SAMSTAÐA á þingi

Categories
Fréttir

Í fyrradag tók Jón Kristófer Arnarson sæti á þingi í fyrsta sinn sem varamaður Margrétar Tryggvadóttur. Jón Kristófer er félagi í SAMSTÖÐU og tók þátt í stofnun flokksins. Lilja og Jón Kristófer hafa því starfað náið saman á þingi og m.a. lagt fram ásamt Valgeiri Skagfjörð breytingartillögur við þingsályktunartillögu meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Breytingartillögurnar fela í sér 2 viðbótarspurningar við 6 spurningar meirihlutans.

Spurningarnar eru:

  1. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að almenningur geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem varða skattamál?
  2. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að almenningur geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum?

Spurningarnar eiga að vekja athygli kjósenda á gagnrýni sem fram hefur komið á tillögur Stjórnlagaráðs um að takmarka möguleika almennings til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu.  Margar þjóðréttarskuldbindingar geta verið þess eðlis að mikilvægt er fyrir þjóðina að geta knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um þau mál.  Slík mál geta tengst gjaldeyrismálum, nýtingu hugsanlegra olíuauðlinda og annarra náttúruauðlinda, flutningi hættulegra efna eða vopna ásamt skuldbindandi samningum við erlend ríki eða stofnanir svo dæmi séu tekin. Samkvæmt tillögum stjórnlagaráðs geta kjósendur ekki krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um málefni sem varða skattamál. Dæmi um slíkt mál eru Icesave samningarnir sem hefðu lagt afar þungar byrðar á kynslóðir skattgreiðenda. Lausn Icesave málsins er enn ekki í augsýn og mikilvægt að halda opnum möguleikum kjósenda til að taka enn á ný afstöðu til málsins í þjóðaratkvæðagreiðslu.