líka sómi af því fyrir alla að svo framsækinn og víðsýnn fulltrúi hagfræðinga, og Lilja Mósesdóttir, yrði fyrsta konan til að gegna stöðu seðlabankastjóra hér á landi. Slíkt myndi ekki aðeins teljast til stórra tíðinda hérlendis heldur líka víða erlendis þar sem skilningur hennar á efnahagsmálum og tillögur hennar til efnahagsúrbóta hafa vakið athygli.