Landsfundur 2013: Fundargerð

borði

Kríunesi laugardaginn 9. febrúar frá klukkan 13:10-17:30

1. Fundarsetning:

Lilja Mósesdóttir setur fundinn og fer yfir fundargögn. Notar tækifærið og þakkar Valdísi (Addy) Steinarsdóttur fyrir vinnu hennar við breytingar á samþykktunum.

Stungið upp á  Jóni Kr. Arnarsyni í fundarstjórn og Lilju Mósesdóttur til vara. Rakel Sigurgeirsdóttir í fundarritun.

Talningafólk: Jón Reginbald Ívarsson, Sigurður Árnason og Jón Friðrik Jóhannsson.

2. Jón Kr. Arnarson leggur tillögu að breyttri dagskrá undir fundinn.

Breytingarnar, sem taka mið af breyttum forsendum frá því sem var þegar til fundarins var boðað, samþykktar.

Lilja Mósesdóttir leysir fundarstjóra af

3. Skýrsla stjórnar:

Jón Kr. Arnarson fer yfir störf stjórnar frá síðasta landsfundi. Fer yfir rekstrarreikning ársins 2012.

Jón Kr. Arnarson tekur við fundarstjórn

4. Skýrsla framkvæmdaráðs:

Rakel Sigurgeirsdóttir fer yfir flokksstarfið frá síðasta landsfundi.

5. Almennar stjórnmálaumræður.

Eftirtaldir tóku til máls:

Lilja Mósesdóttir: Fer yfir pólitíska sögu flokksins frá stofnun.

Valdís (Addy) Steinarsdóttir: Lýsir aðkomu sinni að félagsfundinum 15. janúar sl. og svo ástæðum þess að hún og Jónas P. Hreinsson báðu um þann fund. Flytur Lilju Mósesdóttur áskorun frá sér og Bjarna Bergmann um að hún gefi kost á sér til formanns flokksins.

Helga Garðarsdóttir: Rifjar upp viðtöl við Michael Hudson og John Perkins og það sem þeir vöruðu við varðandi innrás efnahagsböðla inn í íslenskt hagkerfi.

Jón Friðrik: Lýsir draumum sínum varðandi SAMSTÖÐU bæði nú og til frambúðar. Skorar á Lilju að gefa kost á sér til formanns flokksins.

Björg Sigurðardóttir: Ber fram spurningu til Lilju varðandi það hvort samstarf milli þeirra sem hafa gengið úr VG hafi aldrei komið til umræðu.

Guðni Karl lýsir yfir áhyggjum sínum yfir því að kjósendur muni ekki hafa neinn valkost í næstu kosningum.

Lilja Mósesdóttir svarar fyrirspurn Björgu Sigurðardóttir.

Helga Garðarsdóttir minnir á að það eru Íslendingar sem vinna fyrir efnahagsböðlana.

Rakel Sigurgeirsdóttir bendir á að það hljóti að vera mikil verðmæti í SAMSTÖÐU miðað við það hve margir hafa lagt sig fram um að eyðileggja hana.

Jónas P. Hreinsson lýsir yfir stuðningi sínum við skiptigengisleið Lilju og eindregnum vilja til að vinna með SAMSTÖÐU.

Ari Sigurjónsson kom alla leið frá Vopnafirði og  lýsir yfir stuðningi við stefnu SAMSTÖÐU. Bendir á skortinn á framtíðarsýn í pólitíkinni.

6. Ákvörðun um framboð:

Addy gerir stuttlega grein fyrir forsendum framboðs. Jón Friðrik, Sigurður Árnason og Helga Garðarsdóttir taka til máls.

Greidd atkvæði um það hvort SAMSTAÐA skuli bjóða fram í alþinginskosningum 27. apríl 2013. Samhljóða álit fundarins að það skuli ekki farið fram.

Kaffihlé

7.  Breytingar á samþykktum.

Valdís (Addy) Steinarsdóttir kynnir tilefni og ástæður breytinganna. Megintilefnið er að samþykktir eða lög flokksins er einn þeirra lykilþátta sem þurfa að vera í lagi.

