Endurnýjaður stuðningur við Lilju

17 Aug 2014

Þeir sem hafa fylgst með síðunni:  Lilju Mósesdóttur sem næsta seðlabankastjóra hafa væntanlega tekið eftir því hvernig síðan hefur vaxið af bæði innleggjum og stuðningi. Það er þar af leiðandi eðlilegt að velta því fyrir sér hvað verður um hana nú þegar það hefur verið tilkynnt að Már Guðmundsson verður skipaður áfram í embættið.

Áður hefur komið fram að þeir sem standa að stuðningssíðunni eru fimm manna hópur sem síðar kom í ljós að eiga það sameiginlegt að vera félagsmenn í SAMSTÖÐU (sjá hér). Hópurinn hefur skipt nokkuð með sér verkum en meginvinnan hefur verið fólgin í því að setja inn efni á síðuna og svara kommentum og bréfum sem henni hafa borist.

Erfiður biðtími

Meðlimir hópsins segja þann tíma sem er liðinn frá því að stuðningssíðan var stofnuð, fram til síðasta föstudags, hafi verið bæði ævintýralegan og lærdómsríkan. Þau viðurkenna samt að biðin og endurtekin framlenging hennar hafi verið erfið á köflum en hún hafi þó gefið þeim aukið svigrúm til að koma síðunni enn betur á framfæri við notendur Facebook og fjölga í liði stuðningsmanna hennar.

„Fyrir vikið náðum við líka enn meiri árangri í að koma gagnrýni Lilju, á núverandi efnahagsstefnu og tillögum hennar til úrbóta, á framfæri. Því miður var eins og margt af þessu væri bæði gleymt og grafið. Með stuðningssíðunni hefur hins vegar tekist að minna rækilega á það að hún setti ekki aðeins fram heilstæðar lausnir á skuldavandanum heldur miðuðu þær að öðrum áherslum þar sem almeningur og velferðarkerfið eru sett í forgang í stað sérhagsmuna fjármálaaflanna.“

bankadoninn-1024x571.jpg

Þó ákvörðun Bjarna Benediktssonar hafi komið flestum í hópnum á óvart þá var það af mjög mismunandi ástæðum. Önnur kvennanna segir reyndar að hún hafi því miður verið búin að reikna þessa niðurstöðu út. Hins vegar hafi yfirlýsing Más Guðmundssonar komið henni í opna skjöldu og sé hún enn þá að meta það hvað kunni að liggja í henni.

Hin bætti því við að að það væri sitt mat að með skipun Más hafi það sýnt sig að í reynd er enginn munur á stjórnmálaflokkunum hvað grundvallarþátt pólitíkunnar varðar. „Umsóknarferlið og viðbrögðin við skipun Más gefa fullt tilefni til þess að fullyrða það að allir núverandi þingflokkar aðhyllast sömu hagfræðikenninguna sem gengur út á það að fjármálaöflin njóta þess forgangs að kostnaðinum af afglöpum þeirra er velt yfir á herðar skattgreiðenda.“

Framhaldið

Þegar kom að því að ræða framhald síðunnar vildi hópurinn taka það fram að í upphafi hafi þau rennt svolítið blint í sjóinn. Kveikjan að því að þau fóru út í það að stofna síðuna hafi verið sá stuðningur við Lilju sem kom fram í kommentakerfum við fréttir af því hverjir væru á meðal umsækjenda.

„Okkur langaði til að leiða þennan stuðning í ljós og í framhaldinu kom hugmyndin um að stofna þessa síðu. Í upphafi vorum við þó ekki með aðra hugmynd um framhaldið en þá að ef nægilega margir myndu læka síðuna þá mætti gefa út yfirlýsingu eða áskorun í nafni hennar. Að öðru leyti höfum við unnið þetta mjög mikið svona dag frá degi. Eftir á að hyggja var það sennilega líka bara besta leiðin.“

skuldlausframtid1-942x1024.jpg

Þegar þetta er skrifað eru þeir sem hafa lækað síðuna rúmlega 2.700. Þar sem enginn aðstandenda stuðningsstíðunnar hafði búist við því sem kom fram í yfirlýsingu Más Guðmundssonar höfðu þau undirbúið sig undir það að þurfa að skipta um nafn á síðunni en í ljósi þess sem kom fram í yfirlýsingu Más fannst þeim komið tilefni til að halda heiti hennar óbreyttu.

