Ályktun um verðtryggingu, framfærsluvanda og skuldamál heimilanna
Landsfundur SAMSTÖÐU lýsir yfir miklum áhyggjum af vaxandi vanskilum heimila landsins en
þau eru umtalsvert meiri en í löndum með sambærilega skuldsetningu einkaaðila. Það fjölgar
jafnt og þétt í hópi þeirra sem glíma við alvarleg vanskil og þau úrræði sem innleidd hafa
verið frá hruni hafa engan veginn dugað til. Sum þessara úrræða hafa einungis virkað sem
gálgafrestur og því eru margir einstaklingar og fjölskyldur fyrst nú komnar á ystu nöf m.a.
vegna þess að búið er að ganga á allan sparnað, þ.á.m viðbótarlífeyrissparnað. Úrræði eins
og auknar vaxtabætur er engin lausn á skuldavandanum heldur einungis skyndihjálp vegna
aukins framfærsluvanda heimilanna sem einnig fer ört vaxandi. Sökum þessa alls er er í dag
þörf fyrir mikla lækkun á skuldum heimilanna.
Landsfundur skorar á Alþingi að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa vinnuhóp
óháðra sérfræðinga til að kanna lögmæti verðtryggingar og útfæra almenna leiðréttingu
fasteignaveðlána heimilanna. Þar sem nú þegar liggur fyrir kæra Hagsumasamtaka
heimilanna um lögmæti verðtryggingar skorar landsfundur einnig á Alþingi að sjá til þess
að sú kæra fái flýtimeðferð fyrir dómi. Afnám verðtryggingar á neytendalán og endanleg
niðurstaða í dómsmálum um lögmæti hennar er stærsta hagsmunamál heimilanna í landinu
og áframhaldandi óvissa í þeim málum er ólíðandi.
Landsfundur vill jafnframt benda á leið við almenna leiðréttingu fasteignaveðlána
heimilanna. Leiðrétting fer þannig fram að Seðlabankinn gefur út skuldabréf sem
hann „lánar“ eignarhaldsfélagi sínu. Heimilin fá síðan greiðslu frá eignarhaldsfélagi
Seðlabankans sem nemur leiðréttingunni eða upphæð skuldabréfsins og nota hana til að
greiða niður fasteignaveðlán sín. Eingreiðslan sem hver og einn fær á að duga til að greiða
niður skuldir sem til eru komnar vegna hækkunar vísitölu neysluverðs frá árslokum 2007 og
eru umfram verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands. Skuld eignarhaldsfélags Seðlabankans
við lánastofnanir verður óverðtryggð og greidd niður á 40 árum með skatti á hagnað
lánastofnana.
Landsfundur SAMSTÖÐU ítrekar nauðsyn þess að innleiða í lög lyklafrumvarpið svokallaða,
afnema verðtrygginguna og setja hámark á vaxtastigið í landinu til að bæta skulda- og
greiðsluvanda lántakenda og varna yfirvofandi framfærslu- og skuldakreppu heimilanna.
Ályktun um stöðu bótaþega og annarra sem þurfa á stuðningi velferðarkerfisins að halda
Samstaða flokkur lýðræðis og velferðar vill byggja upp öflugt norrænt velferðarkerfi sem
tryggir almennan rétt til velferðarþjónustu óháð tekjum skjólstæðinganna eða félagslegum
bakgrunni þeirra. Framlög skulu duga til framfærslu þeirra sem ekki hafa tök á að stunda
vinnu eða fá lífeyri vegna skertrar starfsgetu eða aldurs.
Mikilvægt er að velferðarkerfið þjóni tilgangi sínum þannig að millistéttin sjái hag sinn í
því að viðhalda öflugu velferðarkerfi í landinu með greiðslu skatta. Kerfi sem felur í sér
niðurlægjandi ferli þar sem fólk þarf að sanna fátækt sína eða nauð til að fá bætur og
þjónustu er ekki líklegt til að þjóna velferð einstaklingana sem þurfa á stuðningi þess að
halda. Gera þarf nauðsynlegar breytingar á skattkerfi til þess að fjármagna velferðarkerfið.Í
ljósi núverandi aðstæðna þar sem einstaklingar og fjölskyldur eru að missa heimili sín
fyrir aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart bönkunum telur Samstaða brýnt að fjölga
búsetuvalkostum þjóðarinnar, þannig að fólk eigi raunverulegt val á milli leigu-, búseturéttar-
og eignaríbúða.
