Höfundur: Ívar Jónsson prófessor
Stjórnmálaflokkar leika mikilvægt hlutverk í valdakerfi samfélagsins við hlið hagsmunasamtaka í atvinnulífinu, fjölmiðla, fyrirtækja, háskóla og fleiri aðila sem áhrif hafa á skoðunarmyndun í samfélaginu. Ólíkt þessum aðilum hafa stjórnmálaflokkar það hlutverk að skilgreina hvert samfélaginu í heild sinni beri að stefna. Hlutverk þeirra er jafnframt að móta löggjöf og reglugerðir með þeim hætti sem gerir að veruleika hugmyndir viðkomandi flokka um hvernig samfélag ber að þróa í landinu.
Hugmyndir um framtíðarsamfélagið, sem byggja á tilteknum grunngildum og eru gjarnan rökstuddar fræðilegum eða trúarlegum rökum, eru gjarnan kallaðar hugmyndafræði. Grunngildin eru forsenda þeirra markmiða sem stjórnmálaflokkar setja sér og hinar fræðilegu og trúarlegu forsendur móta þær leiðir sem fara ber til að gera markmiðin að veruleika. Hugmyndafræði snýst þannig um markmið og leiðir stjórnmálabaráttunnar.
Samstöðuhugmyndafræði
Hugmyndafræði SAMSTÖÐU – flokks lýðræðis og velferðar byggir á grunngildum einstaklingsfrelsis, jafnréttis og jafnaðar. Markmið flokksins er að byggja upp samfélag þar sem nægilegur jöfnuður ríkir til að einstaklingarnir geti þroskast á eigin forsendum, án mismununar og hafa sem jafnasta möguleika til að hafa áhrif á skoðanamyndun og lýðræðislega ákvarðanatöku bæði í nærsamfélaginu og samfélaginu í heild. Mannúð og umhyggja fyrir náunganum og þeim sem minna mega sín er siðferðileg afstaða sem kallar á aðgerðir til að skapa öllum efnalegar forsendur til að lifa mannsæmandi lífi.
Leiðir SAMSTÖÐU til að gera þessi markmið að veruleika byggja á greiningu á sérstöðu íslensks efnahagslífs og samfélags. Vegna smæðar samfélagsins er mikil tilhneiging til fákeppni í efnahagslífinu en það skapar skilyrði fyrir samþjöppun auðs og valds á hendur fámennra forréttindahópa. Þegar til lengri tíma er litið dregur fákeppnin úr hagvexti og efnahagslegri velferð. SAMSTAÐA leggur áherslu á að opinberir aðilar og samvinnufélög leiki mikilvægt hlutverk á mörkuðum þar sem samkeppni er kæfð af fákeppnifyrirtækjum.
SAMSTAÐA leggur einnig á áherslu á að fulltrúalýðræði eitt og sér nægir ekki til að lýðræðislegar ákvarðanir séu teknar í samfélaginu. Fleiri ákvarðanatektarform þarf til að grafa undan valdasamþjöppun í samfélaginu. Við hlið fulltrúalýðræðisins á Alþingi og í sveitarstjórnum ber að þróa beint lýðræði. Í því felst krafan um að ef tiltekinn fjöldi kjósenda óskar þess skulu almennar kosningar um mikilvæg málefnihaldnar svo sem vegna málefna á sveitarstjórnarstiginu eða þjóðaratkvæðagreiðslur um lög frá Alþingi. SAMSTAÐA leggur einnig áherslu á mikilvægi þáttökulýðræðis sem felst í því að hagsmunaaðilar eigi fulltrúa á þeim vettvangi þar sem ákvarðanir eru teknar sem snerta þeirra hagsmuni. Í þessu sambandi er atvinnulýðræði sérstaklega mikilvægt.
Ekki vinstri, ekki hægri, ekki miðjumoð
Hugtökin „vinstri“ og „hægri“ hafa löngum verið notuð til að varpa ljósi á hugmyndafræðilegan mun á stjórnmálahreyfingum. Þær hreyfingar sem hafa verið taldar til vinstri hafa lagt áherslu á öflugt velferðarkerfi, tekjujöfnuð og talið launþegahreyfinguna leika lykil hlutverk í baráttunni fyrir betra samfélagi. Jafnframt hefur ríkisrekstur og miðstýrt ríkisvald verið kennimerki vinstrimennskunnar hvort sem um hefur verið að ræða kommúnista eða sósíaldemókrata.
