Staða geðheilbrigðismála óviðunandi

Categories
Fréttir

Ungliðahreyfing SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar sendi frá sér svohljóðandi ályktun í fréttatilkynningu á alla fjölmiðla í morgun:

Skerpa – Ungliðahreyfing Samstöðu harmar það ástand sem nú ríkir í geðheilbrigðismálum ungmenna hér á landi. Biðlistar eftir vistun hjá Barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL) hafa verið að lengjast að undanförnu og nú bíða tæplega 90 börn eftir að komast að. Biðin getur verið löng eða allt upp í rúmlega ár. Bráðaþjónusta er þó yfirleitt veitt samdægurs en við teljum það óviðunandi ástand að þeir sem þarfnast þjónustu deildarinnar þurfi að vera komnir á það stig veikinda til þess að fá viðeigandi aðstoð.

Stjórnarliðar Skerpu minna ríkisstjórnina á sóknaráætlun hennar sem kveður á um að lækka skuli hlutfall íbúa með 75% örorku úr 7,3% niður í 5,7% fyrir árið 2020. Mikil fjölgun hefur orðið á öryrkjum hér á landi seinustu ár og er meginástæðan rakin til fjölgunar einstaklinga sem glíma við geðræn vandamál. Við teljum því afar ólíklegt að stjórnvöld nái að uppfylla þetta markmið á meðan ekki er staðið betur að geðheilbrigðismálum.

Við höfum skilning á að fjárhagsstaða ríkisins sé erfið en að okkar mati hefur niðurskurðurinn verið alltof einhliða. Niðurskurður í heilbrigðis- og velferðarmálum hefur verið of mikill og við óskum eftir því að meint velferðarstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur forgangsraði skynsamlegar svo betur megi hlífa þjónustu af þessu tagi. Á sama tíma og auðmenn fá hunduðir milljarða afskrifaða er lífi og heilsu barna, sem þurfa á þjónustu BUGL að halda, ógnað með slíkri forgangsröðun. Sitjandi ríkisstjórn hefur sýnt það í verki að fjármálaelítan skiptir hana meira máli en velferð uppvaxandi kynslóðar og þykir okkur það mjög miður.

Fyrir hönd samþykkra stjórnarmeðlima Ungliðahreyfingar SAMSTÖÐU – Skerpu

– Hallgeir Jónsson, varaformaður.