Samstaða – flokkur lýðræðis- og velferðar
Grundvallarstefnuskrá
I. Rætur
Samstaða – flokkur lýðræðis- og velferðar sprettur úr íslensku umhverfi og leggur áherslu á þann lærdóm sem draga má af stjórnmálasögu landsins og sérkennum íslensks efnahagslífs og samfélags. Sú stefna sem verið hefur við lýði síðastliðna rúma tvo áratugi hefur leitt til óásættanlegs ójafnaðar í samfélaginu, spillingar og loks félags- og efnahagslegs hruns árið 2008. Lausnir sem reyndar hafa verið frá hruni hafa ekki bætt hag íslenskra heimila og fyrirtækja og því er knýjandi þörf fyrir nýjar leiðir og lausnir. Samstaða – flokkur lýðræðis- og velferðar vill byggja á hugmyndafræði samstöðu meðal landsmanna.
II. Grunngildi
Samstaða – flokkur lýðræðis- og velferðar er lýðræðissinnuð stjórnmálahreyfing sem vinnur að því að íslenskt samfélag byggi á grunngildum jafnaðar, samvinnu og sjálfbærni. Samstaða byggir stefnu sína á siðferðilegum forsendum réttlætis, mannúðar og heiðarleika.
Samstaða – flokkur lýðræðis- og velferðar telur sérstöðu íslensks samfélags felast í smæð þess. Sérstaðan skapar tækifæri til valddreifingar og lýðræðis sem einkennist af beinni þátttöku almennings í mikilvægum ákvarðanatökum samfélagsins, hvort heldur er á landsvísu eða í nærsamfélaginu. Samstaða telur að vegna smæðar samfélagsins sé tilhneiging til fákeppni í efnahagslífinu sem skapar skilyrði fyrir samþjöppun valds á hendur fámennra forréttindahópa. Samstaða telur því brýnt að sporna gegn fákeppni og samþjöppun með eflingu lýðræðis, skilvirkari löggjöf og auknu gagnsæi.
Samstaða – flokkur lýðræðis- og velferðar er fjöldahreyfing almennings sem tekur þátt í þróun samfélagsins með virkum lýðræðislegum hætti og upplýstri rökræðu. Frumkvæði, áhugi og þekking einstaklinganna er virkjuð til að skapa betri lausnir. Því leggur Samstaða áherslu á hlutverk frjálsra félagasamtaka og félagshagkerfisins á sviðum velferðarþjónustu og atvinnulífs.
Einstakir málefnaflokkar:
1. Velferðarmál
Samstaða – flokkur lýðræðis- og velferðar vill öflugt norrænt velferðarkerfi sem tryggir almennan rétt til velferðarþjónustu án tekjutengingar. Framlög skulu duga til framfærslu þeirra sem ekki hafa tök á að stunda vinnu eða fá lífeyri vegna skertrar starfsgetu eða aldurs. Rétturinn til vinnu og skyldan til að vinna, eru hornsteinar norræna velferðarkerfisins. Löggjöf samfélagsins og skattkerfið verði notað til að ná fram jöfnuði, samstöðu og sameiginlegum velferðargrunni. Frjáls félagasamtök fái aukið hlutverk í velferðarþjónustunni undir eftirliti hins opinbera. Samstaða leggur áherslu á aðkomu fulltrúa starfsfólks, fagaðila og notenda við stjórnun stofnana og þjónustuaðila. Hagnaðardrifin einkaframkvæmd skal ekki vera fyrsti kostur. Samstaða vill snúa af braut stöðugt hækkandi gjaldtöku undanfarinna ára og þess tvöfalda heilbrigðiskerfis sem þróast hefur á Íslandi.
