Ræða Lilju Mósesdóttur á landsfundi SAMSTÖÐU

6 Oct 2012

Kæru félagar

Við stofnuðum  SAMSTÖÐU flokk lýðræðis  og velferðar í byrjun þessa árs til að bregðast við hvatningu margra kjósenda sem vildu fá fram á sjónarsviðið lausnamiðaðan flokk með þor til að tala fyrir óhefðbundnum aðgerðum í þágu almennings. Þessir kjósendur voru í mörgum tilfellum fólk sem lítið hafði skipt sér af pólitík og kosið sama flokkinn í áraraðir en blöskrar úrræðaleysið og hagsmunagæsluna fyrir innlend og alþjóðleg peningaöfl. Markmið stofnenda SAMSTÖÐU var að bjóða kjósendum upp á valkost við stjórnmálaflokka sem skilgreina sig til hægri og vinstri án þess að nokkuð liggi þar á bak við sem skiptir máli fyrir almenning.

Við stofnun SAMSTÖÐU var mikil áhersla lögð á að flokkurinn hefði stefnu sem vísaði veginn fram á við eftir efnahagshrunið. Stefna SAMSTÖÐU byggir á siðferðis- og félagslegum grunngildum sem móta markmið flokksins og leiðir til að ná þeim. SAMSTAÐA er flokkur sem vill sjá meiri jöfnuð, réttlæti og samvinnu í íslensku samfélagi. Við viljum segja skilið við hagsmunapólitík og byggja upp samfélag þar sem vönduð málefnavinna er í forgrunni. Mannúð og umhyggja fyrir náunganum og þeim sem minna mega sín er siðferðileg afstaða okkar. Við viljum því byggja upp samfélag þar sem allir hafa tækifæri til að lifa mannsæmandi lífi og taka þátt í að móta samfélagið.

Hugmyndir SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar eru skýrar og koma fram í grundvallarstefnuskránni sem er að finna á heimsíðu flokksins www.xc.is. Flokkurinn hefur því miður ekki fjármagn til að kynna þessar hugmyndir fyrir kjósendum og fjölmiðlar keppast við að telja kjósendum trú um að SAMSTAÐA hafi enga stefnu eða sömu stefnu og önnur ný framboð. Í ljósi þessa má velta fyrir sér hverra hagsmuna fjölmiðlar á Íslandi þjóna og hvort næstu kosningar muni uppfylla öll skilyrði sem gerð eru til lýðræðislegra kosninga.

SAMSTAÐA hefur skýra framtíðarsýn hvað varðar lausn á skuldavanda heimilanna, afnám gjaldeyrishafta án þess að snjóhengjunni verði varpað á íslenska skattborgara og uppbyggingu efnahagslífisins án ESB-aðildar. SAMSTAÐA er eini flokkurinn sem vill koma á svæðisþingum til að efla valddreifingu. SAMSTAÐA leggur áherslu á að halda auðlindum og orkufyrirtækjum í eigu þjóðarinnar og að þeir sem njóta tímabundinna nýtingarréttinda greiði fyrir það sanngjarnt gjald til þjóðarinnar. Efnahagserfiðleikar mega aldrei verða til þess að orkufyrirtæki verði færð úr opinberri eigu landsmanna í eigu fjárfestingarsjóða og fjármálabraskara.

Mikil umræða hefur verið bæði innan og utan SAMSTÖÐU um hvernig bregðast eigi við litlu fylgi nýrra framboða sem ekki hafa ríkisframlag til að fjármagna kosningabaráttu sína. Fjárvana framboð eiga litla möguleika á að komast í gegnum 5% aðgöngumúrinn sem fjórflokkurinn hefur reist sér til varnar. Hugmyndir um sameiningu flokka og kosningabandalag hafa því skotið upp kollinum sem leið til að komast yfir 5% múrinn. Slíkar hugmyndir ganga fyrst og fremst út á að tryggja að ákveðnir hópar samfélagsins eigi fulltrúa á þingi frekar en að þeir deili sömu afstöðu til umdeildra mála og hafi sömu framtíðarsýn. Þingræðið á Íslandi gengur hins vegar út á alræði þingmeirihlutans og foringjaræði sem gerir fulltrúa minnihlutans og ekki síst lítilla þingflokka áhrifalausa á þingi. Árangur stjórnmálaflokks sem búið er að tryggja að fái lítið fylgi með fjársvelti verður því afar takmarkaður að afloknum alþingiskosningum.

