Kynning á nýrri stjórn SAMSTÖÐU

Categories
Fólkið

Birgir Örn Guðjónsson vill fyrst og fremst kalla sig eiginmann og föður en hann er einnig lögreglumaður hjá Lögreglunni á Höfuðborgarsvæðinu og formaður Samstöðu flokks lýðræðis og velferðar. Hann hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum innan lögreglunnar. Einnig hefur hann komið að margs konar félags- og æskulýðsstarfi í gegnum tíðina.

Birgir hefur m.a. vakið athygli fyrir greinaskrif sín þar sem hann fjallar á einlægan hátt um framtíð fjölskyldnanna á Íslandi og þörfina fyrir alvöru lausnum. Birgir hafði ekki tekið þátt í starfi stjórnmálaflokks áður en hann gekk til liðs við SAMSTÖÐU fyrr á þessu ári. Hann var kjörinn formaður SAMSTÖÐU í Kraganum á stofnfundi aðildarfélags í Suðvesturkjördæmi 16. mars sl. og formaður flokksins þann 6. október.

Pálmey Gísladóttir er menntaður lyfjatæknir en vinnur sem móttökuritari hjá Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins í Kópavogi. Pálmey er annar varaformaður SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar. Hún hefur starfað með Líonshreyfingunni Fold í 18 ár þar sem hún hefur gengt ýmsum embættum. Í vetur gegnir hún formennsku Foldar í annað skiptið.

Pálmey á sæti í sóknarnefnd Grafarholtssóknar. Hún hefur setið í stjórn VR og var varamaður í stjórn Mímis – Símenntunar í eitt ár. Pálmey hafði ekki tekið þátt í starfi stjónmálaflokks áður en hún gekk til liðs við SAMSTÖÐU fyrr á þessu ári. Hún var kjörinn í stjórn SAMSTÖÐU-Reykjavík á stofnfundi aðildarfélags í Reykjavíkurkjördæmi 12 mars sl. og annar varaformaður flokksins þann 6. október.

Sigurbjörn Svavarsson er annar varaformanna SAMSTÖÐU. Hann er giftur konunni sem hann varð ástfanginn af og á með henni tvö uppkomin börn. Hann er með próf úr farmanna- og varðskipadeild Stýrimannaskólans í Reykjavík og rekstrarfræði frá Tækniskóla Íslands. Sigurbjörn á fjölbreyttan starfsferil að baki: Stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni í 50 og 200 sjómílna útfærslunni og síðan lengst af ýmis stjórnunarstörf í fyrirtækjum tengdum sjávarútvegi.

Sigurbjörn hefur líka sinnt ýmsum félagsstörfum og viðspyrnuverkefnum. Hann var m.a. fyrsti formaður stjórnar Aflamiðlunar og stjórnarformaður Fiskmarkaðs Íslands og Íslandsmarkaðar. Á viðspyrnuvettvanginum er Sigurbjörn þekktastur fyrir þátttöku sína í www.kjósum.is og Samstöðu þjóðar gegn Icesave vorið 2011 sem hann hratt af stað. Hann hefur verið virkur á ritvellinum þar sem hann hefur fengist við ritstjórn og þýðingar ásamt því að skrifa greinar í blöð og tímarit um ýmis efni. Sigurbjörn starfaði áður með Samtökum fullveldissinna þar sem hann var formaður.

Guðrún Indriðadóttir er mennaður leikskólakennari en vinnur við bókhald. Hún er gjaldkeri stjórnar SAMSTÖÐU. Guðrún, sem vill láta kalla sig Rúnu, var trúnaðarmaður hjá Eflingu og síðar VR auk þess sem hún hefur setið í trúnaðarráði þessara félaga. Rúna er einn stofnenda fimleikadeildar Fjölnis þar sem hún var gjaldkeri í fjögur ár. Hún situr nú í stjórn íbúasamtaka Grafarvogs.

Rúna hefur mikinn áhuga á velferðar- og lífeyrismálum auk þess sem hún hefur sett sig vel inn í almannatryggingakerfið bæði hér og í Danmörku þar sem hún bjó í sex ár. Hún hafði ekki tekið þátt í starfi stjónmálaflokks áður en hún gekk til liðs við SAMSTÖÐU fyrr á þessu ári. Rúna var kjörinn í stjórn SAMSTÖÐU-Reykjavík á stofnfundi aðildarfélags í Reykjavíkurkjördæmi 12 mars sl. og í stjórn flokksins þann 7. október.

Jón Kr. Arnarson er ritari stjórnar. Hann er garðyrkjufræðingur og starfar sem verkefnastjóri hjá Landbúnaðarháskólanum á Reykjum í Ölfusi. Jón hefur starfað við garðyrkju og skógrækt stærstan hluta síns starfsferils. Fyrst sem forstöðumaður Ræktunarstöðvar Reykjavíkurborgar, þá sem framkvæmdastjóri Skógræktarstöðvarinnar Barra hf. á Egilsstöðum og síðar sem framkvæmdarstjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Hann sat í nokkur ár í bæjarstjórn og bæjarráði Austur-Héraðs. Þá tók Jón þátt í starfi Borgarahreyfingarinnar fyrir þingkosningar 2009 og hefur tekið sæti á Alþingi sem varamaður. Jón hreifst af dugnaði og baráttuþreki Lilju Mósesdóttur á þingi og skráði sig í SAMSTÖÐU fljótlega eftir að flokkurinn var stofnaður. Hann er giftur Kristínu G. Magnúsdóttur deildarstjóra við Sunnulækjarskóla á Selfossi. Þau eiga þrjú börn.