Hægri hreyfingar hafa þær hreyfingar verið taldar sem telja samkeppni á mörkuðum vera drifkraft samfélagsþróunar enda leiði hún til jafnrar tekjudreifingar og hámarksframleiðslu hagkerfisins. Afskipti ríkis eða sveitarfélaga á að vera í lágmarki hvort sem það er á sviði félags-, umhverfis- eða efnahagsmála. Einstaklingurinn á sjálfur að taka afleiðingum gjörða sinna. Svokallaðir miðjuflokkar eru víða um lönd en hugmyndafræði þeirra hefur einkennst af skorti á framtíðarsýn varðandi það hvers konar samfélag þeir vilja þróa. Slíkir flokkar eru jafnan lýðskrumsflokkar sem sveiflast með vinstri og hægri flokkunum í takt við hvernig vinsældir þeirra þróast.
Framsóknarflokkurinn skilgreinir sig í dag sem miðjuflokk. Stefna hans sveiflast nú til og frá allt eftir því hvað öðrum flokkum dettur í hug að bjóða fram á markaðstorgum stjórnmálanna. Hann skortir samfélagslega framtíðarsýn og greiningu á því hvaða leiðir ber að fara að hvers konar samfélagi. Miðjumoð er þessi hugmyndafræði stundum kölluð.
Á árum áður, eða allt fram á 9. áratug síðustu aldar skilgreindi flokkurinn sig sem félagshyggjuflokk eða eins og Eysteinn Jónsson sagði í riti sínu Framsóknarflokkurinn og stefna hans: „Framsóknarflokkurinn er upphaflega stofnaður til stuðnings og fulltingis sjálfsbjargarviðleitni almennings, og samtökum fólksins til styrktar í baráttunni fyrir frelsi og betra og fegurra lífi. Flokkurinn er því flokkur félagshyggju […]“ Ennfremur segir Eysteinn flokkinn berjast fyrir þjóðfélagi, „þar sem manngildið er metið meira en auðgildið, og vinnan, þekkingin og framtakið er sett ofar og látið vega meira en auðdýrkun og fésýsla.“
Hugmyndafræði SAMSTÖÐU er andstæð núverandi miðjumoði Framsóknarsóknarflokksins. SAMSTAÐA vill vinna að þróun fjölþátta hagkerfis, þar sem opinber, samvinnu- og einkareksturdafnar á viðeigandi sviðum. SAMSTAÐA leggur einnig áherslu á hlutverk frjálsra félagasamtaka og hagnaðarlausrar starfsemi í atvinnuþróun, atvinnusköpun og velferðarþjónustu. Á fákeppnismörkuðum ber samvinnufélögum og hinu opinbera að hafa leiðandi hlutverk. SAMSTAÐA vill að á fjármálamarkaði sé einn öflugur banki í eigu ríkisins og neytendur hafi valkosti eins og sparisjóði, þar sem fjárfestingar- og viðskiptabankastarfsemi er aðskilin.
Sjálfstæðisflokkurinn í klóm nýfrjálshyggjumanna
Sjálfstæðisflokkurinn var í byrjun dæmigerður hægriflokkur sem barðist af hörku gegn umsvifum ríkisins í atvinnurekstri og velferðarþjónustu. 1944 myndaði flokkurinn ríkisstjórn undir forystu Ólafs Thors, þ.e. Nýsköpunarstjórnina. Flokkurinn lagði þá áherslu á uppbyggingu íslensks velferðarkerfis í anda hugmynda Beveridge lávarðar. Á sjötta og sjöunda áratugnum var flokkurinn undir áhrifum af hugmyndafræði kristilegra demókrata í V-Þýskalandi um félagslegan markaðsbúskap, en þeir lögðu áherslu á öflugt velferðarkerfi og mikil afskipti ríkisins af fákeppnismörkuðum til að koma í veg fyrir forréttindaaðila í atvinnulífinu.
Helsti hugmyndafræðingur Sjálfstæðisflokksins á þessum tíma, Birgir Kjaran, sagði í grein sinni „Ludwig Erhard og “Þýzka kraftaverkið”í tímaritinu Frjálsri verslun, að formælendur hins félagslega markaðsbúskapar telja, að á óheftu markaðskerfi „hafi reynzt slíkir annmarkar, að það sé úrelt í sinni upphaflegu mynd. Þetta kerfi hafi að vísu haft í för með sér miklar framfarir, aukna framleiðslu, vaxandi velmegun o. s, frv., en í kjölfar þess hafi einnig siglt ýmiss konar félagslegt misrétti og öryggisleysi. Tilætlun þeirra er því að koma á kerfi, sem felur í sér alla vaxtar- og framvindumöguleika markaðsbúskaparins, en jafnframt reyna að girða fyrir félagslegt misrétti og tryggja þegnunum öryggi í ríkara mæli.“Hinu opinbera er því ætlað mikilvægt hlutverk í samfélaginu.
