Óréttlæti verðtryggingarinnar

Categories
Fréttir

Þetta var yfirskrift fyrsta fundarins sem stjórn SAMSTÖÐU-Reykjavík stóð fyrir í gærkvöldi. Fundurinn fór fram á sama stað og síðasti fundur framhaldsfundaraðarinnar, sem stjórn aðildarfélagsins stóð fyrir síðastliðið vor, eða að Ofanleiti 2. Framsögumenn fundarins í gærkvöldi voru þrír og fjölluðu þeir allir um verðtrygginguna en hver frá sínu sjónarhorni.

Birgir Örn Guðjónsson, formaður SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar, talaði  um verðtrygginguna út frá sjónarhorni lánagreiðandans sem borgar samviskusamlega um hver mánaðarmót þó það hafi engin stemmandi áhrif á vöxt lánsupphæðarinnar. Samviskan knýr hann, og svo miklu fleiri, til að halda áfram að borga þrátt fyrir sívaxandi tilfinningu um að verðtryggingin muni koma í veg fyrir það að hann muni nokkurn tímann geta borgað lánið upp.

Sævar Þór Jónsson, lögmaður, er einhverjum væntanlega eftirminnilegur í kjölfar þess að hann kom fram í Silfri Egils fyrr á þessu ári. Þar fjallaði hann á afdráttarlausan hátt um framkomu fjármálastofnana gagnvart lánagreiðendum sem eru í vankilum. Í viðtalinu fjallaði hann mest megnis um stöðu þeirra lánagreiðenda sem eru með gengistryggð lán og framgöngu lánveitenda sem taka ekkert mark á dómum Hæstaréttar um þessi lán (sjá hér).

Í gærkvöldi talaði Sævar Þór aðallega um verðtryggðu lánin sem hann benti á að hafi fallið mjög í skugga umræðunnar um þau gengistryggðu. Sævar fjallaði um verðtryggðu lánin út frá sjónarhóli lögfræðingsins sem stendur í þeim sporum að verja hag lántakenda sem eiga í ójöfnu stríði við lánveitendur sem virða hvorki dóma né lágmarkskröfur um hófsemd í samskiptum sínum við lánagreiðendur. Hann minnti líka á þær leiðir sem stjórnvöld hefðu boðið upp á hingað til sem hefðu allar sýnt sig í að auka vandann fremur en hitt.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélagsins á Akranesi var kraftmikill að vanda bæði í ræðuflutningi og tilsvörum í pallborðinu. Hann fór yfir sögu verðtryggingarinnar og dró fram mörg dæmi um óréttlætið sem eru henni fylgjandi. Hann dró líka fram sögu núverandi ráðherra í stjórn sem mæltu gegn verðtryggingunni á meðan þeir voru í stjórnarandstöðu en hafa nú slegist í hóp hennar dyggustu verjenda. Í lok ræðu sinnar rakti hann svo tildrög og grundvöll þess sem VLA byggir kæru sína gegn verðtryggingunni á.

Rétt er að geta þess að framsögur þessara voru teknar upp og verða settar inn á You Tube og hérna á síðuna jafnóðum og þær hafa verið klipptar.

Í pallborði sátu, talið frá vinstri: Birgir Örn Guðjónsson, Sævar Þór Jónsson, Vilhjálmur Birgisson, Ólafur Garðarsson og Lilja Mósesdóttir

Á eftir framsögunum tóku framsögumenn fundarins sæti í pallborði ásamt formanni Hagsmunasamtaka heimilanna, Ólafi Garðarssyni og þingmanninum og hagfræðingnum, Lilju Mósesdóttur. Það er óhætt að segja að þau brugðu upp síst bjartari mynd af áhrifum og tilvist verðtryggingarinnar en framsögumenninir. Því verður því ekki haldið fram að þær hafi verið bjartsýnislegar blikurnar yfir fundinum sem fjallaði um óréttlæti verðtryggingarinnar.

Fundargestir voru öðru hvoru megin við 50 og ljóst að þeir hlustuðu af áhuga og athygli. Margir þeirra lögðu líka fram athyglisverðar spurningar og/eða innlegg til fundarins. Meðal þeirra má nefna lokaspurninguna sem snerist um það hvort þeir sem áttu sæti í pallborðinu teldu að tregða stjórnvalda til að afnema verðtrygginguna stæði í einhverju sambandi við eindreginn vilja þeirra til að koma landinu inn í ESB.

Þó gestir væru alvarlegir í lok fundar þá þökkuðu þeir fyrir sig og gengu einbeittir út í októbernóttina. Það er ekki ólíklegt að margir þeirra hafi verið að velta því sama fyrir sér og einn gestanna sem setti eftirfarandi inn á Fésbókina sína þegar hann kom heim eftir fundinn: „enn var okkur fundarmönnum sýnt hvernig Alþingi, stjórnvöld, dómsvaldið og ASÍ hafa slegið skjaldborg um fjármálaöflin svo þau geti áfram blóðmjólkað okkur venjulega fólkið sem byggðum landið upp og höldum því við með vinnu, svita og tárum.“ (Ísleifur Gíslason)

rakel@xc.is