Pétur Örn Björnsson: Þrjú ljóð með baráttukveðjum til Samstöðufólks

BRÉF TIL STÍNU

 Sometimes I feel down, on
the Whipping Post.
(The Allman Brothers Band)

Elsku Stína
Eins og þú veist
þá hætti ég í lýrík & póesíu
til að geta átt fyrir gluggunum
– varkár og með vöðin á hreinu –
og ég puðaði og puðaði og puðaði
– eins og allt er þrennt
og í plati heilagt í puðinu –
í þúsundir ára í mannkyns-sögunni


en nú er ekkert að gera í puðinu
og banka- og ríkis-hirða fjárarnir
búnir að ræna öllum sparnaðinum
svo nú á ég ekki fyrir gluggunum
– og það er hið grátlega fyndna –
að nú get ég ekkert annað gert
en að rifja upp eld-gamla takta
og rissa galdra-rúnir á veggina
og ljóða og ljóða og ljóða
á alla þessa glugga-skratta
húsnæðis-lána-bréfanna
sem birtast mér sem fjárar
stökkbreyttir í neðra
og vafnings-skreyttir
með verð-tryggðum böndum
og vaxtaðir út úr öllum kortum
og þramma nú yfir höfuð mitt
með bólgu-fótum höfuðstólanna
í pískandi spotti á allt mitt
puð eftir puð eftir puð
– eins og allt er þrennt
og í plati heilagt í puðinu –

Nei! Nú rissa ég galdra-rúnir
á veggina og ljóða á gluggana
og í spotti
ríf ég öll bréfin
og flyt níðvísur mínar
yfir rifrildunum
og bölva svo með látum
langt fram eftir degi
en undir kvöldið í hljóði


og í því hljóði spyr ég þig nú
í þínu basli – elsku Stína mín:
Hvenær kemurðu með mér?
Að æpa á ríkishirð fjáranna:

–     Löggjafarvaldið
–     Stjórnsýsluvaldið
–     Ríkis-hirða-valdið
–     Fjár-glæpa-valdið

Vítis Fokkin valda Fokk!

Með eld-gamalli baráttukveðju
þinn vinur, Prómeþeifur í huga.

(Pétur Örn Björnsson, des. 2009)

BERGMÁL

Þegar það liggur við
að annar hver
er orðinn opinber
og tungutakið
lýjandi
bergmál

bara vinna hér
bara vinna hér

þá endurkastast hún
spurningin

fyrir hvern?
fyrir hvern?

Eigum við hin
bara að vinna hér
eða þar eða hvar?

Í lýjandi greftri
í bergmáli
grafanna.

(Pétur Örn Björnsson, jan. 2010)

UM MEÐFERÐ VÓGÓNA

Tileinkað Douglas Adams og “HHGTTG”

 Og ég sem hef í heilum
og mörgum árum talið
urrað á valdakerfið
og spangólað á það
og á alla þá leiðinlegu
og á alla þá ömurlegu
fjárana – Vógóna forræðis
og skrifræðis
helvítis okkar
hér á jörðinni
… fyllist nú …
eldmóði miklum
og hugljómunar-stuði
– af góðmennskunni einni –
að koma þeim til mennsku.

Og því býð ég þeim nú
-ósjálfbjarga greyjunum-
upp á heilmikið að gera
til atvinnubóta og endurbata.

Af mannlegri reisn minni
– hress í bragði –
hugljómaður í stuði
hér framfæri ég þeim:
Eitt stykki prógramm
– meðferðar til mennsku –
í heilbrigðum endurbata
í risa-gróðurhúsum
– íslenskum –
þar sem náttúran sjálf
og fingur okkar grænu
gefa okkur velsæld
og gæðin öll
í þægilegri
og notalegri
innivinnu
með moldina
og plönturnar
og rafmagnaðar
sólirnar – að auki
á dögunum stuttu –
í duflandi og lifandi
dægrunum öllum
í litbrigðunum öllum
í dillandi hlátrasköllum.

Og í vörubílasnattið
–  búskussarnir gömlu –
Davíð, Geir og Dóri,
Solla, Steini og Jóka

og Villi og Gylfi
í bananapökkun.

“Háv a bát it”?
Yfir á hið ylhýra:
Hvað segist um það?

(Pétur Örn Björnsson, febrúar 2010)