Sameining á grundvelli fjárskorts en ekki sameiginlegra baráttumála býr til jarðveg fyrir sundurlyndi og er því ekki álitlegur kostur í mínum huga. Við skulum ekki gleyma því að SAMSTAÐA hefur skýra stefnuskrá og úthugsaða stefnu sem byggir á faglegri greiningu okkar á sérstöðu íslensks samfélags. Þegar til lengri tíma er litið hlýtur það að vera markmið allra lýðræðissinna að berjast fyrir því að 5% múrinn verði lækkað niður í 2,5% og að nýjum framboðum verði gert kleift að halda úti starfsemi og kosningabaráttu.

Stofnun nýs stjórnmálaflokks eins og SAMSTÖÐU útheimtir miklar persónulegar fórnir fyrir þá sem takast slíkt verkefni á hendur.  Fórna verður tíma með fjölskyldu og vinum og leggja til fjármuni í starfið án þess að hægt sé að ganga út frá því sem vísu að flokkurinn nái þingsæti. Ég velti oft fyrir mér hversu miklar persónulegar fórnir hægt sé að ætlast til að fólk færi til að tryggja lýðræðið í sessi hér á landi. Ástæðan er ekki síst sú að þær kröfur, sem gerðar eru til einstaklinga sem gefa kost á sér til starfa fyrir ný framboð, eru óendanlegar á sama tíma og brauðstritið gefur lítið svigrúm til þátttöku í stjórnmálum.

Við sem höfum lifibrauð okkar af því að vera í stjórnmálum reynum því oft að létta undir með því að taka að okkur ýmis verkefni fyrir stjórnmálaflokkinn okkar. Fjölmiðlar ýta undir slíka verkaskiptingu með því að óska aðeins eftir viðtali við þekkta einstaklinga eins og þingmenn flokka. Í huga kjósenda verða þingmenn því oft holdgervingar stjórnmálaflokka. Slíkt fyrirkomulag hefur alið af sér víðtækt foringjaræði í íslenskum stjórnmálum og skapað fylgi við foringja frekar en flokka. Stjórnmál eiga að byggja á hópvinnu fólks, með svipaða lífsýn og afstöðu í grundavallarmálum, þrátt fyrir ólíka þekkingu og reynslu. Í ljósi þessa fannst mér nauðsynlegt að stíga til hliðar sem formaður SAMSTÖÐU og kalla eftir fleirum til að leiða flokksstarfið og kosningabaráttuna framundan. Ég mun starfa áfram innan SAMSTÖÐU sem þingmaður og hagfræðingur með það að markmiði að koma baráttumálum okkar á framfæri.

Á þessum fyrsta landsfundi SAMSTÖÐU liggja fyrir drög að stjórnmálaályktunum sem er ætlað að skerpa og skýra afstöðu flokksins í málum sem brenna á þjóðinni. Margir félagar í SAMSTÖÐU hafa lagt mikla undirbúningsvinnu á sig til að gera þennan landsfund málefnalegan og skilvirkan og vil ég koma á framfæri þakklæti til þeirra. Ég vil árétta nokkur atriði úr þessum ályktunum sem eru mér hugleikin án þess að draga úr gildi annarra ályktana um málefni sem ég þekki síður til.