2. Atvinnumál
Samstaða – flokkur lýðræðis- og velferðar telur rétt allra til atvinnu vera mannréttindi. Hámarka þarf verðmætasköpun með sjálfbærri nýtingu auðlinda þjóðarinnar, nýsköpun og tækniþróun innanlands. Samhliða öflugu atvinnulífi verði byggt upp víðtækt velferðarkerfi sem skapi störf og geri fólki kleift að lifa mannsæmandi lífi. Samstaða vill vinna að þróun fjölþátta hagkerfis, þar sem opinber, samvinnu- og einkarekstur dafni á viðeigandi sviðum. Samstaða leggur einnig áherslu á hlutverk frjálsra félagasamtaka og hagnaðarlausrar starfsemi í atvinnuþróun og atvinnusköpun. Á fákeppnismörkuðum ber samvinnufélögum og hinu opinbera að hafa leiðandi hlutverk. Samstaða vill að á fjármálamarkaði sé einn öflugur banki í eigu ríkisins og neytendur hafi valkosti eins og sparisjóði, þar sem fjárfestingar- og viðskiptabankastarfsemi er aðskilin. Orkufyrirtæki skulu vera í samfélagslegri eigu til að tryggja að arður þeirra renni til almennings og hagsmunir neytenda verði hafðir að leiðarljósi á markaði sem einkennist af fákeppni. Atvinnulýðræði skal þróa innan allra rekstrarforma. Tryggja skal með lögum að lágmarkslaun dugi fyrir eðlilegri framfærslu og hvati til vinnu verði efldur. Sérstök áhersla verði lögð á nýsköpunar- og frumkvöðlastarfsemi lítilla og meðalstórra fyrirtækja vegna mikilvægis þeirra í atvinnusköpun. Samstaða telur brýnt að skýr stefna sé mörkuð varðandi erlenda fjárfestingu. Fjárfestingar sem hámarka verðmætasköpun og tækniþróun innanlands og eru í sátt við umhverfið hafi forgang.
3. Jafnréttis- og mannréttindamál
Samstaða – flokkur lýðræðis- og velferðar berst gegn hvers kyns mismunun ólíkra samfélagshópa. Samstaða berst gegn öllu ofbeldi. Samstaða berst fyrir jafnrétti allra án tillits til búsetu, aldurs, efnahags, tungumáls, arfgerðar, kynferðis, kynhneigðar, skoðana, trúarbragða, trúfélaga, litarháttar,
fötlunar, uppruna eða stöðu að öðru leyti. Samstaða berst fyrir lýðræði og útbreiðslu almennra mannréttinda.
4. Auðlinda- og umhverfismál
Samstaða – flokkur lýðræðis- og velferðar vill vernda náttúru landsins gegn óásættanlegum, óafturkræfum náttúruspjöllum og berjast fyrir vistvænni nýtingu auðlinda og umhverfisvænni framleiðslu- og þjónustustarfsemi. Samstaða telur mikilvægt að stýra nýtingu náttúruauðlinda þannig að ekki sé gengið á rétt komandi kynslóða. Samstaða vill að landið og aðrar auðlindir Íslands verði í eigu landsmanna, enda er það forsenda fullveldis þjóðarinnar. Samstaða vill veita ríkinu forkaupsrétt á landi þegar samfélagslegir hagsmunir krefjast þess m.a. til þess að koma í veg fyrir spákaupmennsku.
Eigendur og notendur lands skulu greiða gjöld af land- og auðlindanotkun til ríkis, sveitarfélaga eða landshlutasamtaka eftir því sem við á.
Samstaða telur brýnt að lög og skipulag sjávarútvegs- og landbúnaðar verði endurskoðuð til að draga úr samþjöppun eignarhalds og tryggja hagsmuni almennings. Við endurskoðun á kvótakerfi sjávarútvegsins vill Samstaða að eftirfarandi markmið verði höfð að leiðarljósi: a) að þjóðinni verði tryggður eignarréttur á auðlindinni, b) að við ákvarðanir um nýtingu nytjastofna eigi að tryggja sjálfbærni og hagkvæmni, c) að þjóðin fái arð af nýtingu auðlindarinnar, d) að allur kvóti verði innkallaður og samningar gerðir um endurúthlutun e) að tekið verði mið af byggðasjónarmiðum ásamt markaðssjónarmiðum við úthlutun kvóta og f) að nýliðun í greininni verði tryggð.
Samstaða vill að gerðir séu samningar um nýtingartíma auðlinda með sjálfbæra nýtingu að leiðarljósi.
5. Svæðamál
Samstaða – flokkur lýðræðis- og velferðar vill í auknum mæli færa starfsemi hins opinbera til sveitarfélaga og landshlutasamtaka og koma á þriðja stjórnsýslustiginu með svæðisþingum til að efla valddreifingu og draga úr miðstýringu. Þessum aðilum verði tryggðir nauðsynlegir tekjustofnar vegna fjölgunar verkefna. Tekjur af auðlindum og svæðisbundinni starfsemi renni í meira mæli til samneyslu og uppbyggingar á viðkomandi svæði. Samstaða vill útrýma samkeppnishamlandi kostnaði vegna fjarlægðar frá markaði með samgönguúrbótum og flutningsjöfnun. Mikilvægt er að stefnumörkun í samgöngumálum taki m.a. mið af umferðaröryggi og umhverfisáhrifum. Samstaða vill leggja áherslu á strandsiglingar sem valkost.
