Landsfundur 2013: Ályktanir

borði

Gagnsætt eignarhald til að tryggja almannahagsmuni

Flutningsmaður: Lilja Mósesdóttir

SAMSTAÐA flokkur lýðræðis og velferðar hvetur Alþingi til að samþykkja lagabreytingar sem afnema falið eignarhald fyrirtækja með takmarkaða ábyrgð. Gagnsætt eignarhald dregur úr samfélagsáhættu af rekstri fyrirtækja, skattaundanskotum og möguleikum á peningaþvætti.

Ísland á að setja fordæmi í baráttunni gegn vogunarsjóðum/hrægammasjóðum og innleiða í lög kröfu um að upplýst verði um alla raunverulega eigendur fyrirtækja og fjármálafyrirtækja.

Vogunarsjóðir/hrægammasjóðir kaupa kröfur í gjaldþrota fyrirtæki á hrakvirði og hreinsa út úr fyrirtækjum sem þeir eignast án þess að slá af verðmæti eignanna. Lögheimili hrægammasjóða er oftast í ríkjum þar sem fullkomin leynd er um eignarhald og greiðslur skatta og arðs.  Verði gagnsætt eignarhald leitt í lög mun draga úr ávinningi vogunarsjóða/hrægammasjóða af fjárfestingum í íslensku viðskiptalífi.

Gagnsætt eignarhald er forsenda samkeppni á mörkuðum og trausts almennings á viðskiptalífinu.  Það er sjálfsögð krafa í lýðræðissamfélagi að við vitum við hvern við eigum í viðskiptum.

Ný stjórnarskrá sem leyfir þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave mál

Flutningsmaður: Valdís Steinarsdóttir

SAMSTAÐA flokkur lýðræðis og velferðar krefst þess að frumvarpi að nýrri stjórnarskrá verði breytt þannig að kjósendur hafi rétt til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um öll mál.

Íslendingar hafa nú eftir fullnaðarsigur í Icesave-málinu fyrir EFTA-dómstólnum sýnt fram á mikilvægi þess að þjóð hafi stjórnarskrártryggðan rétt til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um öll mál. Í 67. grein stjórnarskrártillagna stjórnlagaráðs er hins vegar ákvæði sem bannar að kjósendur geti krafist atkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög og lög sem eru sett til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum.

Málskotsréttur forsetans er óbreyttur í 60. grein tillagnanna. Hægt er að véfengja rétt hans til málskots varði lögin þau málefni sem 67. greinin tilgreinir sérstaklega að ekki megi fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ríkisstjórnin gæti því dregið í efa ákvörðun forsetans um að synja slíkum lögum staðfestingar og tafið eða jafnvel neitað að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðsluna.

Stefna hvað varðar eingarhald á orku- og veitufyrirtækjum

Flutningsmaður: Jón Kr. Arnarson

SAMSTAÐA flokkur lýðræðis og velferðar telur mikilvægt að Landsvirkjun verði ávallt í opinberri eigu.  Sama gildir um veitustofnanir svo sem vatnsveitur, rafmagnsveitur og hitaveitur.

Lausn skuldavandans og snjóhengjuvandans

Flutningsmaður: Lilja Mósesdóttir

SAMSTAÐA flokkur lýðræðis og velferðar hvetur Alþingi  til að fela ríkisstjórninni að koma fram með aðgerðir á þessu ári sem leysa varanlega skuldavandann (innra ójafnvægið) og snjóhengjuvandann (ytra ójafnvægið) til að varna yfirvofandi gengishruni og fjöldagjaldþrotum. Aðgerðirnar tryggi hagsmuni almennings í hvívetna. Í því skyni verði farin peningamillifærsluleið til að taka á skuldavanda heimilanna og Nýkróna á mismunandi skiptigengi til að leysa snjóhengjuvandann og skuldavanda fyrirtækja.

