„Hættum að ala á vonleysinu“

Categories
Þingfréttir

Síðastliðinn miðvikudag komst fjárhagsstaða íslenskra heimila til umræðu á Alþingi. Málshefjandi var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Í ræðu sinni lýsti hann yfir þungum áhyggjum af stöðu heimilanna og beindi fyrirspurnum til  Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, þar sem hann spurði m.a. hvort hún væri sátt við það hvernig til hefur tekist í skuldamálum heimilanna í ríkisstjórnartíð hennar.

Jóhanna Sigurðardóttir tók því næst til máls og taldi upp ýtarlegan lista yfir aðgerðir núverandi ríkisstjórnar sem hafa að hennar mati verið til umtalsverðra hagsbóta fyrir heimilin í landinu.  Alls tóku ellefu þingmenn til máls undir þessum dagskrárlið og skiptist afstaða þeirra til ástands mála mjög í tvö horn eftir því hvort um stuðningsmenn stjórnarinnar eða stjórnarandstöðu var að ræða (sjá alla umræðuna hér)

Lilja Mósesdóttir, sem hefur frá upphafi lagt megináherslu á leiðréttingu á þeim forsendubresti húsnæðislána sem varð við efnahagshrunið, var ein þeirra sem tókU til máls. Í ræðu sinni benti hún á þann djúpstæða vanda sem samfélagið stendur frammi fyrir vegna aðgerðarleysis núverandi ríkisstjórnar í skuldamálum heimilanna. Aðgerðarleysið hefur alið af sér óréttlæti vegna þess að fólk þarf að hafa tekið ólögleg lán til að fá leiðréttingu forsendubrestsins. Hún ítrekaði enn einu sinni að það væri til leið til að taka á skuldavandum og sagði:

Það er ekki nóg að afnema verðtrygginguna strax eða með þaki. Það verður að keyra vaxtastigið niður og leiðrétta verðtryggðar skuldir. Leiðréttinguna er hægt að fjármagna með því að eignarhaldsfélag Seðlabankans gefi út skuldabréf, sem er þá notað til að lækka skuldir heimilanna, skuldabréfið síðan greitt niður með því að leggja skatt á útgreiðslur úr þrotabúum gömlu bankanna og með aflandskrónuskatti.

Ræðu sinni lauk hún með þessari áskorun til Alþingis: „Hættum að ala á vonleysinu í samfélaginu og setjumst niður og leysum skuldavanda heimilanna.

Ræða Lilju Mósesdóttur um fjárhagsstöðu íslenskra heimila frá 23. janúar 2013:

Virðulegi forseti. Ég hitti nýlega konu sem hafði tapað vinnunni og síðan húsinu. Konan sagðist vera reið, ekki vegna þess að hún var látin greiða fyrir hrunið, heldur vegna þess að við sem þjóð nýttum ekki tækifærið eftir hrun til að koma á réttlátu samfélagi. Samfélagi þar sem fólk þarf ekki að treysta á andverðleikaklíkuna til að fá vinnu eða lagabrot til að fá leiðréttingu á forsendubresti í kjölfar efnahagshruns.

Óréttlætið í samfélaginu dregur sífellt meira úr greiðsluvilja fólks. Óréttlætið hefur orðið til þess að fjöldi heimila, sem eru með ágætistekjur, íhugar að fara í gjaldþrot. Fjöldagjaldþrot heimila með verðtryggð lán mun kosta samfélagið miklu meira en almenn leiðrétting forsendubrestsins.

Virðulegi forseti. Hvorki atvinnulífið né ríkið mun geta staðið undir þeirri raunlaunahækkun sem þarf til að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot á næstunni og að eignalaust fólk haldi áfram að flytja af landi brott.

Það er ekki nóg að afnema verðtrygginguna strax eða með þaki. Það verður að keyra vaxtastigið niður og leiðrétta verðtryggðar skuldir. Leiðréttinguna er hægt að fjármagna með því að eignarhaldsfélag Seðlabankans gefi út skuldabréf, sem er þá notað til að lækka skuldir heimilanna, skuldabréfið síðan greitt niður með því að leggja skatt á útgreiðslur úr þrotabúum gömlu bankanna og með aflandskrónuskatti.

Virðulegi forseti. Hættum að ala á vonleysinu í samfélaginu og setjumst niður og leysum skuldavanda heimilanna.

rakel@xc.is

Tengt efni þar sem aðferðin við leiðréttingu verðtryggingarinnar er útskýrð:

Skuldavandinn er samfélagsógn: Fyrirlestur Lilju Mósesdóttur frá 11. júní 2012
Leið til leiðréttingar fasteignalána frá 10. október 2012