Í ritinu Sjálfstæðisstefnan segir Birgir hlutverk hins opinbera vera m.a. að: „Að stuðla að eða taka þátt í atvinnurekstri undir vissum kringumstæðum, ef félagsnauðsyn krefur.“ Sem dæmi nefnir Birgir atvinnurekstur „sem einstaklingum og félagssamtökum þeirra er ofviða að stofna eða reka […] Atvinnurekstur, sem felur í sér einokunaraðstöðu og ekki er mögulegt að hafa eftirlit með […] Atvinnurekstur, sem stofna þarf til vegna félagslegrar nauðsynjar, atvinnuleysis, byggðajafnvægis o.fl.“.
Á 9. áratug síðustu aldar féll Sjálfstæðisflokkurinn frá þessari stefnu og tók upp harða nýfrjálshyggjustefnu. Ekkert tillit var tekið til sérstöðu og smæðar íslensks hagkerfis. Eftirlit með atvinnulífinu var aðeins að nafninu til, einkavæðingu var framfylgt af trúarlegu ofstæki, fákeppnisfyrirtæki óðu uppi, ekki síst í fjármála- og verslunargeiranum. Afreglun viðskipta leiddi til vitstola ævintýra útrásarvíkinganna. Nýfrjálshyggjutilraun Sjálfstæðisflokksins og meðsektarflokka hans, Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar, leiddi að lokum til allsherjar hruns íslensks samfélags og efnahagslífs árið 2008. Eftirlits- og sinnuleysið gagnvart fákeppnimörkuðum varð til þess að raunsæ markaðshyggja vék í reynd fyrir naívri einkaeignarhyggju sem jafnvel Hayek, átrúnaðargoð nýfrjálshyggjumanna, fordæmdi í bók sinni Leiðin til ánauðar.
Að lokum er rétt að halda því til haga að nýfrjálshyggjutilraunin leiddi auk þessa til samfélagslegs siðrofs þar sem sviksemi, græðgi og sinnuleysi gagnvart vandamálum þeirra sem minna mega sín í samfélaginu kæfði hefðbundin gildi heiðarleika og mannúðarhyggju. Slík gildi eru fyrirlitleg í paradís nýfrjálshyggjunnar. Þrátt fyrir skipbrot nýfrjálshyggjunnar ræður valdaklíka nýfrjálshyggjunnar enn ríkjum í Sjálfstæðisflokknum.
Hugmyndafræði SAMSTÖÐU er andstæð nýfrjálshyggju. Líkt og Sjálfstæðisflokkurinn gerði fyrir tíð nýfrjálshyggjunnar leggur SAMSTAÐA áherslu á mikilvægt hlutverk hins opinbera á mörkuðum þar sem fákeppni ríkir og leggur auk þessu áherslu á mikilvægt hlutverk samvinnufélaga í þessu sambandi. SAMSTAÐA leggur jafnframt mikla áherslu á öflugt velferðarkerfi en vill að það sé ýmist rekið af hinu opinbera eða félagasamtökum þannig að hagsmunir notenda velferðarþjónustu séu sem best tryggðir.
Nýfrjálshyggjuvæðing „vinstri flokkanna“
Samfylkingin og Vinstri hreyfingin – grænt framboð kalla sig vinstri flokka. Rætur þeirra má rekja til Kommúnistaflokks Íslands og Alþýðuflokks Íslands. Í upphafi börðust þessir flokkar fyrir því að öll helstu atvinnutæki og fyrirtæki landsmanna yrðu í eigu hins opinbera. Þeir vildu koma á jöfnuði með þrepaskiptuskattkerfi og byggja upp öflugt velferðarkerfi. Flokkarnir voru sammála um að í landinu skyldi vera sterkt miðstýrt ríkisvald sem væri forsenda áætlanabúskapar. Báðir þessir flokkar vildu koma á sósíalísku samfélagi á Íslandi, en þá greindi á um leiðina til sósíalismans. Kommúnistarnir vildu fara byltingarleið en Alþýðuflokksmenn þingræðisleiðina.
Árið 1938 var Sameiningarflokkur alþýðu, Sósíalistaflokkurinn, stofnaður við samruna Kommúnistaflokksins og klofningshóps úr Alþýðuflokknum. Gylfi Þ. Gíslason, formaður Alþýðuflokksins sagði báða flokkana sósíalíska „[…] og vilja kapítalismann feigan […] Sósíalistar vilja […] ekki, að ágóðavon einstakra atvinnurekenda sé leiðarljós framleiðslunnar, svo sem nú er, heldur sé hún skipulögð og fari fram eftir gerðri áætlun, því að á þann hátt einan sé full starfræksla atvinnutækjanna tryggð og hægt að koma í veg fyrir atvinnuleysi og kreppur […] Til þess að þessum markmiðum verði náð, verður að afnema eignarrétt einstaklinga á öllum meiri háttar framleiðslutækjum, taka þau í eigu samfélagsins – þjóðnýta þau. Um þetta eru allir sósalistar sammála […]“ (sjá Sósíalismi á vegum lýðsræðis eða einræðis).
