Andlitin á bak við síðuna

16 Jul 2014

Eins og hefur komið fram áður á þessum vettvangi hefur stuðnings- og/eða áskorendasíða við skipun Lilju Mósesdóttur til embættis seðlabankastjóra verið sett fram á Fésbókinni. Stuðningssíðan var sett í loftið á mánudgskvöldið fyrir rétt rúmri viku síðan. Þeir sem standa að síðunni eru fimm manna hópur kvenna og karla sem eiga það öll sameiginlegt að hafa fylgst með málflutningi Lilju frá því að hún kom fyrst fram haustið 2008.

kynningar.jpg

Tilefni þess að síðan var sett í loftið segja þau „eiginlega sprottið af þeim stuðningi sem kom fram í innleggjum við fréttir með nöfnum umsækjenda“ þriðjudaginn 1. júlí síðastliðinn og svo það að í framhaldinu „var hvergi fjallað um það að Lilja væri á meðal umsækjenda. Við ákváðum því að rjúfa þagnarmúrinn og búa til síðu til þess að þeir sem styðja hana og efnahagshugmyndir hennar gætu komið því á framfæri með lækum og innleggjum.“

Konurnar í hópnum vildu líka taka það fram að þeim hefði ekki síður sviðið það að þrátt fyrir að Kvenréttindafélag Íslands hafi hvatt konur sérstaklega til að sækja um starfið, með ábendingu um að eingöngu karlar hefðu stýrt Seðlabankanum frá stofnun hans, þá hefði ríkt algjör þögn um jafnframbærilegan kvenumsækjanda og Lilju Mósesdóttur. Þær treystu sér þó ekki til að kveða úr um það hvort ástæðan væri eingöngu sú að Lilja er kona eða einhver önnur.

„Það er ekki aðalatriðið í mínum huga að kona verði næsti seðlabankastjóri heldur það að hæfasti umsækjandinn hljóti stöðuna“ sagði einn karlmannanna í hópnum og bætti við: „Síðan hvenær hefur það ekki vakið athygli þegar fyrrverandi þingmaður sækir um embætti eins og seðlabankastjórastöðuna? Þegar það er haft í huga að Lilja er eini umsækjandinn sem hefur lagt fram raunverulegar tillögur um það hvernig á að leysa skuldavandann, sem við erum í, þá er það í raun stórfurðulegt hvað umsókn hennar hefur vakið litla athygli í fjölmiðlum.“ Hinir tóku undir þetta.

Það kemur e.t.v. ekki á óvart að allir í hópnum sem er að baki síðunni gengu í Samstöðu á sínum tíma enda bundu þau vonir við að hennar hugmyndir og stefna í velferðar- og efnahagsmálum næðu eyrum og stuðningi kjósenda þannig að Lilja kæmist áfram inn á þing. Af því varð ekki en eins og aðstandendur síðunnar hafa vakið athygli á þá er ekki síðra tækifæri nú til að njóta hugmynda Lilju um lausnir á efnahagsvanda þjóðarinnar.

„Það hafa allir tækifæri til, óháð flokkspólitískum línum, að skora á stjórnvöld að skipa Lilju Mósesdóttur yfir Seðlabankann.“ Aðstandendur síðunnar benda á að hún hafi marga ótvíræða kosti fram yfir aðra umsækjendur eins og tekið er fram í kynningunni á síðunni sem var líka sett með fyrsta innleggi hennar en þar segir m.a:

Aðrir umsækjendur með hagfræðimenntun hafa sýnt það með störfum sínum að þeir eru hluti af því kerfi sem hrundi haustið 2008 og var svo endurreist á nánast sama grunni með aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Lilja hefur frá hruni verið óhrædd við að setja fram óhefðbundnar efnahagslausnir sem tryggja hagsmuni almennings og er því að okkar mati hæfasti umsækjandinn. (sjá meira hér)

Það sést líka á orðsendingum marga þeirra sem hafa lækað við síðuna og vakið athygli á henni með deilingum að þeir eru á sama máli. Þeirra á meðal eru Ísleifur Gíslason og Edith Alvarsdóttir sem bæði hafi skilið eftir stuðningsyfirlýsingar og hvatningarorð í innleggjum á síðuna sjálfa og með deilingum á henni og innleggjum hennar.

