Krossfestingar og langir föstudagar

Categories
Greinar og viðtöl

Rakel Sigurgeirsdóttir skrifar:

Það þarf sennilega ekki að segja það neinum  að ástæða þess að kristin samfélög minnast föstudagsins langa er sú að þann dag var réttlætið krossfest í manninum Jesú á hæðinni Golgata. Samkvæmt sögunni benti náttúran, þeim almenningi sem upp á þetta horfði, á villuna með eftirminnilegum hætti: „Og nú var nær hádegi og myrkur varð um allt land til nóns, því sólin missti birtu sinnar.“ (Biblían 1997: Lúk 23.44-45)

Þessi atburður hefur síðan verið táknmynd vegvillts almennings sem lætur leiða sig til þvílíkrar fíflsku að það lætur blekkjast til krossfestingar eigin bjargræðis. Því er þetta rifjað upp nú, nær tvöþúsund árum síðar, að það eru margar blikur á lofti um það að almenningur muni aftur ganga sömu leið. Reyndar ekki í krossfestingu bróður heldur fósturjarðar.

Ísland sem var pínt á dögum Davíðs og krossfest á dögum Jóhönnu… látum það ekki verða örlög þess að eyðast til dauða, grafast í öldur hafsins og stíga niður til heljar! Látum valdhafana ekki fífla frá okkur bjargræðið í skjóli æðstu presta og hermanna eins og gert var fyrir tvöþúsund árum!

Að þessu sinni skulum við standa saman um réttlætið gegn þeim gerræðisráðum sem reyna að hafa það af okkur. Sýnum skynsemi og dirfsku og losum landið okkar úr gálganum sem því hefur verið búinn!

Sýnum að saga mannsins er framþróun en ekki endurtekið efni í sífellt ýktari mynd!

Áður birt á föstudaginn langa í fyrra á bloggvettvangi Tunnutals.