Ég mun kjósa SAMSTÖÐU

Categories
Gestapennar

Bréf frá kjósanda:

Ég hef tekið afstöðu fyrst og fremst vegna þess sem ég hef heyrt frá Lilju Mósesdóttur á Alþingi og í sjónvarpsþáttum þó að hún hafi ekki fengið eins mörg tækifæri þar eins og hún á skilið. Mér finnst að í framsetningu hennar kveði við nýjan tón hvað varðar ýmis mál. Þó einkum fjármál heimilanna sem er mál sem að núverandi ríkisstjórn hefur algjörlega komið sér hjá að taka á.

Ég trúi bara ekki öðru en að það verði ríkistjórnarflokkunum að falli í næstu kosningum. Og hvern fjandann gerir fólk þá? Kýs það þá flokka sem bjuggu til það lagaumhverfi sem fól í sér markaðshyggju og frelsi til óskiljanlegra fjármálagjörninga sem ollu því að hrunið hér á landi varð eins þungt og raun ber vitni? Ég alla vega segi nei! og mun kjósa nýtt fólk (SAMSTÖÐU) inn á þing þó svo að skoðanakannanir bendi til að ég sé að kasta atkvæði mínu á glæ. En geri ég það ekki líka ef ég sit heima eða skila auðu?

Þess vegna hef ég tekið þá afstöðu að kjósa SAMSTÖÐU í næstu kosningum nema ef vera skyldi að ég hnjóti um eitthvað óvænt í stefnuskrá þeirra sem ég er algjörlega andsnúinn. Það þarf þó að vera eitthvað alveg djöfulegt og stórt til að það skyggi á öll þau ágætu mál sem SAMSTAÐA hefur á stefnuskrá sinni.

[…]

Mér finnst hins vegar að Lilja Mósesdóttir hafi verið samkvæm sjálfri sér allt frá síðustu kosningum. Hún sagði sig úr VG þegar hún sá að VG ætlaði ekki að standa við þau loforð að mynda skjaldborg um heimilin. Mér finnst hún hafa staðið fyrir sinni meiningu og hún hefur ekki fallið í þá gryfju að selja sig öðrum stjórnmálaöfum þrátt fyrir að fylgi SAMSTÖÐU hafi dalað mikið frá því hún kom fram og boðaði sérframboð.