Samstaða vill að hið opinbera tryggi öllum lífeyrisþegum viðunandi lífeyri án skerðingar
(gegnumstreymiskerfi). Fólki verði gefinn kostur á að greiða í lífeyrissjóði að eigin vali sem
sjái aðeins um ávöxtun viðbótarlífeyris á markaðsforsendum. Slíkt fyrirkomulag tryggir
aðskilnað milli samtryggingar (almannatryggingarkerfið) og viðbótarlífeyrissparnaðar
(lífeyrissjóðir).
Ályktun um aðildarviðræður við ESB
SAMSTAÐA telur afar brýnt að viðræðunum ljúki á þessu ári til að þær skyggi ekki á brýn
kosningamál í næstu alþingiskosningum. Þessi kosningamál eru, að mati SAMSTÖÐU: lausn
á skuldastöðu heimila og smærri fyrirtækja og leið til að afnema gjaldeyrishöftin sem tryggir
almenna velferð og efnahagslegt sjálfstæði landsins
Ályktun um sjávarútvegsmál
Samstaða telur brýnt að lög og skipulag sjávarútvegsins verði endurskoðuð til að draga
úr samþjöppun eignarhalds og tryggja opna og heilbrigða atvinnugrein til framtíðar. Við
endurskoðun á kvótakerfi sjávarútvegsins vill Samstaða að eftirfarandi markmið verði höfð
að leiðarljósi:
– Að þjóðinni verði tryggður eignarréttur á auðlindinni og njóti arðs af nýtingu hennar.
Brýnt er að við ákvarðanir um nýtingu nytjastofna verði sjálfbærni og hagkvæmni höfð að
leiðarljósi.
– Að allar aflaheimildir verði innkallaður og samningar gerðir um nýtingarrétt til þeirra sem
starfa í greininni. Nýtingargjaldið renni í sérstakan sjóð sem í upphafi taki til sín skuldsettar
aflaheimildir, m.a. til að tryggja jafnræði milli þeirra sem hafa skuldsettar aflaheimildir og
þeirra sem fengu þær endurgjaldslaust.
– Við gerð nýtingarsamninga verði tekið mið af rétti sjávarbyggða til sjósóknar og
svæðisbundnar tekjur greinarinnar renni í meira mæli til viðkomandi svæða. Útgerð smábáta
sem m.a. skapar atvinnu í sjávarbyggðum og nýliðun í greininni verði efldar.
Ályktun um svæðisþing
Stefna SAMSTÖÐU flokks lýðræðis- og velferðar hefur frá upphafi verið að færa eigi fleiri
verkefni og tekjur frá ríkinu til sveitarfélaga og landshlutasamtaka og koma eigi á þriðja
stjórnsýslustiginu með svæðisþingum til að efla valddreifingu og draga úr miðstýringu.
Landsfundur vill að skipuð verði nefnd á vegum Alþingis hið fyrsta sem kanni kosti og
galla þess að koma á þriðja stjórnsýslustiginu eða svæðisþingum. Nefndinni verði falið
að meta nauðsynlegar laga- og stjórnarskrárbreytingar ásamt því að koma með tillögur
um tekjustofna og verkefni sem fallið geta undir svæðisþingin. Dæmi um slík verkefni eru
t.d. úthlutun veiðigjalds á viðkomandi svæði, svæðisbundnar atvinnuþróunarstofnanir
og velferðarmál, s.s. ákvarðanataka um málefni sem færð hafa verið til sveitarfélaga og
nauðsynlegt er að taka á svæðisbundið (málefni aldraða og fatlaðra).
Ályktun um aðskilnað peningaprentunar og útlánastarfsemi bankakerfisins
Landsfundur vill að skipuð verði nefnd sérfræðinga sem verði falið að kanna hvernig hægt sé
að tryggja aðskilnað peningamyndunar og útlánastarfsemi bankakerfisins með því að afnema
heimildir bankanna til útlána umfram lausar innistæður.
Í núverandi peningakerfi er innlánsstofnunum heimilt að búa til ígildi peninga með
útlánum umfram innstæður. Í raun er megnið af þeim peningum sem notaðir eru í
almennum viðskiptum rafræn innlán (rafrænn greiðslumiðill?) sem einkabankar hafa búið
til með útlánum umfram innstæður. Aðskilnaður peningamyndunar og útlánastarfsemi
bankakerfisins fari þannig fram að lögum verði breytt til að heimila Seðlabanka einum að búa
til peninga, hvort sem peningarnir eru úr pappír, málmi eða á rafrænu formi.
