Þegar fjölmiðlarnir bregðast taka samfélagsmiðlarnir við

Categories
Fréttir

Það hefur væntanlega vakið athygli einhverra hversu lítið hefur verið fjallað um  SAMSTÖÐU flokk lýðræðis og velferðar í fjölmiðlum. Þrátt fyrir að það séu bráðum átta mánuðir frá því að stofnun hans var gerð opinber á blaðamannafundi í Iðnó eru þeir sennilega einhverjir sem vita ekki einu sinni af tilvist hans. Svo eru þeir nokkrir sem hafa ekki náð því enn að SAMSTAÐA er töluvert miklu meira en eins manns flokkur.

Fyrir þessu eru auðvitað fleiri en ein ástæða en þó er ljóst að alltof margir fjölmiðlar sneiða, að því er virðist, meðvitað hjá því að taka nokkuð það til umfjöllunar sem vakið gæti athygli á SAMSTÖÐU. Á þessu eru vissulega örfáar undantekningar en þó er ekki hægt annað en taka undir með þessu sem Lilja Mósesdóttir setti fram í yfirlýsingu sinni frá 23. ágúst þar sem hún kunngerði þá ætlun sína að gefa ekki kost á sér til formanns á landsfundi flokksins sem fyrirhugað er að halda 6. og 7. október n.k. Í yfirlýsingunni segir hún m.a:

Ný stjórnmálasamtök gætu rutt fjárhagshindruninni úr vegi ef þau hefðu greiðari aðgang að kjósendum í gegnum fjölmiðla. Ég taldi þetta mögulegt þegar við stofnuðum SAMSTÖÐU en reynslan hefur sýnt annað. Fjölmiðlar halda ríkisstyrktu flokkunum kerfisbundið á lofti en hafa lítinn áhuga á starfi þingmanna í nýjum framboðum og vilja yfirleitt ekki taka viðtöl við „óþekkta“ liðsmenn nýrra stjórnmálasamtaka. Það er því nánast ógerningur að koma á framfæri upplýsingum um stefnu og fulltrúa slíkra flokka til almennings. Margir óttast líka ómálefnalega og óvægna umræðu um skoðanir sínar og einkahagi í fjölmiðlum og vilja því síður ganga til liðs við ný framboð sem ekki hafa aðgang að áhrifaríkum fjölmiðli.

Það er því miður staðreynd að nær allir fjölmiðlar landsins hafa hundsað fréttatilkynningar um fréttnæma viðburði á vegum flokksins eins og framhaldsfundaröðina um fjármálastefnuna og framtíðina, fæstir hafa birt greinar frá flokksmeðlimum og margir láta sem þingmaðurinn í flokknum sé ekki til. Við þessum aðstæðum er fátt annað að gera en virkja og treysta á samfélagsmiðlana.

Þessi heimasíða SAMSTÖÐU var kynnt á blaðamannafundinum sem haldinn var í Iðnó í byrjun febrúar og ljóst að þeir eru alltaf fleiri og fleiri sem fylgjast grannt með henni. Vakin er athygli á því að með því að smella á RSS-áskriftarhnappinn, sem er hér ofarlega til hægri, er tryggt að lesendur missa ekki af því þegar fréttir og greinar eru settar hingað inn.

Um svipað leyti var sett upp Facebook-síða sem er töluverð umferð um alla daga og svo setti SAMSTAÐA  upp svæði á You Tube fyrir myndbönd. Þar eru nú þegar myndband frá blaðamannafundinum og erindum þeirra: Frosta Sigurjónssonar, Jóns Helga Egilssonar, Dr. Sigurðar Hannessonar og Lilju Mósesdóttur frá síðasta fundi framhaldsfundaraðarinnar um fjármálastefnuna og framtíðina. Þar er ljóst að fyrirlestur Frosta og Lilju hafa fengið mestu athyglina en erindi hinna eru ekki síður merkileg. Einkum er ástæða til að vekja athygli á erindi Jóns Helga um bankastefnu undangenginna áratuga og afleiðingar hennar.

Fréttabréfi flokkins, Samstöðufréttum, var hleypt af stokkunum í lok mars. Frá byrjun hefur það verið sent út á félagsmenn með tölvupósti. Fyrst á hálfsmánaðarfresti en nokkuð stopulla eftir miðjan júní. Regluleg útsending þeirra fer varla af stað aftur fyrr en eftir landsfundinn nú í byrjun október. Til að komast á tölvupóstlista Samstöðufrétta þarf að ganga í flokkinn (hér) og skrá tölvupóstfang. Fyrstu fréttabréfin má líka nálgast hér að ofan undir „UMRÆÐA“.

SAMSTAÐA flokkur lýðræðis og velferðar er líka á Twitter sem nýlega hefur verið virkjað. Lilja Mósesdóttir er líka byrjuð að „tweeta“ auk þess sem hún hefur verið afar virk við að nota Fésbókarvettvang sinn til að leggja til samfélagsumræðunnar og þá aðallega þeirra þátta sem snúa að hennar sérfræðisviði; þ.e. efnahagsumræðunnar. Formaður aðildarfélagsins í Reykjavík er líka nokkuð virkur á báðum miðlum.

Formaður aðildarfélags SAMSTÖÐU í Kraganum, Birgir Örn Guðjónsson, leggur einnig gjarnan til umræðunnar á sínum vegg og þá aðallega varðandi það sem snýr að kjörum og/eða stöðu kjósenda gagnvart stjónmálunum. Reyndar eru langflestir stjórnarfulltrúar flokksins, aðildarfélaganna og ungliðahreyfingarinnar á Facebook þó þeir séu mjög misvirkir í að tjá sig um pólitíkina á þeim vettvangi en nokkrir þeirra eru líka með blogg.

Virkir bloggarar meðal stjórnarmeðlima voru kynntir hér. Einn þeirra er Hallgeir Jónsson, sem er varaformaður, Skerpu – Ungliðahreyfingar SAMSTÖÐU en Skerpa er líka með síðu á Facebook.

Af ofantöldu er ljóst að allir þeir sem vilja fylgjast með verkefnum SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar, ásamt því sem leiðtogar hans leggja til umræðunnar, verða að treysta á hina ýmsu samfélagsmiðla. A.m.k. á meðan langflestir aðrir fjölmiðlar landsins halda áfram að hundsa það sem frá flokknum og meðlimum hans kemur.