Samstaða um auðlindarentu til heimabyggðar

Categories
Greinar og viðtöl

Kristinn Snævar Jónsson skrifar:

Samstaða í heimabyggð eflir nærsamfélagið. Eðlilegt er að hinar dreifðu byggðir landsins njóti afraksturs sameiginlegra auðlinda landsmanna á hverju svæði að hluta til með beinum hætti til uppbyggingar og eflingar atvinnulífs og mannlífs þar. Hér er ekki aðeins um að ræða veiðigjald af sjávarútvegi heldur og rentu af öðrum auðlindum sömuleiðis, svo sem orku.

Með því að tiltekinn hluti auðlindarentunnar sé eyrnamerktur viðkomandi byggðarlögum eða landshlutum yrði rennt styrkari stoðum undir ríkari þátttöku sveitastjórnastigsins í úrlausnum sameiginlegra verkefna á vegum hins opinbera. Arður af sameiginlegum auðlindum færi þá ekki alfarið í „hít“ ríkissjóðs þar sem skipting arðsins er að fullu háð úthlutunarvaldi „að sunnan“, sem hingað til hefur oft verið vænd um að hygla höfuðborgarsvæðinu á kostnað landsbyggðar í stóru og smáu.