Í stefnuskrá Alþýðuflokksins frá 1986 er sama hugsun á lofti. Þar er fullyrt að mörg fyrirtæki séu svo „mikilvæg í atvinnulífi og valdakerfi landsins og einstakra byggðarlaga að þau eiga að vera samfélagseign og stjórnendur þeirra ábyrgir fyrir almenningi. Eigendur þeirra geta verið sveitarfélög, samvinnufélög og sjóðir í umsjá launþegasamtaka […] Atvinnurekstur, sem aðkallandi er að færa Í almannaeign, er bankastarfsemi, tryggingar, lyfsala, heildverslun með olíuvörur og mikilvæg fyrirtæki í útgerð og fiskvinnslu.“
Eins og kunnugt er nýfrjálshyggjuvæddist Alþýðuflokkurinn í formannstíð Jóns Baldvins Hannibalssonar sem taldi að velferðarkerfið hafi náð hármarksstærð sinni. Baráttan um eflingu velferðarkerfisins var lögð til hliðar og ráðist var gegn grundvallarstefnumiði jafnaðarmanna að koma á jöfnuði með þrepaskiptu skattkerfi. Slíkt skattkerfi felst í því að þeim mun hærri tekjur sem menn hafa, þeim mun hærri prósentu af tekjum sínum greiða þeirí skatt. Þegar Jón Baldvin var fjármálaráðherra 1988, í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar, lagði hann niður þrepaskipt tekjuskattskerfi landsmanna. Það segir sína sögu um Samfylkinguna að í núverandi ríkisstjórn hafa stjórnarliðar úr hennar röðum barist með kjafti og klóm gegn hækkun hátekjuskatta.
Alþýðubandalagið var arftaki Sósíalistaflokksins þegar það var stofnað 1968 sem sósíalískur fjöldaflokkur. Alþýðubandalagið var lagt niður 1999 þegar VG var stofnað en árið 2000 var Samfylkingin stofnuð. Félagar í Alþýðubandalaginu röðuðu sér í þessa tvo flokka og við bættust félagar úr Alþýðuflokki, Kvennalista og Þjóðvaka Jóhönnu Sigurðardóttur. Bónapartískur stjórnunarstíll hefur alla tíð fylgt VG og SF og foringjaræði mikið og persónudýrkun. Segja má að núverandi foringjar þessara flokka séu póstmódernískir íkonar. Þeir eru veruleikafirrtir stjórnmálamenn eftir áratuga félagslega einangrun á Alþingi, goðsagnalegar táknmyndir um vinstri hreinleika sem eftir hrunið hafa afhjúpað eðli sitt sem lýðskrumarar sem harðast allra hafa ráðist gegn velferðarkerfinu án þess að leita allra leiða til að bjarga því.
Þjónkun núverandi ríkisstjórnar við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn er VG og SF til ævarandi skammar en þó fyrst og fremst sönnun þess hversu viljugir þessir flokkar eru til að innleiða nýfrjálshyggju og fórna velferðarkerfinu. Hin „hreina vinstristjórn“ hefur gert hugtakið „vinstri“ merkingarlaust í íslenskum stjórnmálum. Nú þegar „vinstri flokkarnir“ hafa sýnt sitt rétta andlit hefur traust almennings á þessum flokkum hrunið og fylgið með. Fólk krefst nú heilinda og heiðarleika í stjórnmálum og hafnar því í auknum mæli fjórflokknum.
SAMSTAÐA – flokkur lýðræðis og velferðar tekur alvarlega áratuga baráttu fyrir öflugu velferðarkerfi á Íslandi. Íslenskt velferðarkerfi staðnaði í hugmyndafræði Beveridge lávarðar frá því í seinni heimstyrjöldinni. Þessi stöðnun hefur leitt til þess að forysta VG og SF misskilur hugtakið „norrænt velferðarkerfi“ og áttar sig ekki á því að málið snýst ekki bara um umfang útgjalda til velferðarkerfisins heldur skipulagslegt inntak þess.
SAMSTAÐA vill þróa velferðarkerfið áfram og koma á norrænu velferðarkerfi sem felur í sér jafnt aðgengi allra að bótum og þjónustu óháð tekjum skjólstæðinganna eða félagslegs bakgrunns þeirra. Þetta er gert til þess að millistéttin sjái hag sinn í því að öflugt velferðarkerfi sé í landinu og það feli ekki í sér niðurlægjandi ferli þar sem fólk þarf að sanna fátækt sína eða nauð til að fá bætur og þjónustu. Til þess að fjármagna slíkt norrænt velferðarkerfi er samhliða því komið á þrepaskiptu skattkerfi til að koma á jöfnuði í samfélaginu. Í þessu felst norræna módelið og í þessu felst kjarnastefna SAMSTÖÐU– flokks lýðræðis og velferðar.