Pálmey H. Gísladóttir ávarpar landsmenn

Categories
Fólkið

Pálmey H. Gísladóttir er annar varaformanna SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar. Hér ávarpar hún kjósendur og aðra landsmenn og hvetur þá til að gefa þeim alþingismönnum sem hafa brugðist hagsmunum þeirra frí í næstu kosningum.

Í ávarpi sínu segir Pálmey að hún hafi kynnst uppsögnum og atvinnuleysi undanfarandi ára, svefnlausum nóttum og áhyggjum yfir komandi degi ásamt endalausum starfsumsóknum sem ekki hafi verið virtar svars. Hún segir frá því að hún hafi upplifað það að vera einskis metin fyrir það að vera ekki talin með en svo kom að því að hún tók afstöðu um það að standa með sjálfri sér og reyna að vekja aðra til að gera það sama.

Hún segir: „SAMSTAÐA er tækifæri til breytinga. Við þurfum að láta í okkur heyra. Við þurfum að láta vita að það er komið nóg. Við þurfum að setja okkur skýr markmið.“ Pálmey bendir á að það þurfi úrlausn í atvinnu- húsnæðis- og fjármálum heimilanna. Breytingar til úrbóta í málefnum fatlaðra, aldraðra og þeirra sem eru verst settir í samfélaginu. Í framhaldinu segir hún að það ættu að vera sjálfsögð mannréttini að hafa þak yfir höfuðið, næga atvinnu og geta brauðfætt sig og sína og bætir því við að það þurfi að halda landinu í byggð.

Í kjölfarið segist hún vera sannfærð um að þetta sé eitthvað sem ætti að vera hægt að hrinda í framkvæmd ef landsmenn taki sig saman og myndi samstöðu um það að standa með sjálfum sér og þjóðinni. Þá segist hún heyra daglega af fólki sem er að missa húsnæðið sitt, vinnuna sína og fyrirtækin sín. Hún segist heyra það líka daglega að alþingismenn séu að hrósa sér af afrekum sínum en bendir á að þessir sömu setji peninga skattgreiðenda í einhver gæluverkefni og ætlist samt til þess að kjósendur kjósum þá aftur.

Í lokin segir Pálmey að hún hafi ákveðið að standa með sjálfri sér og öðrum landsmönnum og gefa þessum frí í næstu kosningum. Hún skorar á aðra að taka afstöðu og gera það sama.