Tækifæri kjósenda

Categories
Fréttir

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með viðbrögðum fjölmiðla og fleiri við yfirlýsingu núverandi formanns, Lilju Mósesdóttur, um að hún ætli ekki að gefa kost á sér til formanns á fyrsta landsfundi flokksins sem verður haldinn 6. október n.k. Þar fá félagsmenn SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar í fyrsta skipti tækifæri til að kjósa flokknum stjórn en sú sem situr núna er bráðabirgðastjórn sem var skipuð af stofnendum flokksins.

Langflestir fjölmiðlar fjölluðu um yfirlýsingu núverandi formanns af metnaðarfullri vandvirkni og birtu þannig yfirlýsinguna í heild eftir að hafa vísað í einhverjar þeirra meginástæðna sem Lilja gerir vandlega grein fyrir að liggi að baki ákvörðuninni. Þar sem það má gera ráð fyrir að þeir sem hafa fylgst grannt með SAMSTÖÐU fram að þessu hafi kynnt sér umfjöllun í fjölmiðlum sl. fimmtudag verða engin dæmi tínd saman þaðan en sjálfsagt að nota tækifærið og þakka þeim sem eiga vinnuna á bak við vandaðan fréttaflutning þess dags.

En það eru fleiri en fjölmiðlar sem hafa fjallað um þá ákvörðun Lilju Mósesdóttur að gefa ekki kost á sér í formannssæti SAMSTÖÐU. Hér á eftir verður vitnað í viðbrögð tveggja formanna aðildafélaga SAMSTÖÐU og nokkra sem hafa lagt til baráttunnar að breyttu samfélagi sem „byggir á siðferðilegum forsendum réttlætis, mannúðar og heiðarleika“ (tekið úr grundvallarstefnuskrá SAMSTÖÐU).

Birgir Örn Guðjónsson, formaður SAMSTÖÐU í Kraganum, skrifaði eftirfarandi á Fésbókarsíðu sína við krækju á frétt mbl.is sama dag og yfirlýsing núverandi formanns birtist í fjölmiðlum:

„Ég tek ofan fyrir Lilju. Hún er hér að gera hluti sem þekkjast því miður ekki nógu vel í stjórnmálum. Þ.e að taka verk og störf fram yfir völd og titla. Með því að halda áfram að starfa innan flokksins en stíga til hliðar sem formaður og gefa öðrum kost á því að taka það að sér er Lilja að sýna í verki að hún er samkvæm sjálfri sér.

Stjórnmálamenn eiga nefnilega að starfa fyrir fólkið í landinu, ekki fyrir rassinn á sjálfum sér. Ég vona að þetta skref Lilju fái fólk kannski til þess að hugsa sjálfstætt og þora að fylkja sér bak við ný framboð. Það er ekki nóg að segjast vilja breytingar en kjósa svo alltaf af gömlum vana. Við verðum að þora!

Ég vil svo skora á alla þá sem hafa verið að fylgjast með Samstöðu á hliðarlínunni að hafa samband og stíga með mér og öllum hinum inn á völlinn. Það er mikið verk að vinna og það vinnst með Samstöðu okkar allra. Áfram Ísland;)“

Jóhannes Þór Skúlason, sem margir ættu að muna eftir sem einum ötulasta liðsmanni InDefence en er nú aðstoðarmaður formanns Framsóknarflokksins, lagði líka til umræðunnar inni  á sinni Fésbókarsíðu sama dag og yfirlýsingin birtist. Eftirfarandi setti hann við krækju á frétt af eyjan.is um ákvörðun Lilju Mósesdóttur:

„Yfirlýsing Lilju Mósesdóttur í dag er óvænt en mergjuð. Ekki síst þessi kafli: “Skortur á sýnileika og takmörkuð samskipti við kjósendur koma í veg fyrir að ný framboð nái nógu miklu fylgi til að verða ráðandi afl í íslenskri pólitík. Ný stjórnmálasamtök eru því dæmd til áhrifaleysis að afloknum kosningum og geta hvorki tryggt að stefnumálin nái fram að ganga né að eldmóður, þekking og reynsla kjörinna fulltrúa þeirra nýtist á þingi. Flokkar sem ekki hafa valdastöðu til að breyta ríkjandi valdakerfi samfélagsins verða því aðeins vettvangur fyrir reiði almennings og um leið tæki blekkingarinnar um að hægt sé að ná fram breytingum með nýju stjórnmálaafli.”“