„Ég er á því að ráðning Más sé bara biðleikur þar til ný lög um Seðlabankann ganga í gildi í vetur en þá hlýtur staðan að verða auglýst aftur og þess vegna fullt tilefni að halda síðunni áfram,“ segir einn aðstandenda síðunnar. Eins og kom fram í frétt gærdagsins liggur sú hugmynd nú fyrir þeim sem þegar hafa lækað síðuna. Annar karlmannanna í hópnum vildi benda á að með því að halda síðunni gangandi væri tækifærinu haldið opnu til að koma því á framfæri að fólk sætti sig ekki við það að skipunin í embætti seðlabankastjóra væri háð pólitískum einkavinaráðingum.

Lýðræðislegar ákvarðanir

Umsjónarmenn síðunnar vildu að það kæmi skýrt fram að þau væru öll mjög samstíga í því að ekkert yrði gefið út í nafni síðunnar né breytingar gerðar á áskorun hennar nema í samstarfi við aðra velunnara hennar. Í þessu sambandi bentu þau á að það hefðu borist nokkrar fyrirspurnir í gegnum einkaskilaboðakerfi stuðningssíðunnar auk þess sem tillögur hafi verið settar fram í kommentum og opinberum skilaboðum hennar um aðgerðir og/eða framhald.

Þar væri helst að nefna áskorun af því tagi sem þau hefðu lagt upp með í upphafi, undirskriftarsöfnun til að styðja slíka áskorun og svo áskorun á kvenna- og jafnréttishreyfingar í landinu um það að gera athugasemd við það hvernig hefði verið gengið fram hjá hæfasta kvenumsækjandanum. Þau viðurkenndu hins vegar að ekki hefði unnist tími til að vinna úr þessum tillögum í þeirra hópi en tóku það fram að enn væri hæpið að gefa út nokkra áskorun til stjórnvalda þar sem fjöldi þeirra sem hefðu lækað síðuna hefði ekki náð þeim lágmarksfjölda sem almennt væri miðað við að þyrfti að standa að baki áskorun eða opinberum meðmælum af þessu tagi.

Þegar þau voru innt eftir því til hvaða lágmarkstölu þau væru að vísa var svarið ekki alveg afdráttarlaust en þó benti einn í hópnum á að lágmarkið hlyti að miðast við þann fjölda kjósenda sem stæði að baki hverjum þingmanni. „Það er reyndar mjög breytilegt eftir kjördæmum en þá þarf bara að finna einhverja meðaltalstölu sem gæti átt við landið allt.“

skuldlausframtid-1024x617.jpg

Miðað við núverandi fjölda lækara fannst þeim hæpið að gefa út áskorun eða yfirlýsingu til stjórnvalda í nafni stuðningssíðunnar en vildu ekki útiloka að af því gæti orðið síðar. „Slíkt verður þó aldrei gert nema að leggja hana undir velunnara síðunnar fyrst. Það útheitmtir vissulega nokkra vinnu og þýðir það líka að yfirlýsingin verður komin í opinbera umferð áður en hún yrði lögð fram á viðeigandi vettvangi.“ Þau segjast ekki vita hvort þetta hafi verið reynt áður en tóku fram að ef af yrði þá myndu þau standa frammi fyrir forvitnilegri tilraun þar sem ekkert þeirra hefði hefði reynt slíkt áður ef núverandi spurning, sem liggur fyrir velunnurum síðunnar, um framhald hennar er undanskilin.

Einn karlmannanna í hópnum vildi taka fram að: „Ég persónulega harma þá ákvörðun að sniðganga umsókn Lilju Mósesdóttur. Tveir virtir hagfræðingar og einn fyrrum flokksbróðir hennar hafa lýst því yfir opinberlega að þeir skilji ekki hvers vegna hún var ekki í þriggja manna hópi hæfustu umsækjenda. Á meðan Lilja var inni á þingi kom það endurtekið fram í  skoðanakönnunum að hún naut mikils trausts landsmanna. Það er því eðlileg krafa að stjórnvöld fái hana að borðinu við afnám hafta og að tillögur hennar, eins og skiptigengisleiðin, fái umfjöllun og efnislega niðurstöðu.“

Myndirnar sem fylgja viðtalinu eru fegnar að láni frá síðunni: Lilju Mósesdóttur sem næsta seðlabankastjóra.

[email protected]