Samþykktir

Samstöðu flokks lýðræðis og velferðar

I – Heiti og markmið

1. gr.

Samstaða flokkur lýðræðis og velferðar er  stjórnmálaflokkur með lögheimili og varnarþing í Reykjavík.

2.gr.

Samstaða flokkur lýðræðis og velferðar vill byggja á hugmyndafræði samstöðu meðal landsmanna. Flokkurinn er lýðræðissinnuð stjórnmálahreyfing sem vill að forsendur réttlætis, mannúðar og heiðarleika séu ávallt hafðar að leiðarljósi í íslensku samfélagi.

II – Félagsmenn

3.gr.

Félagi í Samstöðu getur hver sá einstaklingur orðið, sem er 16 ára og eldri, sem er fylgjandi málefnastefnu Samstöðu. Einstaklingur sem ekki hefur náð sjálfræðisaldri skal við skráningu framvísa skriflegu samþykki forráðamanns.

4 gr.

Inntökubeiðnir skulu gerðar með rafrænum eða öðrum sannanlegum hætti. Sömu reglur gilda um úrsagnir.

5 gr.

Aðeins fullgildir félagsmenn eiga kosningarrétt og kjörgengi til hvers konar trúnaðarstarfa innan flokksins (þ.á m: landsfund, stjórn, framkvæmdaráð, málefnanefndir og vinnuhópa).

6 gr.

Félagsgjöld eru greidd árlega. Greitt félagsgjald gildir eitt almanaksár. Aðeins sá sem greitt hefur árgjald telst fullgildur.

7 gr.

Fari félagsmaður í framboð fyrir annan stjórnmálaflokk eða stjórnmálasamtök en Samstöðu eða gangi til liðs við annan stjórnmálaflokk eða stjórnmálasamtök með opinberum hætti þá jafngildir það úrsögn úr Samstöðu.

III – Aðildarfélög

8. gr.

Heimilt er að stofna aðildarfélög Samstöðu um land allt.

9. gr.

Sækja skal um stofnun aðildarfélags til stjórnar.

10. gr.

Aðildarfélag þarf að uppfylla eftirtalin skilyrði:

1. Starfa í samræmi við samþykktir Samstöðu.
2. Halda árlega aðalfundi og senda stjórn félagsins skýrslu um aðalfund að honum loknum.

IV – Landsfundur

11 gr.

Landsfundur hefur æðsta vald í málefnum Samstöðu flokks lýðræðis og velferðar. Hann markar stefnu flokksins.

Landsfundur Samstöðu tekur ákvörðun um hvort boðið skuli fram til sveitarstjórnar- og alþingiskosninga.

12. gr.

Fullgildir félagsmenn Samstöðu hafa heimild til setu og atkvæðagreiðslu á landsfundi.

13. gr.

Landsfundur skal haldinn annað hvert ár en oftar ef framkvæmdarráð telur ástæðu til. Framkvæmdarráð boðar til landsfundar, ákveður fundarstað og fundartíma og ákveður dagskrá landsfundar.

Tilkynna skal öllum aðildarfélögum Samstöðu um fyrirhugaðan landsfund minnst tveimur mánuðum  fyrir landsfund svo félögin hafi tækifæri til að koma að tillögum um dagskrá landsfundar. Tillögur félagsmanna skulu sendar framkvæmdaráði með eins mánaðar fyrirvara.

14.gr.

Á landsfundi skal taka fyrir eftirfarandi dagskrárþætti:

1. Skýrslu formanns stjórnar um starfsemi og aðgerðir flokksins frá síðasta landsfundi.
2. Skýrslu formanns framkvæmdarráðs um flokksstarfið frá síðasta landsfundi.
3. Afgreiðslu stjórnmála- og málefnaályktana.
4. Kosningu formanns, fjögurra meðstjórnenda og tveggja varamanna í stjórn flokksins.
5. Félagsgjöld.
6. Breytingar á samþykktum og öðrum reglum.

15. gr.

Samþykki landsfundar þarf til að taka á dagskrá mál sem framkvæmdaráð hefur ekki lagt fyrir fundinn.

16.gr.

Í kosningum á landsfundi ræður einfaldur meirihluti ef ekki er öðruvísi ákveðið í samþykktum þessum.

Formaður telst rétt kjörinn hljóti hann meirihluta atkvæða.

17. gr.

Landsfundur getur tekið ákvörðun um að breyta markmiðum og samþykktum félagsins ef ekki næst að kjósa fullmannaða stjórn flokksins.

V – Stjórn

18. gr.

Stjórn Samstöðu er skipuð 5 aðalmönnum og 2 varamönnum. Stjórn skiptir með sér verkum og setur sér verklagsreglur. Stjórnarseta skal vera ólaunuð.

19. gr.

Að stjórna daglegri starfsemi flokksins í samræmi við samþykktir þessar og samþykktir landsfunda.

20. gr.

Stjórnin ber ábyrgð á fjárreiðum Samstöðu, skuldbindingum hennar og fullnustu þeirra. Stjórn er heimilt að ráða eða skipa í tímabundin verkefni á vegum flokksins.

21. gr.

Til að ákvarðanir stjórnarfundar séu lögmætar skal að lágmarki 3/5 hluti stjórnar sitja fundinn.

VI – Framkvæmdaráð

22. gr.

Framkvæmdaráð er skipað 9 fulltrúum auk þingmanna flokksins. Í framkvæmdaráði eiga sæti formaður stjórnar, tveir stjórnarmenn og einn fulltrúi úr hverju kjördæmi. Kjördæmisráð skipar aðal- og varamann sem tilkynntir eru félagsmönnum á landsfundi. Forfallist aðalfulltrúi tekur varafulltrúi sæti hans.

