Jólakveðja frá SAMSTÖÐU með örfréttum

Categories
Fréttir

Þeir hafa óneitanlega verið þungir síðustu dagarnir nú fyrir jólin hjá SAMSTÖÐU og því kærkomið þriggja daga frí framundan. Ákvörðun Lilju Mósesdóttur var auðvitað reiðarslag fyrir alla sem hafa stutt hana og hennar verk inni á þingi.

Hvaða afleiðingar ákvörðunin hefur fyrir SAMSTÖÐU verður tíminn hins vegar að leiða í ljós. Stjórn flokksins er bjartsýn og vill ekkert frekar en halda möguleikanum til þess að sú stefna sem Lilja mótaði ásamt stofnfélögum sínum verði meðal valmöguleika kjósenda í alþingiskosningunum næsta vor.

Á síðasta framkvæmdaráðsfundi sem var haldinn nú rétt fyrir jólin var gengið frá skipun kjördæmisráða sem er forsenda þess að hægt verði að hefja röðun á framboðslista.  Haft verður samband við þá sem hafa verið skipaðir  nú eftir jólin. Framkvæmdaráðið hefur tekið þá ákvörðun að auglýsa eftir frambjóðendum í fimm efstu sæti listans þar sem þeir sem vilja vinna að stefnu SAMSTÖÐU er boðið að sækja um efstu sætin.

Umsækjendur skila inn vandaðri ferilskrá, eins og við aðrar umsóknir til ábyrgðarstarfa, þar sem gerð er grein fyrir menntun, reynslu og færni. Efstu sæti gætu þýtt starf sem gerir miklar kröfur til þekkingar, staðfestu, úthalds og ábyrgðar gagnvart því verkefni að taka ákvarðanir um rekstur samfélagsins sem fer saman með almannaheill.

Áður en forysta flokksins fer inn í jólafríið vill hún koma á framfæri bestu óskum til allra landsmanna um gleðilega og notalega jólahátíð. Á jólunum er líka gjarnan gefnar gjafir og því langar forystuna að vekja athygli á niðurstöðu tveggja mála frá síðasta þingdeginum fyrir jól. Lilja Mósesdóttir, ásamt þingmanni Framsóknarflokks, færði fram breytingartillögu til hagsbóta fyrir yngri kynslóðirnar sem náðu fram að ganga (sjá nánar hér).

Ábending Lilju varðandi sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum (sjá hér og tengda frétt hér) leiddi til þeirrar niðurstöðu að samþykki Alþingis þarf til að af sölunni geti orðið. Framangreind mál tengjsast lífskjörum almennings og fjármálastefnunni sem má minna á að eru oddamál SAMSTÖÐU. Þó niðurstöðum fyrrgreindra mála verði ekki komið fyrir í pakka undir jólatrénu má sannarlega líta á lyktirnar sem gjöf til þjóðarinnar.

Ritstjórn þessarar síðu fer nú í þriggja daga frí en frétta er að vænta fyrsta virka dag eftir jól. Njótið jólanna!