isleifur1.jpg

Þess má líka geta að Ísleifur hefur verið mjög duglegur við að vekja athygli á síðunni á öðrum síðum og hópum sem hafa orðið til um breytta peningastefnu og bætta efnahagstjórnun á undanförnum árum. Þeir eru líka fleiri sem hafa fylgt því fordæmi. Edith Alvarsdóttir skrifar þetta innlegg með deilingu á tengli sem deilt hafði verið af stuðningssíðunni:

edith11.jpg

Hilmar Elíasson hefur líka verið ötull við að koma rökum fyrir stuðningi sínum við Lilju Mósesdóttur á framfæri inni á síðunni sem var einmitt stofnuð til að koma vilja þeirra sem vilja Lilju sem næsta seðlabankastjóra á framfæri. Hér er eitt innleggja hans:

hilmarII1.jpg

María Lóa Friðjónsdóttir setti þessi ummæli fram á síðunni í fyrrakvöld þar sem hún færir rök fyrir því af hverju hún styður það að Lilja Mósesdóttir verði næsti yfirmaður Seðlabankans:

marialoa1.jpg

Þegar hópurinn er inntur eftir því hvaða árangri hann væntir að ná með þessu framtaki kemur í ljós að meðlimirnir eru misbjartsýnir. Þau eru þó öll sammála um, að með þeim árangri sem þegar hefur náðs hafi tekist að draga það fram að stuðningur við efnahagshugmyndir Lilju er fyrir hendi meðal þokkalega breiðst hóps fólks á öllum aldri, óháð stétt og kyni.

Þau segjast ekki treysta sér til að segja til með búsetu að svo komnu en vilja taka það fram að þó lækin séu komin yfir þúsund á ótrúlega skömmum tíma þá dugi sú tala ekki til að gera eitthvað frekar með áskorun síðunnar. Flest eru hins vegar bjartsýn á að fleiri muni treysta sér til að læka síðuna á næstu dögum en vildu engu svara um það hvaða tala yrði til þess að þau gengju lengra með áskorun hennar.

Einn úr hópnum minnti á að í kjölfar hrunsins hafi mótmælendur safnast saman fyrir framan Seðlabankann vegna meintrar vanhæfni Davíðs Oddssonar til að stýra bankanum. „Ég veit ekki hvað þeir voru margir sem mótmæltu þá en þeir fengu vilja sínum framgengt. Það er þess vegna langt frá því fráleitt að fólk standi saman nú til að koma því á framfæri að við viljum fá fullkomlega hæfa manneskju í þetta starf,“ bætti hann við. Aðstandendur síðunnar bentu á að þetta sjónarmið hefði komið fram víðar þar sem umræður hafa sprottið um áskorun síðunnar.

Guðni Björnsson setti eftirfarandi áskorun inn á síðu Hagsmunasamtaka heimilanna þar sem hann skorar á samtökin að styðja Lilju. Áskorun hans  leiðir til umræðna þar sem hann minnir á að með samtakamættinum hafi tekist „að koma hrunverja út og hvers vegna ekki alvöru konu inn?“

Hagsmunasamtokin.jpg

Að lokum má geta þess að aðstandendur síðunnar munu halda henni í loftinu þar til það verður gert opinbert hver umsækjandanna verður skipaður til embættisins. Ekki hefur verið tekin nein sérstök ákvörðun um það hvað verður gert við síðuna eftir það. „Kannski verður hún bara höfð áfram í loftinu sem minnisvarði um þann stuðning sem Lilja Mósesdóttir naut til embættisins.“

Þegar aðstandendur síðunnar eru spurðir um það hvort það standi til að þeir gefi sig fram sem andlitin á bak við síðuna þá benda þau á að þegar litið sé á síðuna þá sé ljóst að þeir eru margir sem styðja Lilju og jafnvel miklu fleiri sem hafa gert það opinberlega en nokkurt þeirra gerði ráð fyrir. „Það er þess vegna ekki ólíklegt að margir þeirra séu reiðubúnir til að standa við sinn stuðning hvar og hvenær sem er.“

„Það er þessi stuðningur sem skiptir máli. Við sem stöndum á bak við síðuna erum ekkert aðalatriði í því sambandi heldur sú breiða samstaða, sem síðan ber vitni um að er til staðar við efnahagsúrlausnir Lilju, meðal almennings“. Einhver þeirra töldu þó ekkert útilokað að þau myndu gefa sig fram sem fulltrúar aðstandendahópsins ef það reynist nauðsynlegt að hann eignaðist opinberan talsmann.

[email protected]