23. gr.

Á fyrsta fundi nýkjörins framkvæmdaráðs skulu fulltrúar velja úr röðum sínum formann, varaformann og ritara framkvæmdaráðs og setja sér verklagsreglur.

24. gr.

Formaður framkvæmdaráðs boðar fundi og stýrir þeim.

25. gr.

Hlutverk framkvæmdaráðs er:

1. Að annast tengsl við aðildarfélög, nefndir og vinnuhópa.
2. Vinna að eflingu flokkstarfs um land allt.
3. Að taka ákvörðun um samvinnu við hagsmunasamtök og önnur stjórnmálasamtök að fengnu samþykki félagsfundar/landsfundar.

VII – Kjördæmisráð

26. gr.

Landsfundur kýs á fjögurra ára fresti kjördæmisráð sem skulu skipuð 5 fulltrúum í hverju kjördæmi.

27. gr.

Ef ekki tekst að manna kjördæmisráð á landsfundi skal framkvæmdaráð skipa 3-5 fulltrúa í þau.

28. gr.

Kjördæmisráð kýs úr sínum hópi formann, varaformann og ritara. Ráðið hefur heimild til að skipa nefndir og vinnuhópa.

29. gr.

Hlutverk kjördæmisráða er að hafa umsjón með sameiginlegum flokksmálum í hverju kjördæmi og ber gagnvart stjórn og framkvæmdaráði ábyrgð á því að flokkskerfið í viðkomandi kjördæmi sé í samræmi við samþykktir Samstöðu. Aðildarfélögum ber að veita kjördæmisráðum upplýsingar um félagatölu og önnur þau atriði sem kjördæmisstjórn er nauðsynlegt að vita um til þess að geta gegnt hlutverki sínu.

30. gr.

Kjördæmisráð hefur umsjón með því að setja saman framboðslista til Alþingis og sveitarstjórna. Til þess að listi sé lögmætur þarf meirihluti fundarmanna að samþykkja skipan hans. Skylt er að hafa leynilega atkvæðagreiðslu ef þess er óskað. Staðfestingar landsfundar þarf á framboðslistum.

VIII – Um val á framboðslista

31. gr.

Framkvæmdaráð flokksins setur reglur um mögulegar aðferðir við val á framboðslista vegna framboða til Alþingis og sveitarstjórna.

32. gr.

Ákvörðunarvald um aðferð við val á framboðslista er í höndum kjördæmisráðs við framboð til alþingis- og til sveitarstjórnarkosninga.

33. gr.

Fari ekki fram prófkjör skal kjördæmisráð hafa umsjón með uppstillingu á framboðslista. Uppstilling kjördæmisráðs skal þá lögð fyrir landsfund til samþykktar.

IX – Alþingis- og sveitarstjórnarkosningar

34. gr.

Hlutverk frambjóðenda til alþingis- og sveitarstjórnarkosninga er að koma fyrirliggjandi stefnumálum Samstöðu á framfæri.

35. gr.

Stjórn flokksins er heimilt að ráða kosningastjóra ákveði félagsmenn á landsfundi að bjóða fram til alþingis- og sveitarstjórnarkosninga.

36. gr.

Allir kjörgengir félagar Samstöðu geta gefið kost á sér á framboðslista. Kjördæmisráð auglýsir eftir framboðum.

X – Þingmenn Samstöðu

37. gr.

Hlutverk þingmanna er að vinna að stefnumálum Samstöðu á Alþingi og fylgja eftir ákvörðunum landsfundar.

**
XI – Sveitarstjórn**

  1. gr.

Hlutverk kjörinna fulltrúa í sveitarstjórn er að vinna að stefnumálum Samstöðu í málaflokkum sem falla undir sveitarstjórn.

39. gr.

Aðal- og varamenn Samstöðu í sveitarstjórnum hverju sinni mynda sveitarstjórnaráð. Bæjar- eða sveitarstjóri sem er félagi í Samstöðu á einnig aðild að ráðinu. Sveitarstjórnaráð heldur aðalfund á fjögurra ára fresti, að loknum sveitarstjórnarkosningum, og kýs sér þá 5 manna stjórn. Ráðið setur sér sjálft starfsreglur.

40. gr.

Kjörnir fulltrúar Samstöðu í sveitarstjórn skulu vinna náið með stjórn, framkvæmdaráði og aðildarfélögum Samstöðu í hverju kjördæmi og vera í tengslum við grasrótarsamtök sem tengjast málaflokkum sem flokkurinn vill beita sér fyrir.

XII – Fjármögnun

41.gr.

Öll framlög til framboðsins skulu í einu og öllu fylgja lögum um fjármál stjórnmálasamtaka.

XIII – Félagsslit

42. gr.

Ákvörðun um að leggja flokkinn niður skal tekin af tveimur landsfundum í röð og samþykkt af 2/3 hluta landsfundarfulltrúa á báðum. Um ráðstöfun eigna verður farið samkvæmt samþykkt seinni fundarins.

43. gr.

Verði félaginu slitið skal félagið gert upp. Verði einhverjar eigur eftir í félaginu þá skal þeim ráðstafað til góðgerðarmála eða samfélagsumbóta.

XIV – Breytingar á samþykktum

44. gr.

Samþykktum Samstöðu má aðeins breyta á landsfundi. Breytingartillaga telst samþykkt ef hún hlýtur 2/3 greiddra atkvæða á landsfundi

45. gr.

Tillögur til breytinga á samþykktum þessum skulu sendar framkvæmdaráði viku fyrir landsfund.

Samþykktar á landsfundi að Kríunesi þ. 9. febrúar 2013