Yfirlýsing frá stjórn SAMSTÖÐU

Categories
Fréttir

Stjórn SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu á fjölmiðla í kjölfar yfirlýsingar Lilju Mósesdóttur (sjá hana hér):

Stjórn SAMSTÖÐU virðir ákvörðun Lilju Mósesdóttur um að ætla ekki að gefa kost á sér til áframhaldandi þingsetu. Það verður mikill sjónarsviptir af Lilju Mósesdóttur af Alþingi þar sem hún hefur unnið mikilvægt starf og málflutningur hennar hefur vakið verðskuldaða athygli og haft mikil áhrif. Hún hefur komið fram með lausnir á raunverulegum vandamálum almennings og efnahagslífs og þorað að tala um hlutina eins og þeir eru. Sú vinna og þær lausnir sem Lilja hefur lagt til eru enn til staðar hjá SAMSTÖÐU og í boði fyrir íslensk heimili.

Að SAMSTÖÐU stendur fjölbreyttur hópur einstaklinga og mikil vinna hefur verið lögð í málefnastarf og stefnumótun sem og undirbúning framboða í öllum kjördæmum. SAMSTAÐA fagnar því að Lilja Mósesdóttir verður áfram innan raða flokksins þó hún fari ekki fram til Alþingis.

Margir einstaklingar hafa sýnt áhuga á framboði fyrir SAMSTÖÐU fyrir næstu Alþingiskosningar og framundan er vinna við að setja fram lista í öllum kjördæmum. Framundan er mikið verk að vinna fyrir heimilin og landsmenn og vill SAMSTAÐA gefa kjósendum valkost í næstu Alþingiskosningum á góðu fólki sem er tilbúið í þá vinnu.

Stjórn SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar

Mynd af stjórn SAMSTÖÐU sem var tekin á landsfundi flokksins í byrjun október skömmu eftir kosningu hennar. Í stjórn eru talið frá vinstri: Guðrún Indriðadóttir, Sigurbjörn Svavarsson, Jón Kr. Arnarson, Birgir Örn Guðjónsson, en hann er formaður stjórnar, Axel Þór Kolbeinsson, Þollý Rósmunds, Vilhjálmur Bjarnason, Jón Þórisson og Pálmey H. Gísladóttir