6. Stjórnarfar og lýðræði
Samstaða – flokkur lýðræðis- og velferðar leggur áherslu á að tryggja raunverulega aðgreiningu löggjafarvalds, framkvæmdavalds og dómsvalds. Verði þingmaður ráðherra skal hann víkja af þingi meðan hann gegnir embætti ráðherra. Þingmenn skulu ekki sitja samfellt lengur en í 10 ár og tekur þá varamaður sæti hans. Ráðherrar skulu ekki sitja samfellt lengur en í 8 ár. Hæstaréttardómarar skulu kosnir beinni kosningu meðal þjóðarinnar, enda uppfylli þeir hæfisskilyrði laga.
Samstaða vill að forsetaembættið verði áfram sameiningartákn þjóðarinnar og að forsetinn hafi vald til að vísa lögum til þjóðaratkvæðagreiðslu. Samstaða vill tryggja að almenningur hafi möguleika á að leggja fram frumvörp og að 10% kjósenda ásamt þriðjungi þingmanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök mál. Atkvæði allra landsmanna skulu vega jafnt og framboð geti boðið fram á landsvísu eða í einstökum kjördæmum. Auðvelda á kjósendum að hafa áhrif á röðun frambjóðenda í kosningum.
Samstaða vill að völd almennings verði tryggð eins og best gerist í nágrannalöndunum og sérhagsmunahópar skulu ekki hafa betri aðstöðu en almenningur til að hafa áhrif á skoðanamyndun og stjórnmál, s.s. í fjölmiðlum, stjórnmálaflokkum og hagsmunasamtökum.
7. Efnahagsmál
Samstaða – flokkur lýðræðis- og velferðar vill tryggja að aukin verðmætasköpun skili sér til allra landsmanna og hún sé félagslega og umhverfislega sjálfbær. Mikilvægt er að draga úr sveiflum í hagkerfinu með efnahags- og peningastefnu sem skapar forsendur fyrir trúverðugum gjaldmiðli, stöðugleika og atvinnusköpun. Samstaða telur nauðsynlegt að ríkið grípi til þensluhvetjandi aðgerða þegar einkageirinn fjárfestir ekki vegna ofurskuldsetningar. Stöðugt þyngri skattbyrði á samdráttartímum eins og raun hefur verið á undanförnum árum eykur niðursveifluna og leggst afar þungt á heimili og fyrirtæki. Markmiðið með þensluhvetjandi aðgerðum eins og útgjaldahækkunum og skattalækkunum er að forða hagkerfinu frá því að festast í neikvæðum vítahring stöðugt minnkandi hagvaxtar. Brýnt er að leiðrétta ójafnvægið sem er milli virði eigna og skuldbindinga þjóðarinnar með öðrum hætti en risastórum skuldsettum gjaldeyrisvarasjóði. Ef gjaldeyrisvarasjóðurinn verður notaður til að skipta bóluverðseignum aflandskrónueigenda og kröfuhafa í erlendan gjaldeyri verða byrðar fjármálakreppunnar óbærilegar fyrir meginþorra almennings. Samstaða vill að kannaðir verði hið fyrsta kostir og gallar þess að taka upp gjaldmiðil á mismunandi skiptigengi til að leiðrétta ójafnvægið. Samstaða vill að markmið peningastefnunnar verði ekki aðeins að tryggja efnahagslegan stöðugleika heldur einnig fulla atvinnu og að Seðlabankinn fái tæki til að framfylgja þeim markmiðum.