Meginkostir peningamillifærsluleiðarinnar eru að leiðrétting forsendubrestsins hefur ekki áhrif á eignir lífeyrissjóðanna, eignarétt kröfuhafa og skuldatryggingaálag ríkissjóðs. Upptaka Nýkrónu á mismunandi skiptigengi til að skrifa niður verðmæti snjóhengjunnar mun gera afnám gjaldeyrishafta mögulegt. Jafnframt þarf að innleiða varanlegan skatt sem dregur úr sveiflum í gengi Nýkrónunnar af völdum spákaupmanna.

Veruleg hætta er á öðru hruni ef ráðamenn hafa ekki kjark til að leiðrétta innra og ytra ójafnvægi hagkerfisins og gera nauðsynlegar breytingar á fjármálakerfinu, lífeyriskerfinu og húsnæðiskerfinu. Breytingar sem tryggja annars vegar meira jafnvægi milli lífeyrissjóða og almannatrygginga í lífeyriskerfinu (sbr. þingmál nr. 40) og hins vegar aðskilnað peningaprentunar og útlánastarfsemi fjármálafyrirtækja með því að afnema heimildir bankanna til útlána umfram bundnar innstæður (sbr. þingmál nr. 239).

Ávinningur þess að auka hlut gegnumstreymiskerfisins verulega í blönduðu lífeyriskerfi er að fátækt meðal lífeyrisþega mun minnka og minni líkur verða á því að lífeyrir rýrni og tapist vegna slæmra fjárfestinga sjóðanna.

Í gegnum aðskilnað peningaprentunar og útlánastarfsemi munu bankar ekki geta aukið útlán umfram innlán eftir eigin geðþótta heldur munu þau ráðast af ákvörðun sérfræðinga Seðlabankans um þörfina á auknu peningamagni í umferð. Ávinningurinn af aðskilnaðinum er aukinn efnahagslegur stöðugleiki, hverfandi líkur á bankaáhlaupi og minni skuldsetning.

Ef áhrif af leiðréttingu verðtryggðra lána með peningamillifærsluleiðinni á að vera varanleg verður að gera heimilum kleift að skuldabreyta verðtryggðum lánum yfir í óverðtryggð lán með föstum vöxtum til ákveðins tíma. Auk þess verður að lækka (raun)vexti verðtryggðra fasteignalána sem eru komnir í 4,3%  en eru hvergi annars staðar jafn háir. Styrkja verður samningsstöðu lántakenda gagnvart lánveitendum og gefa fólki tækifæri til að losna undan ósjálfbærri skuldsetningu með því að leiða í lög réttinntil að skila inn lyklum að eign sinni (þingmál nr. 23).

Núverandi fasteignalánakerfi getur ekki tryggt öllum húsnæðisöryggi og því verður að grípa til varanlegra úrræða sem gefna fólki kost á raunverulegu vali á milli leigu-, búseturéttar- og eignaríbúða.

Áskorun landsfundar til stjórnar SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar

Flutningsmaður: Rakel Sigurgeirsdóttir

Félagar á landsfundi SAMSTÖÐU flokki lýðræðis og velferðar skora á nýkjörna stjórn flokksins að boða til almenns félagsfundar svo fljótt sem auðið er í kjölfar ákvörðunar landsfundarins að bjóða ekki fram í komandi Alþingiskosningum. Á félagsfundinum verði stofnaður vinnuhópur á vegum SAMSTÖÐU sem hefur það hlutverk fram að næstu alþingiskosningum að hafa áhrif á stjórnmálaumræðuna.

Þörf er á upplýsandi og málefnalegri umræðu um þau mál sem brenna á þjóðinni. Hlutverk vinnuhópsins yrði að standa fyrir fjölþættri en launsarmiðaðri umræðu á opinberum vettvangi um brýn mál sem varða lausn á skuldavanda heimilanna, afnám gjaldeyrishafta án þess að snjóhengjunni verði varpað á íslenska skattborgara og framtíðarsýn án ESB-aðildar.

Stjórn SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar tryggi áframhaldandi starf flokksins með því að viðhalda tengslum við félaga hans og virkja þá til uppbyggingar SAMSTÖÐU til sveitastjórnar- og/eða alþingiskosninga.