Tilgangurinn með breytingunum að gera samþykktirnar:

 • skýrari
 • aðgengilegri
 • skilvirkari

Fyrsta skrefið var að breyta uppsetningunni. Miklar betrumbætur gerðar á einstökum greinum (sjá fylgiskjal) Breytingarnar lagðar fram í heild að lokinni kynningu og samþykktar samhljóða.

8. Kosning í trúnaðarstörf .

Kosning til formanns. Lilja lýsir sig reiðubúna til að taka áskorun um að bjóða sig fram til formanns flokksins með því skilyrði að fundurinn samþykki að Rakel Sigurgeirsdóttir verði varaformaður.

Niðurstaðan varð sú að allir sem greiddu atkvæði kusu Lilju.

9. Önnur framboð til stjórnar; fjórir meðstjórnendur og tveir varamenn.

 • Ari Sigurjónsson
 • Björg Sigurðardóttir
 • Eiríkur Ingi Garðarsson
 • Guðni Karl Harðarson
 • Hallgeir Jónsson
 • Helga Garðarsdóttir
 • Jón Kr. Arnarson
 • Jónas P. Hreinsson
 • Rakel Sigurgeirsdóttir
 • Sigurbjörg K. Schiöth

Eftirtaldir voru kjörnir:

Jón Kr. Arnarson
Rakel Sigurgeirsdóttir
Eiríkur Ingi Garðarsson
Jónas P. Hreinsson

Þessir eru varamenn:

Hallgeir Jónsson
Helga Garðarsdóttir

10. Kynning stjórnmála- og málefnaályktana.

Hér í efnisröð með heitum þeirra og flutningsmönnum:

 1. Gagnsætt eignarhald til að tryggja almannahagsmuni (Lilja Mósesdóttir)
 2. Ný stjórnarskrá sem leyfir þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-mál  (Valdís (Addy) Steinarsdóttir)
 3. Stefna hvað varðar eignarhald á orku- og veitufyrirtækjum  (Jón Kr. Arnarson)
 4. Lausn skuldavandans og snjóhengjuvandans  (Lilja Mósesdóttir)
 5. Áskorun landsfundar til stjórnar SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar (Rakel Sigurgeirsdóttir)

11. Afgreiðsla á stjórnmála- og málefnaályktunum:

1. Gagnsætt eignarhald til að tryggja almannahagsmuni

Samþykkt samhljóða.

2. Ný stjórnarskrá sem leyfir þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-mál

Helga Garðarsdóttir leggur til tvær orðalagsbreytingar á fyrstu efnisgreininni. Þær bornar saman undir atkvæði og samþykktar með meiri hluta atkvæða. Ályktunin borin undir atkvæði í heild sinni og hún samþykkt með yfirgnæfandi meiri hluta atkvæða.

3. Stefna hvað varðar eingarhald á orku- og veitufyrirtækjum

Nokkrar umræður urðu um efnið þar sem fram kom að það væri mikilvægt að setja fram stefnu í þessu efni. Helga Garðarsdóttir benti á að fyrsta efnisgreinin væri góð en mætti vera afdráttarlausari. Aðrar efnisgreinar þóttu henni of rúmar. Jón Kr. lagði til orðalagsbreytingu fyrstu efnisgreinarinnar en öðru yrði sleppt.

Tillaga Jóns borin undir atkvæði og hún samþykkt með miklum meiri hluta atkvæða.

4. Lausn skuldavandans og snjóhengjuvandans.

Samþykkt samhljóða.

5. Áskorun landsfundar til stjórnar SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar.

Samþykkt samhljóða. (Sjá fylgiskjal með þessu efni)

12. Ávarp formanns stjórnar.

Lilja Mósesdóttir ávarpar fundinn og þakkar fundargestum bæði traustið og þátttökuna í fundinum. Í ræðu sinni bendir hún á að þegar séu komnar fram hugmyndir um það hvernig megi hafa áhrif án þátttöku í kosningaslagnum framundan og hvetur fundargesti til að taka þátt í starfi flokksins framundan. Minnir á að landsfundur hafi ákveðið að breyta SAMSTÖÐU úr framboðsafli í baráttuafl.

13. Fundi slitið klukkan 17:25.