8. Neytenda-, húsnæðis- og lífeyrissjóðsmál
Samstaða – flokkur lýðræðis- og velferðar vill efla neytendavernd með umbótum á löggjöf til hagsbóta fyrir neytendur, virku eftirliti og öflugri upplýsingamiðlun. Þetta á sérstaklega við um stöðu lántaka, heimila og fyrirtækja gagnvart lánveitendum. Forsendubrestur á lánamarkaði síðustu ára verði leiðréttur með almennri skuldaleiðréttingu. Markmið fasteignalánakerfisins á Íslandi hefur verið að tryggja lágmarksgreiðslubyrði, þannig að allir geti eignast húsnæði. Ókostir slíks kerfis eru að margir lenda í greiðslu- og skuldavanda um leið og breytingar verða í efnahagslífinu eða á einkahögum þeirra. Núverandi fasteignalánakerfi getur því ekki tryggt öllum húsnæðisöryggi. Samstaða telur því brýnt að fjölga búsetuvalkostum þjóðarinnar, þannig að fólk eigi raunverulegt val á milli leigu-, búseturéttar- og eignaríbúða. Samstaða vill að verðtrygging neytendalána verði afnumin og komið verði á norrænu fasteignalánakerfi. Gera þarf skipulagsbreytingar á lífeyrissjóðakerfinu. Samstaða vill að hið opinbera tryggi öllum lífeyrisþegum viðunandi lífeyri án skerðingar (gegnumstreymiskerfi). Til viðbótar greiði fólk í lífeyrissjóði en geti valið í hvaða sjóð er greitt hvort sem er hér á landi eða erlendis. Samstaða vill efla sjóðsfélagalýðræði og gagnsæi í lífeyrissjóðakerfinu.
9. Mennta- og menningarmál
Samstaða flokkur lýðræðis og velferðar vill byggja undir menntakerfið sem eina af grunnstoðum samfélagsins og hlúa að grundvallarmenntun í öllum byggðarlögum landsins. Samstaða vill snúa af markaðsdrifinni skóla- og menntastefnu undanfarandi ára og bæta starfskjör kennara og menntunarskilyrði nemenda. Grunnforsenda jafnréttis til náms er að grunnskólanemendur geti sótt skóla í sinni heimabyggð, framhaldsskólanemendur geti valið á milli sambærilegs úrvals iðn- og bóknámsbrauta og háskólastúdentar sitji við sama borð gagnvart námslánakjörum.
Samstaða telur íslensku vera lykil að fullri þátttöku í samfélaginu og að tryggja beri öllum sem vilja setjast hér að möguleika á menntun í tungumálinu. Skólakerfið gegnir þar lykilhlutverki auk símenntunarstofnana en samstarf þarf að vera á milli varðandi námsleiðir og kröfur auk annarrar samræmingar á því námi sem þar er í boði.
Samstaða vill efla svæðisbundna mennta-, menningar- og vísindastarfsemi. Samstaða vill stuðla að öflugri menningar-, hönnunar- og listastarfsemi, sem einni af mikilvægum forsendum lífsgæða í nútímasamfélagi, með því að gera skapandi einstaklingum kleift að koma undir sig fótunum í íslensku atvinnulífi. Þannig vill Samstaða bregðast við landflótta þeirra, sem ættu að eiga sömu möguleika og aðrar atvinnustéttir, til að skapa sér starfsvettvang og nafn fyrir verk sín.
10. Utanríkismál
Samstaða flokkur lýðræðis og velferðar leggur áherslu á sjálfsákvörðunarrétt þjóða. Ákvarðanir um framsal á fullveldi þjóðarinnar skulu ávallt teknar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Samstaða telur að hagsmunum Ísland sé best borgið utan ESB og hvetur til endurskoðunar EES-samningsins. Samstaða vill efla EFTA og fríverslunarsamninga við aðrar þjóðir.
Samstaða leggur áherslu á samstarf við allar þjóðir og sérstaklega samvinnu við Norðurlöndin á sviði utanríkisþjónustu og þróunaraðstoðar og hvetur til samvinnu við þjóðir við Norður Atlantshaf (Bandaríkin, Kanada, Grænland, Færeyjar, Noreg og Rússland) um öryggismál á hafsvæðinu, umhverfisvernd og nýtingu auðlinda á Norðurheimskautssvæðinu.
Samstaða berst fyrir beinum öflugum stuðningi við fátækar þjóðir heims og beitir sér fyrir því að varið verði a.m.k. einu prósenti af þjóðartekjum til efnahagslega og félagslega sjálfbærrar þróunaraðstoðar. Sérstakur skattur (Tobin skattur) verði lagður á fjármagnsflutninga milli landa til að draga úr óstöðugleika af völdum spákaupmennsku. Skatturinn verði m.a. notaður til að fjármagna þróunaraðstoð. Samstaða er andsnúin landakaupum erlendra auðhringja og spákaupmennsku þeirra og tilburðum til einokunar á hráefnismörkuðum heimsins. Samstaða er andvíg kaupum erlendra auðhringja, sér í lagi á landi fátækra þjóða, sem leiða mun til samþjöppunar og fákeppni í landbúnaðarframleiðslu heimsins og grafa undan möguleikum fátækra landa til að brauðfæða sig þegar til lengri tíma er litið.