Með þessari lagabreytingu færast hreinar vaxtekjur (vaxtatekjur af útlánum umfram
vaxtagjöld af innlánum) að miklu leyti til Seðlabankans sem bankar hafa fram til þessa
hagnast af. Aðskilnaðurinn mun gefa Seðlabankanum betri stjórn á peningamagni í umferð
og koma í veg fyrir að bankar búi til eignabólur með útlánastarfsemi sinni.
Mikilvægt er að skoða kosti og galla slíks fyrirkomulags hér á landi til að koma í veg fyrir
annað bankahrun. Nýleg rannsókn sérfræðinga sem starfa hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum
staðfestir að slíkur aðskilnaður skilar þeim ávinningi sem Irving Fisher (1936) fullyrti að þær
myndu gera, þ.e að:
(1) bæta stjórn á meginorsakavaldi hagsveiflna sem er skyndileg aukning og samdráttur
útlána og framboð á peningum sem bankar búa til,
(2) varna bankaáhlaupi,
(3) minnka opinberar skuldir og
(4) draga úr skuldsetningu einstaklinga, þar sem peningamyndun þarf ekki lengur að byggja á
lántöku.
Ályktun um gjaldeyrislán til bjargar fjármagnseigendum á kostnað skattgreiðenda
Mikill þrýstingur er á stjórnvöld að taka erlent gjaldeyrislán til að gera fjármagnseigendum
kleyft að flytja eignir sínar úr landi. Um er að ræða annars vegar aflandskrónur og hins vegar
eignir kröfuhafa gömlu bankanna. Þetta hefur verið kallað “snjóhengjan”.
Snjóhengjan samanstendur m.ö.o. af einkaskuldum sem hafa í raun rýrnað verulega eða
tapast alveg. Þess vegna verður að skrifa niður verðmæti þessara eigna.
Snjóhengjan nemur um 75% af landsframleiðslu eða rúmlega tvöföldum árlegum útgjöldum
ríkissjóðs.
Skipti þessara eigna úr íslenskum krónum í erlendan gjaldeyri mun, án sérstakra aðgerða
af hálfu stjórnvalda, leiða til gengishruns krónunnar og greiðslufalls margra heimila og
fyrirtækja.
Samstaða, flokkur lýðræðis og velferðar hafnar öllum áformum um að leyfa snjóhengjunni að
falla á íslenskan almenning með lántöku.
Upphaflegir eigendur þeirra eigna sem eru rót vandans hafa margir flúið land með fé sitt eða
keyrt ofurskuldsett fyrirtæki sín í gjaldþrot.
Núverandi eigendur þessara eigna eru í mörgum tilvikum erlendir hrægammasjóðir sem
sérhæfa sig í að innheimta kröfur gjaldþrota fyrirtækja sem keyptar hafa verið á hrakvirði.
Lántaka ríkissjóðs í erlendum myntum til að tryggja að fjármagnseigendur verði ekki fyrir
skaða mun hneppa komandi kynslóðir skattgreiðenda í skuldafangelsi og leiða til rýrari
lífskjara um langa framtíð.
Samstaða, flokkur lýðræðis og velferðar hvetur stjórnvöld til þess að grípa til aðgerða sem
taka mið af hagsmunum þjóðarinnar og þeirri staðreynd að snjóhengjan er samansett úr
froðupeningum sem þegar hafa tapað verðmæti sínu að verulegu leyti.
Ályktun um gjaldmiðilskreppuna
SAMSTAÐA kallar eftir áætlun um afnám gjaldeyrishafta sem felur í sér að afskriftum
og skattlagningu verði beitt til að minnka snjóhengjuna verulega. Há skattlagning
snjóhengjunnar til að draga úr útstreymi fjármagns mun brjóta í bága við alþjóðasamninga
og jafnvel eignarrétt eigenda hennar.
Skoða verður upptöku Nýkrónu með mismunandi skiptigengi sem valkost í gjaldmiðilsmálum.
Hrægömmum sem eiga froðukrónur og bólueignir verður boðið að skipta yfir í Nýkrónu á
hrakvirði eða á afar lágu gengi gömlu krónunnar. Ef þeir hafna því þá halda þeir eignarrétti á
gömlu krónunum sínum.
