SAMSTAÐA hefur skipað kynningar- og tengslafulltrúa

Categories
Fólkið Fréttir

Rakel Sigurgeirsdóttir hefur verið skipaður kynningar- og tengslafulltrúi SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar. Skipunin gildir út janúar á næsta ári. Fulltrúahlutverk hennar er ólaunað eins og önnur verkefni innan SAMSTÖÐU.

Rakel gekk til liðs við flokkinn um miðjan febrúar. Á félagsfundi sem haldinn var þann 12. mars var hún kjörin formaður aðildarfélags SAMSTÖÐU í Reykjavík. Allt frá stofnun hefur félagið verið mjög öflugt í að standa fyrir fundum og öðrum opnum viðburðum sem hafa þann tvíþætta tilgang að kynna stefnu SAMSTÖÐU og opna félögum og fleirum aðgengi að forystu flokksins.

Áður en Rakel gekk til liðs við SAMSTÖÐU hafði hún tekið virkan þátt í viðspyrnunni. Fyrst á Akureyri og síðar í Reykjavík. Á Akureyri byrjaði hún á að taka þátt í mótmælagöngum þar haustið 2008 og átti síðar sæti í borgarafundanefnd sem skipulagði reglulega fundi tvo fyrstu veturna eftir hrun. Eftir að hún flutti til Reykjavíkur hefur hún síst dregið af í viðspyrnunni.

Hún var einn aðalskipuleggjandi Tunnumótmælanna haustið 2010 og var í hópi kjosum.is sem safnaði undirskriftum til að krefjast þjóðaratkvæðagreislu um Icesave-samninginn fyrri hluta árs 2011. Eftir það hélt hún áfram í Samstöðu þjóðar gegn Icesvave þar sem hún stóð að framleiðslu myndbandasyrpunnar: Af hverju NEI við Icesave? Frá haustinu 2011 lagði hún hönd á plóg við uppbyggingu Grasrótarmiðstöðvarinnar þar sem hún stóð m.a. fyrir reglulegum laugardagsfundum. Auk þessa stýrði hún undirbúningi og framkvæmd tveggja borgarafunda sem haldnir voru síðastliðinn vetur í Háskólabíói um lánamál heimilanna.

Rakel starfaði áður með Hreyfingunni. Hún var fimmta á lista Borgarahreyfingarinnar í Norðausturkjördæmi í alþingiskosningunum 2009. Varamaður í stjórn Hreyfingarinnar frá haustinu 2009 og í stjórn hennar frá júní 2011. Hún sagði sig frá henni í október það sama ár.

Rakel er með BA-próf í íslensku og fjölmiðlafræði og eins árs viðbótarnám í hagnýtri fjölmiðlun. Hún starfaði eitt ár á svæðisútvarpi Norðulands en frá útskrift frá Háksóla Íslands hefur hún lengst af verið framhaldsskólakennari. Núverandi starf Rakelar er íslenskukennsla fyrir útlendinga.

Sem kynningar- og tengslafulltrúi SAMSTÖÐU mun Rakel annast ritsjórn heimasíðunnar og önnur kynningar- og tengslmál SAMSTÖÐU auk verkefnisstjórnunar ýmissa skyldra verkefna á vegum flokksins.