Forysta SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar óskar félagsmönnum svo og öðrum lands-mönnum gleðilegs árs. Eins vill forystan nota tækifærið og þakka öllum þeim sem hafa lagt flokksstarfinu lið með ýmsum hætti á árinu sem er að kveðja fyrir þeirra ómetanlega framlag.
Það hefur vissulega verið mjög á brattann að sækja fyrir SAMSTÖÐU að koma því á framfæri sem flokkurinn stendur fyrir. Nú fyrir jólin sendi Lilja Mósesdóttir, þingmaður og stofnfélagi flokksins, frá sér yfirlýsingu um að hún hygðist ekki gefa kost á sér til áframhaldandi þingsetu eftir alþingiskosningarnar næsta vor. Ein meginástæðan sem hún dregur fram er skortur „á umbyrðarlyndi á þingi og í pólitískri umræðu gagnvart óhefðbundnum skoðunum og faglegum lausnum á fordæmalausum efnahagsvanda í kjölfar hrunsins.“ (sjá yfirlýsinguna í heild hér)

Í kjölfar yfirlýsingar Lilju tilkynnti stjórn flokksins að framundan væri vinna við að setja saman lista í öllum kjördæmum. Sú vinna hefur að mestu legið niðri síðan vegna jólafría en nýtt ár ætti að leiða það í ljós hvort stjórninni tekst að uppfylla þá ætlun sína að bjóða kjósendum upp á stefnumál SAMSTÖÐU sem valkost í næstu alþingiskosningum.
Til þess að af því megi verða þarf samstillt átak til samstöðu um grundvallarbreytingar eða eins og Lilja Mósesdóttir sagði í lok yfirlýsingar sinnar:
Íslenskt samfélag er, þrátt fyrir efnahagshrun, fast í greipum fámenns valdakjarna stjórnmálanna, atvinnulífsins og embættiskerfisins. Aðeins samstaða þjóðarinnar um grundvallarbreytingar er þess megnug að brjóta á bak aftur hagsmunakerfið sem leiddi til hrunsins og kom í veg fyrir réttláta skiptingu byrða fjármálakreppunnar.