SAMSTAÐA flokkur lýðræðis og velferðar er á því að áframhald sjálfstæðrar gengis- og
peningastefnu tryggi best hagsmuni Íslands á næstu árum. Sjálfstæður gjaldmiðill gerir
stjórnvöldum kleift að bregðast við efnahagsáföllum með gengislækkun sem tryggir að allir
taki á sig byrðar en ekki aðeins þeir sem missa vinnuna. Gengislækkun framkallar m.ö.o.
„launalækkun án blóðsúthellinga“.
Endurskoða verður sem fyrst markmið peningastefnunnar sem m.a. bjó til
snjóhengjuvandann. Í stað verðbólgumarkmiðs á að taka upp markmið um fulla atvinnu og
gengisstöðuleika. Gengisstöðuleiki næst ekki nema með sérstökum sveifluskatti á stórar
fjármagnshreyfingar inn og út úr hagkerfinu og takmörkunum á útlánastarfsemi bankanna.
Ályktun um stöðu skóla- og menntamála
SAMSTAÐA flokkur lýðræðis og velferðar vill byggja undir menntakerfið sem eina af
grunnstoðum samfélagsins og hlúa að grundvallarmenntun í öllum byggðarlögum landsins.
SAMSTAÐA vill snúa af markaðsdrifinni skóla- og menntastefnu undanfarandi ára og bæta
menntunarskilyrði nemenda og kjör þeirra starfsstétta sem vinna að menntunarmálum innan
skólanna.
SAMSTAÐA bendir á að til að reka skynsamlega stefnu í menntamálum þarf að gera skýran
greinarmun á skóla- og menntamálum þar sem rekstur skóla og menntun nemenda er sitt
hvað.
Mikill skortur er á samræmdri stefnu í skólamálum. Sú ákvörðun að færa rekstur grunnskóla
yfir til sveitarfélaga hefur haft þær afleiðingar að skólar hafa verið lagðir niður í dreifðari
byggðum landsins og ógna þar af leiðandi áframhaldandi búsetu á sífellt fleiri stöðum.
Á krepputímum horfir það sérkennilega við að á sama tíma og rekstrarfé rótgróinna
framhaldskóla er skorið niður er umtalsverðum fjármunum varið til uppbyggingar nýrra
framhaldskóla og framhaldsdeilda. Tilfinnanlegt misræmi er líka að finna á núverandi stefnu
og viðhorfum varðandi menntunina sjálfa.
Krafan um niðurskurð í rekstri skólanna hefur bitnað tilfinnanlega á starfskjörum þeirra sem
koma að námi nemenda inni í skólunum. Þar kemur margt til sem grefur ekki aðeins undan
velferð þessara stétta í starfi heldur líka menntuninni sem á að fara fram í skólunum.
Sá markaðsdrifni hugsunarháttur sem einkennir núgildandi skóla- og menntastefnu ógnar
ekki aðeins skólastarfinu heldur kjörum kennaraliðsins líka. Á sama tíma og gerðar eru
auknar kröfur um menntun kennara hafa kjör þeirra rýrnað enn samanborið við aðra
starfshópa með sambærilega menntun.
Vegna aukins atvinnuleysis, einkum meðal ungs fólks, hefur orðið töluverð aðsóknaraukning
bæði í framhalds- og háskóla sem hafa verið undir miklum þrýstingi um að taka við
nemendum jafnvel þótt skólarnir séu þegar orðnir yfirfullir. Þetta hefur haft þær afleiðingar
að einkanlega kennarar hafa mátt búa við launakjör sem eru í engu samræmi við
menntunarkröfur og vinnuálag.
Misvísandi stefnur varðandi rekstur menntastofnana, starfið sem þar fer fram og hvernig
því skuli háttað teflir ekki aðeins vinnuastæðum kennara og menntun nemendanna í hættu
heldur grefur það undan framtíð íslensks þekkingarsamfélags. Við þessu þarf að bregðast
tafarlaust ef ekki á illa að fara.
SAMSTAÐA flokkur lýðræðis og velferðar tekur undir með þeim skólamönnum sem hafa
bent á að fresta innleiðingu nýrra fræðslulaga og leggja frekar fjármunina til viðhalds og
uppbyggingar því sem er fyrir. Þar þarf að taka mið af því að meginverkefnið er að viðhalda
jafnréttinu til náms en grunnforsenda þess er að grunnskólanemendur geti sótt skóla í
sinni heimabyggð, framhaldsskólanemendur geti valið á milli sambærilegs úrvals iðn- og
bóknámsbrauta og háskólastúdentar sitji við sama borð gagnvart námslánakjörum.