Vilhjálmur Bjarnason er ekki fjárfestir en hann er fjölskyldufaðir og eiginmaður. Samtals eiga hann og konan hans 6 börn á aldrinum fjögurra til 25 ára. Vilhjálmur er einn af stofnendum SAMSTÖÐU flokks lýðræði og velferðar og er nú meðstjórnandi í stjórn flokksins ásamt því að vera ritari framkvæmdaráðsins og eiga sæti í aðildarfélagi flokksins í Suðvesturkjördæmi.

Vilhjálmur hefur starfað sem fasteignasali á fasteignasölunni Húsið seinustu 20 ár en undanfarin þrjú ár hefur hann verið mjög upptekin vegna sjálfboðaliðastarfa með Hagsmunasamtökum heimilanna. Hann hefur verið stjórnarmaður og varaformaður samtakanna á þessu tímabili. Hann hefur barist fyrir leiðréttingu bæði gengis- og verðtryggðra lána heimilanna ásamt því að benda á gríðarlegan framfærsluvanda þeirra. Með kæru Hagsmunasamtaka heimilanna á verðtrygginguna, sem lögð var fram nú í haust, vonast Vilhjálmur til að sjá upphafið á þeim viðsnúningi sem allir eru að bíða eftir fyrir íslenskt þjóðfélag.

Jón Þórisson er meðstjórnandi í stjórn SAMSTÖÐU. Hann er menntaður í skipulagsfræðum og byggingarlist frá Arkitektaskólanum í Kaupmannahöfn.  Hann hefur starfað sem arkitekt á Íslandi og í Hollandi, þar sem hann var búsettur í 10 ár.  Jón sat í stjórn bókaforlagsins Svart á hvítu og hefur unnið að heimildarmyndum í samstarfi við Hugo film.

Jón var aðstoðarmaður Evu Joly, ráðgjafa sérstaks saksóknara, og er nú forstöðumaður Stofnunar Evu Joly á Íslandi. Hann átti sæti í fyrstu stjórn International Modern Media Institute og er áfram varamaður í stjórn þar. Undanfarin ár hefur hann látið samfélagsmál til sín taka og tók þátt í baráttunni gegn sölunni á HS Orku til Magma Energy og hefur líka beitt sér í svokölluð Nubo-máli. Jón gekk til liðs við Samstöðu fyrir fyrsta landsfund flokksins og situr nú í stjórn og framkvæmdaráði.

Þollý Rósmunds er annar varamaður í stjórn SAMSTÖÐU. Hún hefur starfað við ýmis skrifstofustörf bæði í einkageiranum og hjá hinu opinbera. Í mörg ár starfaði hún fyrir frjáls félagasamtök sem börðust gegn fíkniefnavandanum og ferðaðist um allt land í tengslum við þau störf. Þar með var áhugi hennar á hinum ýmsu málefnum landsbyggðarinnar vakin.

Þollý hefur komið nálægt ýmsum menningarmálum en hún hefur skrifað tvær bækur, Frá fíkn til frelsis og Í gegnum eldinn, ásamt Ísaki Harðarsyni. Einnig hefur hún séð um dagskrárgerð fyrir útvarp í fjölda ára; bæði tónlistar- og viðtalsþætti. Í dag starfar Þollý sem söngkona og rekur meðal annars eigin hljómsveit, Blússveit Þollýjar. Hún hefur líka tekið virkan þátt í ýmsum viðspyrnuverkefnum frá hruni. Meðal annars baráttunni gegn Icesave og Tunnubyltingunni svokölluðu. Þollý hefur ekki tekið þátt í starfi stjórnmálaflokks áður.

Axel Þór Kolbeinsson er annar varamaður í stjórn SAMSTÖÐU. Hann er fæddur í Reykjavík en hefur búið öll fullorðnisár sín á Austfjörðum og Suðurlandi. Axel Þór starfar sem tölvutæknir en hefur utan þess mest unnið við fiskvinnslu. Hann tók virkan þátt í verkalýðshreyfingunni í mörg ár og var trúnaðarmaður fyrir erlenda ríkisborgara. Axel Þór er giftur, á tvö fósturbörn frá fyrra sambandi og er mikill dýravinur sem elskar ketti.

Það gustaði vel um Axel Þór þegar hann tók að sér að sjá um uppsetningu og umsjón vefsins kjósum.is vorið 2011. Axel Þór átti sæti á framboðslista Nýs afls fyrir alþingiskosningarnar 2003 en var ekki félagsmaður þeirra samtaka.  Hann er einn af stofnendum og fyrrverandi stjórnarmaður í Samtökum fullveldissinna.