Lilja flytur

Categories
Fréttir

Það er komið að enn einum tímamótunum bæði hjá Lilju Mósesdóttur, formanni SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar, og flokknum sem hún hefur leitt lengst af frá stofnun hans.

Lilja er á förum til Noregs þar sem hún mun starfa við rannsóknastofnun í Ósló á sviði vinnumarkaðs- og velferðarmála frá 1. október n.k. Aðspurð segist hún hlakka til að takast á við ný verkefni og nýtt tungumál í samfélagi sem er opið fyrir gagnrýnni hugsun. Lilja vill koma á framfæri þökkum til samherja sinna og allra þeirra sem stutt hafa málflutning hennar undanfarin ár og tekið þátt í baráttu SAMSTÖÐU.

Stjórn SAMSTÖÐU vill nota þetta tækifæri til að óska Lilju velfarnaðar á nýjum vettvangi og þakka henni framlag til framsækinna stjórnmála í þágu þjóðarinnar en harmar jafnframt að ekki hafi verið meira rými fyrir baráttu af því tagi hér á landi.

Rakel Sigurgeirsdóttir, sem er varaformaður í stjórn SAMSTÖÐU, mun taka við formannsembættinu í flokknum við brotthvarf Lilju.

Mynd tekin á stjórnarfundi SAMSTÖÐU sem haldinn var í lok júlí sl. Talið frá vinstri eru stjórnarfulltrúarnir: Eiríkur Ingi Garðarsson, Rakel Sigurgeirsdóttir, Jónas Pétur Hreinsson, Lilja Mósesdóttir og Hallgeir Ellýjarson.