Stöðugt fleiri glíma við framfærsluvanda vegna lágra launa, bóta og lífeyris á sama tíma og allar skuldbindingar hafa haldið verðgildi sínu í gegnum verðtrygginguna. Efnahagshrunið lækkaði vissulega þjóðartekjur okkar en er engin afsökun fyrir því að taka ekki á fátækt og vaxandi skuldsetningu almennings. Skuldaúrræði ríkisstjórnarinnar hjálpa fáum, mismuna fólki og fresta vandanum. Það verður ekki hjá því komist að leiðrétta skuldir heimilanna og afnema verðtrygginguna ef koma á í veg fyrir fjöldagjaldþrot og landflótta.

SAMSTAÐA kallar eftir áætlun um afnám gjaldeyrishafta sem felur í sér að afskriftum og skattlagningu verði beitt til að minnka snjóhengjuna verulega. Há skattlagning snjóhengjunnar mun brjóta í bága við alþjóðasamninga. Því er nauðsynlegt að skoða upptöku Nýkrónu með mismunandi skiptigengi sem valkost í gjaldmiðilsmálum. Hrægömmum sem eiga froðukrónur og bólueignir verður boðið að skipta yfir í Nýkrónu á hrakvirði eða á afar lágu gengi gömlu krónunnar.

Sjálfstæður gjaldmiðill gerir stjórnvöldum kleift að bregðast við efnahagsáföllum með gengislækkun sem tryggir að allir taki á sig byrðar en ekki aðeins þeir sem missa vinnuna. Gengislækkun framkallar launalækkun án þess að beita þurfi valdi til að fá launafólk til að samþykkja lækkun umsaminna launa. Endurskoða verður sem fyrst markmið peningastefnunnar sem m.a. leiddi til snjóhengjuvandans. Í stað verðbólgumarkmiðs á að taka upp markmið um fulla atvinnu og gengisstöðuleika. Gengisstöðuleiki næst ekki nema með sérstökum skatti á stórar fjármagnshreyfingar inn og út úr hagkerfinu og takmörkunum á útlánastarfsemi bankanna.

Mikilvægt er að allar aflaheimildir verði innkallaður og samningar gerðir um nýtingarrétt til þeirra sem starfa í greininni. Til að tryggja jafnræði milli þeirra sem hafa skuldsettar aflaheimildir og þeirra sem fengu þær endurgjaldslaust verður að láta nýtingargjaldið renna í sérstakan sjóð sem við endurskoðun kvótakerfisins tekur til sín skuldsettar aflaheimildir. Við gerð nýtingarsamninga verður að taka mið af rétti sjávarbyggða til sjósóknar og að skatttekjur greinarinnar renni í meira mæli til viðkomandi svæða.

Ég vil að lokum taka fram að allt frá stofnun SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar hafa félagarnir og flokksstarfið veitt mér mikla ánægju og verið mér mikilvægur stuðningur í störfum mínum á Alþingi. Félagarnir í SAMSTÖÐU hafa aðstoðað mig við að slípa málflutning minn og myndað frjóan jarðveg fyrir hugmyndir að lausnum á brýnum efnahagsvanda þjóðarinnar.

Það er hins vegar á ykkar valdi kæru félagar að ákveða hvort SAMSTAÐA verður þess megnuð að bjóða hagsmunaöflunum í stjórnmálum og atvinnulífinu byrginn í næstu alþingiskosningum. Framboð krefst mikilla fórna margra aðila sem enginn veit hvort skila muni einhverjum árangri.  Markmið þessa landsfundar er að gefa ykkur, kæru félagar, tækifæri til að velja fólk til forystu úr hópi einstaklinga sem er tilbúinn að vinna óeigingjarnt starf til að gera SAMSTÖÐU að öflugu stjórnmálaafli. Ég er þess fullviss að okkur auðnist að vanda vel valið á forystu flokksins og ég hlakka til að starfa með komandi stjórn flokksins.

Að lokum vil ég hvetja ykkur öll að taka þátt í starfinu sem er framundan og sýna þannig samstöðu um SAMSTÖÐU.