Gunnar Skúli Ármannsson er núverandi félagsmaður í Dögun en margir kannast væntanlega við hann fyrir bloggskrif og önnur verkefni í þágu réttlátara samfélags. Hann gerir umrædda yfirlýsingu núverandi formanns SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar meðal annars að umræðuefni í bloggfærslu síðastliðins föstudags sem hann birtir á bloggsvæði sínu á Eyjublogginu. Þar segir hann:

„Að Lilja Mósesdóttir velji að vera ekki formaður Samstöðu hefur komið því til leiðar að sumir hafa sett niður penna til að rita grafskrift Samstöðu. Ef það eitt og sér dugir til þá er ekki mikið í íslenska pólitík spunnið. Að koma nýju stjórnmálaafli á kortið er meira en að segja það og væntanlega eru þingstörf talin full vinna.

Mér finnst þetta bara ofur eðlilegt og skynsamlegt, hvers vegna ekki að kalla fleiri til starfa á þennan hátt í stað þess að hrekja alla af hólnum eins og gerist í fjórflokknum. Fjölmiðlamenn eru svo vanir því að gjöf skal gjalda að þegar stóllinn er gefinn eftir að hætti móður Theresu þá vita þeir ekki hvaðan á sig stendur veðrið.“

Ómar Geirsson er þekktastur af bloggskrifum sínum inni á Moggablogginu en hefur líka verið ötull talsmaður Norðfjarðarganga. Hann er ekki eins bjartsýnn og aðrir sem vísað er í hér en í bloggpistli sem hann birti á bloggvettvangi sínum í gær minnir hann á fyrir hvað Lilja Mósesdóttir hefur skapað sér sérstöðu frá því hún var kjörin inn á þing:

„Fylgi er afleiðing stefnu og trúverðugleika, trúverðugleika sem Lilja gaf Samstöðu.  Trúverðugleika meðal almennings sem hún ein hefur af öllu því góða fólki sem berst gegn óhæfu valdsins að ætla sér að skuldaþrælka börnin okkar um ókomna tíð. Trúðverðugleika  sem Lilja ávann sér með því að þora að rísa upp gegn valdinu, eitthvað sem engin önnur persóna innan þess hefur þorað eða gert.  Og vegna þess að hún er sjálfum sér samkvæm í einörðum málflutningi sínum í þágu heimila landsins og í þágu framtíðar barna okkar.“

Rakel Sigurgeirsdóttir, formaður SAMSTÖÐU-Reykjavík, birti bloggfærslu á bloggsvæði sínu á Moggablogginu þar sem hún gerir stuttlega grein fyrir ástæðu þess að hún gekk til liðs við SAMSTÖÐU og fyrstu viðbrögðum sínum við yfirlýsingu Lilju Mósesdóttur. Hún tekur fram að ákvörðun núverandi formanns flokksins hafi verið rædd á stjórnarfundi aðildarfélags Reykjavíkur sem hafi leitt til þeirrar niðurstöðu:

„að taka áskorun stjórnar flokksins um að fjölmenna á landsfundinn þann 6. október n.k. með von um að fleiri, sem hafa trú á því að með samstilltu átaki megi takast að byggja upp öflugt og traustverðugt stjórnmálaafl, geri slíkt hið sama. Það kostar vinnu en með samstöðu er allt hægt!“

Áskorunin sem vísað er til birtist í fréttatilkynningu frá bráðabirgðastjórn flokksins sem var send út sama dag og yfirlýsing núverandi formanns var gerð opinber. Þar eru allir félagsmenn og stuðningsfólk SAMSTÖÐU hvatt „til þess að taka þátt í landsfundi og gefa kost á sér til starfa.“ (sjá hér) Nú er að sjá hvort kjósendur taki áskoruninni og fjölmenni á landsfundinn til að kjósa stjórn sem hefur umboð félagsmanna flokksins til að leggja upp í kosningaveturinn framundan.